Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 17:56:53 (7141)


[17:56]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni að það er mjög mikilvægt að um það fyrirkomulag sem við höfum byggt upp um stjórnun fiskveiðanna ríki sátt. Það sem framsóknarmönnum tókst þann tíma sem þeir báru ábyrgð á þessum málaflokki, öll árin við allar þær breytingar sem gerðar voru á þessu fyrirkomulagi var að skapa sátt um þetta fyrirkomulag. ( SJS: Er það ekki ofmælt?) Nei, hv. þm., það er ekki ofmælt. Þeim tókst að skapa sátt um þetta fyrirkomulag við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og stóran hluta Alþingis. Þess vegna tel ég, hv. þm., að menn hefðu átt að stíga eitt skref í einu, byrja á því nú og semja um það við sjómenn að lögfesta samráðsnefndina og greiðslumiðlunina og skiptaverðmætið. Síðan að sjá til hvað framtíðin hefði borið í skauti sér og taka þá á, ef nauðsynlegt hefði verið, framsalsvandamálum sem ég fullyrði að muni ekki koma í veg fyrir þátttöku sjómanna í kvótakaupum.