Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 21:05:15 (7160)


[21:05]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í frv. því sem sjútvrh. lagði fyrir þingið var eitt stórt skref til aukinnar hagkvæmni í kvótakerfinu. Það var fiskvinnslukvótinn. Því miður hefur þurft að draga það mál til baka til þess að koma til móts við sjómenn og útvegsmenn um þetta mál. Þetta mál mun hins vegar á næstu árum koma aftur til umfjöllunar í þinginu og þá vona ég að hv. þm. Guðni Ágústsson muni styðja það mál og leggjast á eitt með okkur við að ná því í gegn.
    Það er athyglisvert, hv. þm. Guðni Ágústsson, að í úttekt sem Þjóðhagsstofnun hefur sent frá sér um gagnrýnisatriði atvinnumannanna svokölluðu er ekki tekið undir gagnrýni þeirra í einu einasta atriði. Ekki í einu einasta atriði. Málið er einfaldlega það að þær þrengingar sem verið er að gera á framsalinu þrengja á engan hátt möguleika til hagkvæmra viðskipta heldur einungis möguleika til þess að stunda viðskipti sem beinlínis eru í því skyni að lækka laun sjómanna. En hagkvæm og eðlileg viðskipti geta áfram verið stunduð.
    Það er meira að segja í svari Þjóðhagsstofnunar sérstaklega tekið á fyrirtækjum eins og Vinnslustöðinni og Borgey og sagt að þau fyrirtæki geti eftir sem áður náð svipaðri niðurstöðu með tilfærslu á varanlegum kvóta og sérstökum samningum milli aðila. Það er sagt að úthafsveiðar geti verið áfram. Og það er sagt að ekki sé rétt að útflutningur á ísfiski í gámum muni aukast. Það er svo margt og margt sem kemur fram í þessari gagnrýni sem Þjóðhagsstofnun tekur ekki undir.