Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 21:07:46 (7161)


[21:07]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Illa er nú komið fyrir hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni að hann hlustar ekki lengur á rödd atvinnulífsins heldur steinrunna menn uppi í Þjóðhagsstofnun og telur þá þá einu sem tala um sannleikann í þessu máli. Auðvitað liggur það fyrir og það veit hæstv. sjútvrh., svo ég vitni til hans, að margar hinar litlu útgerðir óttast hvernig á að fara með framsalið ( EgJ: Hver bað um þetta álit?) og þá mismunun sem verður á milli útgerðanna. --- Hver bað um álit? ( EgJ: Þjóðhagsstofnunar.) Mér finnst sjálfsagður hlutur að fá álit hjá Þjóðhagsstofnun. ( Sjútvrh.: Þó hún sé steinrunnin?) Hún hefur kannski ekki alltaf sagt sannleikann.
    En hv. þm. Vilhjálmur Egilsson talaði um að fiskvinnslukvóti væri stórt skref. Ég sagði í minni ræðu að ég væri alveg opinn fyrir því. ( Gripið fram í: Heyrði Stefán það?) Mig varðar ekkert um það, við hugsum ekki alltaf alveg eins við Stefán.
    ( Forseti (VS) : Hv. þm.)
    Hann svarar fyrir sig, ég svara fyrir mig. Ég vildi segja það að ég get vel sest yfir það verkefni og tel að það eigi að kanna það hvort einhver lágmarksfiskvinnslukvóti sé skynsamleg leið. Því eins og ég sagði verðum við að horfa til langrar framtíðar í þessu máli og stöndum í sífellu frammi fyrir nýjum og nýjum aðstæðum. (Forseti hringir.)
    Ég ætla að biðja hv. þm. Vilhjálm Egilsson að minnast þeirra göfugu markmiða sem sett voru fram bæði af nefndinni og ekki síður hæstv. sjútvrh.