Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 21:57:33 (7172)


[21:57]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hlutirnir eru ekki einfaldir. En það veit þó hv. þm. vel að í þessum viðskiptum er það einfalt að verðmæti aflaheimildanna er dregið frá aflaverðmætinu. ( JGS: Við hvað er miðað?) Það er miðað við markaðsverð aflaheimildanna og það er miðað við markaðsverð fisks á svæðinu. Þeir sem fylgjast vel með sjónvarpi sáu t.d. þátt á Stöð 2 í vetur þar sem einn af þeim mönnum, sem talinn er einna mesti afreksmaðurinn í þessum efnum, lýsti því með hvaða hætti þetta gengi fyrir sig og það er nákvæmlega svona. Það var bara ákveðið markaðsverð notað á fiskinn og síðan var þetta markaðsverð á veiðiheimildunum dregið frá. Þannig að það fer ekkert á milli mála hvað er að gerast og það fer ekkert á milli mála að í framtíðinni mun þetta ráða úrslitunum í byggðaþróun í landinu ef þetta fær að halda fram sem horfir.