Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 18:03:22 (7146)


[18:03]
     Guðmundur Hallvarðsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að hlusta á hv. 11. þm. Reykv., Finn Ingólfsson, tala svo mjög um sjávarútveginn sem hann hefur gert og minnast ekki einu orði á þá staðreynd að 80% útgerðar er samtvinnað fiskvinnslu. Varðandi stýringu á vinnslu afla og veiða er það því nær hvort öðru en hér hefur verið látið í veðri vaka.
    Annað sem er athyglisvert er að þingmaðurinn talar um að hann hafi mikinn áhuga á því að ganga í smiðju til atvinnumanna í fiskvinnslu. Þar er einn ágætur sem heitir Einar Svansson, Fiskiðju Skagfirðinga. Hann hefur verulegar áhyggjur af því að fólk í fiskvinnslu sé að missa atvinnu sína. Og þessi sami ágæti útgerðaraðili, og þess hef ég getið áður, hv. þm. Stefán Guðmundsson, (Gripið fram í.) hefur stuðlað að því að 3.600 tonn af ferskum fiski voru flutt frá þessum útgerðarstað til sölu erlendis. Þetta er sá aðili sem Finnur Ingólfsson vill ganga í smiðju til. Þetta er sá aðili sem hefur tungur tvær og talar sitt með hvorri og hefur svo miklar áhyggjur af atvinnumálum fiskvinnslufólksins.