Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 18:04:50 (7147)


[18:04]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst það kannski ekki skipta höfuðmáli í þessari umræðu og það eru reyndar hlutir sem hafa legið mjög lengi fyrir, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, að 80--85% af útgerð eru í eigu fiskvinnslu eða öfugt. En það finnst mér ekki skipta höfuðmáli í því sem við erum að fjalla um nú og þess vegna leiddi ég það hjá mér í umræðunni. Ég er hins vegar tilbúinn til þess við aðrar kringumstæður að fjalla um það. Ég sagði einfaldlega að ég væri tilbúinn til að ganga í smiðju til þeirra manna er ég tel að hafi besta þekkingu og mesta reynslu á þessum málaflokki, manna sem eru að fást við þau vandamál sem uppi eru í sjávarútveginum frá degi til dags.
    Þeir sem vilja hins vegar ekki hlusta á þá og vilja ekki hlusta á viðvaranir prófessors Ragnars Árnasonar, í fiskihagfræði við Háskóla Íslands, eru illa á vegi staddir. Og það er von að þeir sem ekki eru tilbúnir til að hlusta á þessa menn séu nú að leggja það til að leiða yfir sjávarútveginn verri tíð og meiri óhagræðingu en þar er nú.