Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 22:00:32 (7174)


[22:00]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það getur varla verið að hv. þm. meini það sem hann er að segja vegna þess að þær tölur sem ég bar hér fram eru frá Fiskifélagi Íslands og þær sýna hver þróunin hefur verið. Hefði kvótakerfið skilað árangri í því efni að auka afköst í fiskveiðum þá hefði það komið fram í þessum tölum. Hvernig fara menn að því að finna út aukna hagkvæmni í útgerð? Er það ekki með því að skoða niðurstöðutölurnar af því sem verið er að gera? Það hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að afköst útgerðarinnar hafi aukist. En ég benti á það í minni ræðu áðan, til þess að koma í veg fyrir þennan misskilning sem hv. þm. virðist vera haldinn, að á því tímabili sem ég var að vitna til þá hefur flotinn svipuð verkefni og hann hafði áður. Það munar ekki nema 2%. Ef verkefni fiskiskipanna hefðu nú gengið á milli þannig að verkefnin hefðu færst til og raðast til þeirra sem hagkvæmasta útgerð hafa þá hefði það átt að koma fram í þessum tölum, en það hefur ekki gert það. Og fjárfestingin í útgerðinni, fjárfestingin í stærri vélum og öðru því um líku, heldur áfram. Og hún heldur áfram eftir að sóknarmarksskipin fara af sóknarmarkinu því langstærsti hlutinn af þessu skeður eftir 1987.