Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 21:03:02 (7158)


[21:03]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er vanur að halda mínar kvöldræður svona klukkan hálftvö að nóttu og biðja um að þingi sé frestað. Nú ætla ég að flýta þeirri ræðu. Ég held það væri mjög mikilvægt, hæstv. forseti, að þessum fundi yrði frestað og verkefni kvöldsins alla vega hjá stjórnarliðum yrði það að þeir læsu umsagnir um þetta frv. Hér stöndum við einn þingmann að því að hann hefur ekki lesið sitt heimaverkefni. ( Gripið fram í: Er það Guðni?) Hann segir að það sé sátt um málið. Ég skora á hann að lesa öll þau varnaðarorð sem standa í þingskjölum um þetta mál. Hann segir að þetta sé skref í áttina. Ég veit að hann telur það vera skref í áttina því auðvitað ætlar Alþfl. að eyðileggja fiskveiðistjórnarkerfið til þess að koma á auðlindaskatti. Það er næsta skref. Auðvitað hefur hann leitt Sjálfstfl. þennan mjóa stíg eftir berginu til þess að fella hann út af berginu og koma sínu verki fram.
    Ég mótmæli því, hæstv. forseti, það er ekkert í þessu máli sem lýtur að því að koma á sátt, hvorki í þinginu né í þjóðfélaginu. Ég lýsi því enn yfir að ég nenni vart að hnakkrífast við vanlesna þingmenn um þau þingskjöl sem hér liggja frammi. En ég treysti hæstv. sjútvrh. sem fer fyrir liði í stóru kjördæmi að hann skoði sinn gang og ræði þetta mál með nýjum hætti og leiti nýrrar samstöðu í þessu máli og láti ekki leiða sig í þessa voðalegu gildru.