Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 21:49:43 (7166)


[21:49]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hef þá skoðun að gamla aðferðin sé best í sambandi við það ef menn fiska ekki þann fisk sem þeir ætla sér að veiða. Það er bara að það verði að vera þeirra vandi og það eigi ekki að þýða það að mönnum sé bannað að veiða fisk þar sem hann er fyrir hendi á miðunum. Það er þess vegna sem ég tel það óeðlilegt að þetta fiskveiðistjórnunarkerfi sé byggt þannig upp að þegar betur fer að veiðast á miðunum kringum fiskiþorpin, sem eru til vegna fiskimiðanna, þá fái þau ekki að njóta þess, en einhver önnur fiskiþorp, einhvers staðar annars staðar á landinu, eigi veiðiréttinn. Það er einfalt hvernig á að koma í veg fyrir það. Það á að leyfa breytingar á þessum hlutum. Það á ekki að leyfa að veiðiheimildir séu notaðar með þeim hætti sem gert er.
    Þetta um sameign þjóðarinnar getur nú ekki gengið sem svar. Það getur ekki gengið og þjóðin mun aldrei skrifa upp á það til framtíðar að kalla það sína sameign, sem er meðhöndlað sem eign, sem er afskrifað og fært í bókhaldi sem eign manna og sem er að sýna sig að er að verða til þess að við erum að missa raunveruleg yfirráð yfir nýtingu fiskstofnanna vegna þeirra réttinda sem þeir telja sig eiga sem hafa kvóta í sínum höndum.