Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 17:53:17 (7138)


[17:53]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hefur gengið mjög illa að fá framsóknarmenn til þess að rökstyðja það hvernig þeir geta fært sönnur á að einhver takmörkun á framsali, eins og gert er ráð fyrir í brtt. meiri hluta, muni þýða milljarðatap. Nú hafa framsóknarmenn tekið upp á því að vitna til fræðimannsins Ragnars Árnasonar, en hvernig rökstyður hann þetta? Hann segir það að með því að hagkvæmasti hluti flotans veiði þær aflaheimildir sem sá óhagkvæmasti hlutinn er að veiða í dag megi leiða að því rök að það geti þýtt að það verði milljarðasparnaður í þessu kerfi. Það er með öðrum orðum greinilegt að það sem hv. framsóknarmenn vilja gera er að færa aflaheimildirnar frá því sem þeir kalla óhagkvæmasta hluta flotans til þess sem þeir kalla hagkvæmasta. Og hvaða hluti er sá óhagkvæmasti miðað við arðsemiskröfurnar og miðað við afkomutölurnar? Það er bátaflotinn sem þeir þó sjálfir þykjast bera fyrir brjósti. Og hvaða hluti flotans er hagkvæmastur, og hefur mesta arðinn? Það eru frystitogararnir. Og svo voga þessir menn sér að tala þannig að það sé eitthvert sérstakt kappsmál þeirra að koma í veg fyrir aukna frystitogaravæðingu. Þeirra málflutningur, þeirra tillaga mun leiða til að aukinnar frystitogaravæðingar og að hlutur bátaflotans í landinu verði minni.