Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 17:12:40 (7133)


[17:12]
     Gísli S. Einarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að heyra að það stendur það sem ég sagði í minni ræðu að verið er að ráðast að rótum þessa ósanngjarna kerfis sem við höfum búið við enda finnur hv. þm. Stefán Guðmundsson illilega til. Hann spyr hvort ég muni styðja þessar brtt. sem fyrir liggja. Að sjálfsögðu á ég enn eftir að gera það upp við mig. Ég á eftir að sjá hvort það koma einhverjar aðrar brtt. fram. Ég á eftir að sjá hvernig málin liggja. Ég á líka eftir að fá svar við svona spurningu, eins og ég setti fram, um hvort ekki sé hægt að koma fyrir heimildum til ráðherra til að gera kerfið sveigjanlegra í svona dæmum eins og ég nefndi áðan. Það er það sem ég vil fá að vita.
    Ég hef tekið fullan þátt í því að leggja hér fram tillögur sem hafa verið kallaðar eyðileggingartillögur. Af hverju haldið þið, hv. þm., að tillagan frá sextánmenningunum hafi verið sett fram? Það var að sjálfsögðu til þess að fá fram breytingar. Og ef þið munið það ekki þá get ég sagt ykkur það. Það er í níu liðum sem liggja fyrir brtt. frá því sem frv. var þegar það var lagt fram í desember.