Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 22:37:39 (7178)


[22:37]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Framsfl. eru nú að feta sína venjulegu villigötuslóð í umræðum um stjórn fiskveiða. Að þessu sinni hafa þeir gert mikið úr því að þjóðfélagið verði fyrir milljarðatapi ef einhverjar skorður verða reistar við framsali aflaheimilda. Þannig að ætli löggjafarvaldið sér að setja einhverjar takmarkanir frekar en nú eru þá séu menn að búa til leikreglur sem skaði þjóðfélagið um milljarða króna. Þetta er málflutningur Framsfl. í þessu máli í öllum meginatriðum. Þar fyrir utan hefur einn þingmanna flokksins haldið því fram að á fyrstu árum kerfisins hafi orðið gríðarlegur sparnaður af því. Þetta er mjög athyglisvert í ljósi þess að á þeim árum voru framsalsheimildir í þessu kerfi afar takmarkaðar, miklu takmarkaðri heldur en þær eru í dag og miklu takmarkaðri heldur en þær yrðu þótt þær tillögur næðu fram að ganga sem stjórnarliðið leggur til. Þannig að þeir hafa verið með málflutning í tvær áttir. Annars vegar það að kerfi með miklu takmarkaðri framsalsheimildir en hér er lagt til hafi skilað milljarða hagnaði og hins vegar málflutning um það að þær hinar sömu takmarkanir þýði milljarða tap fyrir þjóðfélagið.
    Ég tel að þingmenn Framsfl. verði að gera það upp við sig hvorn málflutninginn þeir ætla að velja í þessu máli.