Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 21:54:45 (7170)


[21:54]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tel að það sé ekkert athugavert við það að menn kaupi fisk og flytji hann hvert sem þeir vilja. En ég tel athugavert að kerfið sem við höfum bjóði upp á það að með eignarhaldi sínu á veiðiheimildum fái menn lægra hráefnisverð sem er notað til að flytja til sín aflaheimildir frá öðrum svæðum. Þar er raunverulega á ferðinni sú aðferð að láta sjómenn og kvótalitla útgerðarmenn borga þessa flutninga og gera þessa fiskvinnslu hagkvæma, sem mundi kannski ekki vera það ef hún hefði ekki þessa möguleika. Það er ekki verið að tala þarna um neina kerfisbreytingu. Það er bara verið að tala um að það er óeðlilegt að menn geti í skjóli þessa eignarhalds á kvótanum keyrt niður hráefnisverðið og þannig myndast samkeppnisaðstaða sem mun valda því að aðrir aðilar munu heltast úr lestinni. Þeir geta ekki keppt með öðrum ráðum en þessum.