Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 17:09:37 (7131)


[17:09]
     Gísli S. Einarsson (andsvar) :
    Frú forseti. Einhvers staðar hef ég komið við kaunin á hv. þm. Stefáni Guðmundssyni. Eitthvað var honum sárt um það sem sagt var, eitthvað var þar aumt fyrir.
    Í nál., sem eru tekin saman í eitt, stendur það sem ég sagði: Fyrir liggur í álitum stjórnarandstöðu að þeir telja stjórn Davíðs Oddssonar hafa klúðrað þessum málum gjörsamlega. Ég bið hv. þm. að fara yfir nál. og gá að því hvort það stendur ekki í einu þeirra að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hafi klúðrað málunum. Ég bið hv. þm. að kynna sér það. Þetta eru þrjú álit sem liggja fyrir og í einu þeirra standa þessi orð nákvæmlega orðrétt. ( StG: Hvaða?) Hv. þm. getur kynnt sér í hvaða áliti og ég legg það bara á hann að lesa þessi nál. Það er ekki svo mikið mál, alla vega álitin sjálf fyrir utan það sem fylgir með. Ég sé ekki ástæðu til að svara mikið þessum brigslyrðum um það hvernig kvótakerfið eigi að vera. Ég sagði í minni ræðu, hv. þm. Stefán Guðmundsson, að kvótakerfið þyrfti að vera sveigjanlegra og að því lutu mínar spurningar til hæstv. sjútvrh., hvort ekki þurfi að vera á þann veg að þegar um meðafla er að ræða, eins og þann sem ég nefndi í minni ræðu varðandi steinbítinn sem var í Faxaflóanum --- hvort kerfið þurfi ekki að vera svo sveigjanlegt að það sé hægt að hleypa mönnum til slíkra veiða. Það er sá ósveigjanleiki sem ég tel að sé í kerfinu, að þegar þorskurinn er sendur í fæðingarorlof þá megi menn ekki stunda aðrar veiðar.