Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 21:47:52 (7165)


[21:47]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Nú sendur svo á fyrir norðan að það er erfitt að veiða þorsk á togara og ísfisktogaraútgerð ber sig ekki með því að beita togurunum á þorsk. Hvaða refsingar vill hv. þm. leggja á útgerðir slíkra togara? Vill hann rífa af þeim kvótann varanlega? Mér finnst mjög eðlilegt að útgerðir þessara togara leiti leiða t.d. með því að beita skipunum á karfa, beita þeim á rækju og fá síðan aðra aðila til að veiða þorskaflaheimildir fyrir þær í staðinn. Ég sé nákvæmlega ekkert að þessu. Það er mjög auðvelt að reikna það út þvílík óhagkvæmni það væri ef togararnir ættu að flengjast hringinn í kringum landið til að reyna að reyta upp þorskinn við lítinn árangur. Það er afar auðvelt að finna það út, en það nennir enginn að standa í því að reikna slíkt dæmi út.
    Að lokum, hv. þm., spurningin um sameign þjóðarinnar á fiskstofnunum snýst ekki um veiðileyfagjaldið. Það snýst um það að setja þær leikreglur sem skila þjóðinni mestum arði. Það er ekki fengið með því að leggja veiðileyfagjald á sjávarútveginn. Það er fengið með því að sjávarútvegurinn geti hagnast og geti haldið uppi háu gengi og góðum lífskjörum.