Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 17:14:17 (7134)


[17:14]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið merkilegt að fylgjast með þessari umræðu í dag og ekki síst síðustu ræðum sem haldnar hafa verið af hv. þm. Ég ætla aðeins hér í upphafi að vitna örfáum orðum í ræðu Gísla S. Einarssonar.
    Það er náttúrlega ljóst af ræðu hans hér og þeim svörum sem fram koma hjá hv. þm. í andsvörum að hann hefur ekki gert það upp við sig hvort hann ætlar að styðja það stjórnarfrv. sem hér er til umfjöllunar og meðhöndlunar á þinginu, þrátt fyrir að því hafi margoft verið lýst yfir af þeim sem að þessari ríkisstjórn standa að um þetta mál sé samkomulag. Hv. þm. lýsir því yfir að hann ætli ekki að svara því með stuðninginn við frv. fyrr en fyrir liggur hvaða brtt. muni verða gerðar við málið. ( GE: Hvort þær verði gerðar.) Og hvaða, það hlýtur að vera líka. Það er ekki bara hvort það verði gert heldur hvað í þeim tillögum felst. Að því leyti væri fróðlegt að fá að heyra það hjá hæstv. sjútvrh. hvort það standi til að gera brtt. við frv. eins og það liggur fyrir.
    Hv. þm. Gísli Einarsson talaði hér um mjög mikilvægar breytingar og margslungnar breytingar sem gera þyrfti á þessu fyrirkomulagi og í raun og veru var hann að leggja til allt aðra leið heldur en það fyrirkomulag sem nú er við lýði við stjórn fiskveiða gerir ráð fyrir. Hann talar um sveigjanleika, hann talar í raun og veru alveg um nýtt kerfi. Í öllum meginatriðum eru þær breytingar sem hér er verið að leggja til á gildandi kvótakerfi, á gildandi skipulagi við stjórn fiskveiðanna, það breytist ekki í neinum meginatriðum, það verður áfram búið við sama fyrirkomulag. En tillögur ríkisstjórnarinnar, þá að Gísla Einarssyni undanskildum, eða öllum öðrum fylgismönnum ríkisstjórnarinnar, gera hins vegar ráð fyrir að það sé verið að ganga til baka, það er verið að draga úr hagkvæmninni við stjórnun veiðanna. Það er verið að draga fjármuni frá sjávarútveginum sem býr við stórkostlega erfiðleika og koma á óhagkvæmni. Og um leið og hv. þm. Gísli Einarsson fer að styðja þetta mál, og það verður fróðlegt að fylgjast með því hér í atkvæðagreiðslu, þá er hann að leggja þetta til og leggja blessun sína yfir það um leið og hann er að innleiða aukið atvinnuleysi hjá sjómönnum og landverkafólki. Það er sú ábyrgð sem þeir þingmenn, sem ætla að greiða þessu frv. og þessum brtt. atkvæði sitt hér við afgreiðslu málsins, munu bera. Þeir munu bera ábyrgð á auknu atvinnuleysi hjá landverkafólki og sjómönnum.
    Það hefur líka verið merkilegt að hlusta á hv. 5. þm. Norðurl. v. hér í andsvörum og í hlutverki sjútvrh. við þessa umræðu í dag. Í hverju einasta andsvari hefur hv. þm. lagt á það höfuðáherslu að það þyrfti að koma við hagræðingu í sjávarútveginum, það væri grundvallaratriði, ( VE: Erum við ekki sammála um það?) Við erum alveg sammála um það, hv. þm. En það sem okkur skilur að er það að eftir því sem best er vitað ætlar hv. 5. þm. Norðurl. v. að greiða atkvæði með þeim brtt. sem hér eru lagðar til á kvótakerfinu og draga úr hagkvæmninni í sjávarútveginum og koma þannig á óhagkvæmara kerfi heldur en sjávarútvegurinn býr við í dag. ( VE: Hagkvæmni og sátt.) Hagkvæmni og sátt. Á sáttina hefur, hv. þm., ekki enn verið látið reyna. En það hefur og verður látið á það reyna hver hagræðingin eða hvert óhagræðið af þessu fyrirkomulagi verður sem hv. þm. ætlar að taka þátt í að innleiða inn í sjávarútveginn. Atvinnugrein sem berst í bökkum, er rekin með bullandi tapi.
    Það væri gaman að heyra það af vörum hæstv. sjútvrh. hvort hann telur, eins og atvinnumennirnir hafa hér talað um í sínum plöggum, að sjávarútvegurinn þoli það að draga út úr honum 2--3 milljarða kr. Það er gott að vita ef þessi atvinnugrein býr orðið við eins góð kjör og hér er látið í veðri vaka. Enda kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. í blaðaviðtali við Dagblaðið um það leyti sem allar þessar brtt. voru að fara á flot, að hv. þm. lýsti því yfir að þær mundu allar hafa þær afleiðingar að það væri verið að draga úr hagkvæmninni í sjávarútvegi. (Gripið fram í.) Þetta er auðvitað háalvarlegur hlutur, hv. þm., að menn sem lýsa því yfir og gera það vísvitandi að ganga þannig fram gegn undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar að þar eigi að skerða tekjur og þar eigi að koma við óhagkvæmni.
    Því miður eru hér alvarlegir hlutir að gerast nái þetta frv. hér fram að ganga. ( Gripið fram í: Ofan í hallarekstur.) Ofan í hallarekstur og þá óáran sem sjávarútvegurinn býr í raun og veru við. Hér er nefnilega verið að gera tilraun til þess að leysa kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna, það er verið að gera tilraun til að leysa hana, því það er algjörlega óvíst hvaða afleiðingar þessar brtt. muni hafa í för með sér. En það er verið að leysa þetta á kostnað sjómanna. Það er hörmulegt til þess að vita að sjómannasamtökin skuli hafa haft forustu um það að koma því óhagræði á sem hér blasir við. Það er verið að fækka störfum á sjó með gjaldþrotum í bátaútgerðinni sem af þessu mun hljótast. Það er verið að fækka störfum fiskvinnslufólks í landi með því að flytja vinnsluna úr landi. Og það er verið að koma á mismunun milli útgerðaraðila, það er verið að gera þá stóru stærri og þá setja þá minni í þrot. Og fyrir þá hv. þm. sem ætla að greiða þessu máli hér leið í gegnum þingið er það ábyrgðarhlutur að standa svo að verki.
    Staðreyndin er sú að við megum ekki við því að auka á atvinnuleysið, við megum ekki við því eins og blasir við með þessum tillögum. Við þyrftum, eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. hefur lagt ríka áherslu á í þessari umræðu, en þá alltaf eins og hann hafi ekki verið að tala um frv. sjálft, að koma á aukinni hagkvæmni í framleiðslunni. Við þurfum að koma á aukinni framleiðni í atvinnugreininni og við þurfum að koma á aukinni verðmætasköpun. En þetta frv. gerir ráð fyrir að menn fari hina leiðina. ( Gripið fram í: Framsóknarleiðina?) Framsóknarleiðin, hv. þm., liggur fyrir. Hún liggur fyrir í því nál. er 2. minni hluti hv. sjútvn. hefur lagt hér fram þar sem menn mótmæla því að þessi skerðingarleið, kjaraskerðingarleið sjómanna, atvinnuleysisleið landverkafólks og sú óhagkvæmni sem á að leiða yfir sjávarútveginn, verði farin eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Það er rétt að sjávarútvegurinn á í erfiðleikum og þeir erfiðleikar hafa því miður af mörgum verið skýrðir með allt of einföldum hlutum. Einfaldlega verið sagt: Þetta er allt saman kvótakerfinu að kenna. Það er alrangt sem betur fer. Vandinn er nefnilega allt annar og það veit ég að hv. þm., margir hverjir, gera sér grein fyrir. Þó hef ég heyrt hér á umræðum í dag að það eru alls ekki allir sem gera sér grein fyrir því hvar vandi sjávarútvegsins liggur, hverjar ástæðurnar eru, finnst skýringin einföld, það liggi bara í kvótakerfinu. Vandinn er sá að sjávarútvegurinn þarf að búa við miklu minni afla núna heldur en hann hefur þurft að gera á undanförnum árum. Þess vegna er það alveg lífsnauðsynlegt fyrir þessa atvinnugrein að geta fengið að starfa þannig að hægt sé að koma við hagræðingu og sparnaði í rekstri fyrirtækjanna. En þeir sem rugla saman aflabrestinum og kvótakerfinu eru auðvitað á mjög hæpinni leið í þeirri umræðu sem núna fer fram.
    Menn halda því hiklaust fram í þessari umræðu að kvótakerfið hafi brugðist og það mátti vel lesa út úr máli hv. þm. Gísla Einarssonar. Þetta er auðvitað alrangt. Kvótakerfið hefur í raun og veru sannað ágæti sitt sem stjórnkerfi við fiskveiðarnar. Þeim markmiðum er menn settu sér í upphafi með kvótakerfinu má kannski lýsa í fimm meginatriðum. Í fyrsta lagi að tryggja aflahámörkin. Í öðru lagi að skip og byggðarlög nytu þeirrar aflareynslu er aflakvótarnir voru byggðir á þegar kvótakerfið fór af stað. Í þriðja lagi að spara í sóknarkostnaði útgerðarinnar. Í fjórða lagi að auka hagræðinguna og hagkvæmnina í atvinnugreininni með því að opna á framsalið milli skipa. Í fimmta lagi að auka verðmætasköpunina í sjávarútveginum. ( GE: En fiskvöntunin?) Ég byrjaði á því, hv. þm. Gísli Einarsson, að lýsa því, og ég ætla að gera það örlítið nánar, hvernig kvótakerfið hefur verið leið til þess að tryggja aflahámörkin. Það er að vísu alveg rétt að það hefur ekki tekist að vera alltaf innan þess heildarkvóta og heildaraflamarks í ákveðnum tegundum á milli ára. Þar er ekki einvörðungu því kvótakerfi sem nú er við lýði um að kenna. Menn verða að hafa söguna örlítið í huga í þessu samhengi vegna þess að stærstan lífaldur kvótakerfisins eða þann tíma er það hefur verið við lýði hefur verið um tvöfalt kerfi að ræða, aflamark og sóknarmark. Það er auðvitað útilokað að búa við slíkt. Það hefur fyrst og fremst orðið til þess að það markmið hefur ekki náðst að fullu að standa við aflahámörkin er menn settu sér. Hefði kerfið verið einfalt og einvörðungu verið um aflamark að ræða þá er ég sannfærður um að menn hefðu náð mun betri árangri við að halda sig innan heildarkvótans.
    Hins vegar hefur ekki í þessari umræðu né fyrri umræðum um sjávarútvegsmál verið bent á eina einustu leið er menn hafa og geta fullyrt að betur hefði tryggt þau aflahámörk heldur en kvótakerfið hefur gert. Sóknarmarkið er að hluta til og að mörgu leyti mjög líkt því skrapdagakerfi er var við lýði áður en kvótakerfið tók við. Það var ekki leið til að tryggja aflahámörkin. En það má fullyrða að þessi leið sem kvótakerfið er og þetta fyrirkomulag við stjórnun fiskveiðanna er það besta sem við getum búið við í dag til að tryggja að við getum verið innan þeirra aflahámarka er við setjum okkur.
    Auðvitað hefur millifærslurétturinn milli ára einnig nokkur áhrif þarna á, þannig að menn verða auðvitað að horfa á heildarkvótann, ekki bara á einu ári eða tveimur árum, menn verða að horfa yfir örlítið lengra tímabil og bera það saman og skoða hvort mönnum hafi tekist að vera innan heildaraflans. En ég geri mér grein fyrir því að það hefur ekki tekist þó svo að það hafi náðst nokkur árangur þar frá fyrri kerfum.
    Þegar kvótakerfið fór af stað er alveg ljóst að byggðarlögin og skipin fengu þá aflareynslu er þau höfðu haft á undanförnum árum. Auðvitað er það rétt --- sem ég sé að hv. þm. Gísli S. Einarsson er nú að lýsa hér með handapati --- að það er og hefur orðið tilfærsla bæði milli skipa og byggðarlaga, en sú tilfærsla er hluti af þeirri hagræðingu sem af framsalinu hefur orðið og ég mun koma örlítið inn á síðar í ræðu minni og lýsa þeim þjóðhagslega ávinningi sem orðið hefur af þeim framsalsheimildum sem verið hafa í gildandi kvótakerfi. Það hefur orðið sparnaður í sóknarkostnaði útgerðarinnar. Það blandast engum hugur um að það hefur orðið verulegur sparnaður. Bara á fyrsta ári kvótakerfisins, árinu 1983--1984, er talið að sparnaður í sókn hjá útgerðinni hafi orðið bara á því ári 15--20%. Auðvitað hefur hann síðan orðið minni ár frá ári, en það er um raunverulegan sparnað að ræða. Það liggur líka fyrir að framsalið og hagræðingin sem af því hefur hlotist hefur skilað milljörðum inn í sjávarútveginn, milljörðum fyrir þjóðarbúið í þeirri hagkvæmni sem af framsalinu hlýst. Það er þess vegna alveg stórfurðulegt að menn skuli velja þá leið nú þegar sjávarútvegurinn á að mörgu leyti nokkur sóknarfæri að fara í það að skerða við atvinnugreinina með þeim takmörkunum sem hér er gert ráð fyrir.
    Í nál. 2. minni hluta hv. sjútvn. er gerð glögg grein fyrir afstöðu Framsfl. til þeirra breytinga sem hér eru boðaðar á stjórnkerfi fiskveiðanna, sem er auðvitað meiri heldur en á stjórnkerfi fiskveiðanna vegna þess að allar þessar breytingar snerta í raun og veru atvinnugreinina í heild sinni og þær snerta þjóðarbúið í heild sinni. Hv. þm. Gísli Einarsson lýsti því áðan í sinni ræðu og tók stórt upp í sig að mér fannst þegar hann sagði að það væri til háborinnar skammar hvernig sá hópur er kallar sig atvinnumenn hefði komið fram í þessu máli. Mér þykja menn taka nokkuð stórt upp í sig þegar slíkar fullyrðingar eru settar fram. Þeir menn sem þennan hóp skipa eru þeir sem í raun og veru hafa puttann á púlsinum á þessari atvinnugrein. Það eru þeir sem þurfa dag frá degi að reka sín fyrirtæki og í raun er það þetta fyrirkomulag, sem menn eru búnir að innleiða og þær breytingar sem núna á að fara að gera, sem brennur auðvitað á þessum mönnum. Mörg þessara fyrirtækja hafa verið að fara út í stórkostlegar hagræðingar á undanförnum vikum og mánuðum, sem hafa byggt á því frv. er hér hefur legið fyrir um stjórn fiskveiðanna. Dæmi um þetta eru Hornafjörður og Tálknafjörður. Með þeim brtt. sem hér eru boðaðar er fótunum kippt undan öllum þeim aðgerðum sem þessi fyrirtæki hafa gripið til. Mér hefði fundist nær fyrir hv. þm. að fara í smiðju til þessara manna, sem vita um hvað þessir hlutir snúast, heldur en að bregðast þannig við að það sé ekkert mark á þeim takandi því þeir séu með stóryrði og gífuryrði og séu á engan hátt, mér liggur við að segja, trúverðugir, þrátt fyrir að það blasi við að þetta eru þeir menn sem frá degi til dags þurfa að fást við vandamálin sem uppi eru í fyrirtækjunum á hverjum einasta degi.
    Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í nokkrar fullyrðingar sem fram koma í þeirri greinargerð og þeim ábendingum sem atvinnumennirnir hafa viljað koma á framfæri við hv. alþm. þegar á að fara að ganga frá þessu máli. En maður skilur betur þegar maður hlustar á þær ræður frá hv. stjórnarþingmönnum, sem maður hefur hlustað á hér í dag, að ekki skuli verða gerðar neinar breytingar á þessu frv. eins og það liggur nú fyrir þegar viðbrögð þingmanna eru með þeim hætti að menn neita að hlusta og segja: Við vitum þetta allt miklu betur heldur en þeir menn sem í raun og veru eru að fást við vandamálin frá degi til dags. Það lýsir auðvitað nákvæmlega því og það er ástæðan fyrir því að menn hafa neitað að hlusta á þennan hóp sem þó hefur mestu þekkinguna og reynsluna af þessu, með virðingu fyrir öllum þeim hv. þm. sem hér eru þó þeir hafi verið með einum eða öðrum hætti að sýsla við þessi mál á undanförnum árum. Atvinnumennirnir halda því fram að þessar breytingar skerði möguleika á sjálfsagðri hagræðingu sem hægt er að koma við í fyrirtækjunum og segja:
    ,,Eðlilegar kvótafærslur til að mæta breyttum aðstæðum eru takmarkaðar og mikillar varúðar þarf að gæta við alla ákvarðanatöku. Í raun má segja að röng ákvörðun þýði tapað veiðileyfi. Í stað eðlilegrar hvatningar og umbunar fyrir hagræðingu skerðir einstefnuákvæðið, þ.e. 15% reglan, verulega möguleika á því að á hverjum stað eða á hverju skipi séu stundaðar þær veiðar sem mestum verðmætum skila. Virtustu fiskihagfræðingar landsins eru sammála um að minna framsal á veiðiheimildum hafi í för með sér minni verðmæti.``
    Finnst hv. þm. af þessari fullyrðingu sem hér er sett fram ástæða til að taka svo stórt upp í sig eins og hv. þm. Gísli Einarssonar gerði hér áðan, að segja að svona fullyrðingar séu til háborinnar skammar? ( Gripið fram í: Það er rétt hjá honum.) Þessi hópur fullyrðir líka að þetta fyrirkomulag sem hér á að fara að innleiða mismuni stærri og smærri aðilum í útgerð.
    ,,Með takmörkum á veiðiskiptum með veiðiheimildum er útgerðaraðilum mismunað verulega. Heimildir til þess að færa veiðiheimildir á milli báta og skipa innan sömu útgerðar gerir stærri aðilum kleift að

hagræða langt umfram það sem einyrkjum býðst að gera.`` ( Gripið fram í: Það er nú hægt hvort sem er.)
    Þeir fullyrða að þessar tillögur muni leiða til stórminnkaðrar úthafssóknar. ( JÁ: Trúir þú því?) Ég held að það geti orðið á einhvern hátt. En ég gleðst yfir því ef hv. þm. Jóhann Ársælsson er að taka hér sinnaskiptum í umræðunni þrátt fyrir að hafa skrifað sér nál., nál. 1. minni hluta, og í hverju frammíkallinu á fætur öðru er farinn að standa dyggan vörð um þær brtt., að mér finnst, er ríkisstjórnarliðið er núna að leggja hér til. (Gripið fram í.) Já, mér sýnist að stjórnarliðinu sé að verða nokkuð ágengt í þessum efnum. ( Gripið fram í: Vaxa fiskur um hrygg.) Það gæti því farið svo að hv. þm. Gísla Einarssyni gæfist laus taumurinn í þessum efnum ef annar Akurnesingur, hv. þm. Jóhann Ársælsson, ætlar að hlaupa í skarðið fyrir hann.
    Atvinnumennirnir halda því einnig fram að þetta fyrirkomulag muni leiða til aukins útflutnings á óunnum fiski. Ég held að sú fullyrðing liggi nú á borðinu og sé ekki hægt að fara í neinar grafgötur með. En þannig mætti auðvitað lengi halda áfram að vitna í það sem þeir menn, með alla þessa reynslu af rekstri fyrirtækja, hafa af því að hagnýta sér það fyrirkomulag sem núna er við lýði, vara við að tekið verði upp. En því miður, menn ætla ekki að hlusta á það.
    Verkamannasamband Íslands er einnig með verulegar athugasemdir við þær brtt. sem hér er verið að leggja til og lýsir í löngu máli í þeirri greinargerð sem þeir hafa lagt fyrir hv. sjútvn. og fylgir með í fylgigögnum hv. 2. minni hluta sjútvn. Það ber allt að sama brunni og fram kemur í skýrslu atvinnumannanna. Verkamannasambandið hefur áhyggjur af því að þetta muni leiða til aukins atvinnuleysis fyrir verkafólk í fiskiðnaði. Verkamannasambandið hefur áhyggjur af því að fiskvinnslan flytjist út á sjó. Verkamannasambandið hefur áhyggjur af því að sú vinnsla sem verið hefur hér á landi flytjist til annarra landa. Finnst hv. stjórnarþingmönnum, hv. stuðningsmönnum þessarar ríkisstjórnar, þetta bara allt í góðu lagi á sama tíma og átta þúsund manns eru atvinnulausir í landinu?
    En það sem er sennilega alvarlegast í þessu máli er að það sem menn halda að þeir séu að lagfæra og leiðrétta mun sennilega þegar fram líða stundir koma einna verst við sjómannastéttina. Ef þetta frv. sem hér liggur fyrir verður samþykkt þá hygg ég að það muni ekki líða langur tími þar til sjómennirnir fara sjálfir að finna fyrir skerðingunni. Og þá spyr maður sig: Gæti það nú verið svo að það væri eitthvað svipað fyrirkomulag í þessu máli af hálfu Sjómannasambandsins og þeirra hagsmunaaðila og samtaka sjómanna eins og er gagnvart Lífeyrissjóði sjómanna sem hér var til umfjöllunar ekki alls fyrir löngu? Að þær breytingar sem hér eru boðaðar hefðu kannski á engan hátt verið bornar undir sjómennina, heldur væru það topparnir í stjórnunum og starfsmennirnir hjá samtökunum sem væru að taka ákvarðanir og leggja til tillögur við ríkisstjórn sem gætu þegar fram líða stundir orðið til þess að kjörin yrðu stórkostlega skert hjá stéttinni og atvinnuleysi yrði innleitt umfram það sem er nú þegar? Ég velti auðvitað fyrir mér hvort eitthvað slíkt sé í uppsiglingu. Ekki ætla ég að fullyrða það. Nú kann það vel að vera og ég vonast auðvitað til þess að Sjómannasambandið, Vélstjórafélag Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandið hafi haft náið samráð og samstarf við sína umbjóðendur um þær tillögur er þeir leggja svo ríka áherslu á að fá hér samþykktar. En sá grunur læðist að mér að samráðið sé eitthvað svipað og það samráð sem þessir aðilar höfðu við sjómenn í landinu þegar þeir lögðu til og studdu eindregið þær grundvallarbreytingar sem nú er verið að gera á Lífeyrissjóði sjómanna þar sem öll réttarbótin, allar tryggingarnar fyrir ellilífeyri sjómannanna, makalífeyri, örorkulífeyri, makabótum, er öllu kippt út úr lögum og sett inn í reglugerð.
    Reglugerðin var að vísu sýnd með frv., svona rétt til að menn gætu kannski áttað sig á því hvað væri á ferðinni. Bréf komu frá öllum þessum stóru og fínu samtökum, Sjómannasambandinu, Farmanna- og og fiskimannasambandinu og Vélstjórafélaginu, þar sem lýst var yfir stuðningi við þessa aðgerð. En það voru svo sjómennirnir í Sjómannafélagi Reykjavíkur sem óskuðu eftir fundi í efh.- og viðskn. þar sem málið var til umfjöllunar og sögðu: Það hefur aldrei verið talað um þetta við okkur. Fyrir tilviljun sáu þeir reglugerðina. ( GHall: Það er rangt. Það var sérstakur fundur með þessum stjórnarmönnum um lífeyrissjóðsmálin og þessum sem komu til ykkar.) Nú ætla ég ekki að deila við hv. þm. Guðmund Hallvarðsson um það. Ef svo er þá er það gott, hafi fundurinn verið haldinn. En það er verra ef þessir menn hafa sagt nefndinni ósatt. Það er aftur á móti miklu, miklu verra.
    En það er ekki það mál sem hér er til umfjöllunar. ( GHall: Akkúrat.) En það er tekið sem dæmi um það og spurt: Getur það verið og að það skorti eitthvað á samráðið við sjómennina í þessu máli? En prófessor Ragnar Árnason, doktor í fiskihagfræði, hefur sent frá sér sitt álit á þessu frv. Það er nú oft ágætt og oft gripið til þess ráðs hér af hv. alþm., þegar vel liggur á og mönnum finnst henta, að bera þá við að það sé ekki mikið mark takandi á þessum prófessorum og um leið að það séu bara þeir menn sem eru í atvinnulífinu sem menn verði að leita til. (Gripið fram í.) En nú er það svo að það eru bæði mennirnir í atvinnulífinu og prófessorinn sem vara við þeim tillögum sem hérna er verið að leggja til. Ragnar Árnason fullyrðir að það frv. sem hér liggur fyrir sé skaðlegt því fyrirkomulagi sem verið hefur við stjórn fiskveiðanna.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að lokum að vitna örlítið í þá greinargerð er prófessorinn hefur sent frá sér. Það ætla ég að gera vegna þess sem ég sagði hér áðan að ég hygg að það verði ekki mjög langur tími liðinn frá því að það fer að reyna á þær lagabreytingar sem hér er verið að gera þar til sjómennirnir átta sig á því að þarna hefur verið illa af stað farið. Til að stytta mál mitt ætla ég ekki að lesa alla greinargerðina frá Ragnari Árnasyni heldur vitna í hana, með leyfi forseta. Þar segir:
    ,,Hömlur á þetta framsal eru að sama skapi skaðlegar. Mikilvægt er að átta sig á því að það eru ekki einungis útgerðarmenn heldur öll þjóðin sem ber þennan kostnað. Kostnaðurinn við hömlur á framsal kvóta er að hluta til borinn af fiskvinnslufólki vegna breytinga í vinnslu og vinnsludreifingu fiskafla. Kostnaður við takmarkað framsal kvóta er að hluta borinn af sjómönnum vegna þess að minni virðisauki í útgerð þýðir óhjákvæmilega lægri laun til sjómanna, a.m.k. þegar fram í sækir. Kostnaður við takmarkað framsal er að lokum borinn af þjóðinni í heild, annars vegar vegna lægri opinberra gjalda útgerðarinnar og hins vegar lægra gengis krónunnar en þörf hefði verið á.``
    Hvað segir þetta? Það er fiskvinnslufólkið, það eru sjómennirnir sem eiga að bera þetta, en það er sjómannaforustan sem er að berjast fyrir að koma þessu á og það er þjóðin öll sem verður fyrir skaða. Það er auðvitað alvarlegt að ætla þegar þessar staðreyndir liggja fyrir frá Ragnari Árnasyni, prófessor í fiskihagfræði, frá mönnum úr atvinnulífinu, að troða þessu með bolabrögðum í gegnum Alþingi.