Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 22:43:44 (7182)


[22:43]
     Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Stefán Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Það líður sjálfsagt að lokum þessarar umræðu um þetta yfirgripsmikla mál, stjórn fiskveiða, sem er tvímælalaust eitt allra stærsta mál þingsins sem við höfum fjallað um á liðnum vetri. Það þarf engan að undra þó að það taki drjúga stund að skipast á skoðunum því svo sannarlega eru hér gerðar breytingar á því kerfi sem við höfum búið við sem ég hef orðað svo að væru skemmdarverk á þeim aðferðum sem beitt hefur verið við stjórn fiskveiða. Það kemur einnig fram hjá yfirgnæfandi meiri hluta þeirra aðila sem sjútvn. hefur leitað álits hjá eða hafa mætt til viðtals við nefndina um þessi mál. Menn hafa lagt þunga og mikla áherslu á að menn reyndu að koma einhverju meira viti í þær tillögur sem meiri hlutinn flytur. En því miður, eftir því sem líður á þessa umræðu, þá dofnar sú von sem ég þó vissulega hafði að menn gætu kannski og vildu reyna að ná eitthvað lengra til sátta. Ég hafði satt að segja lengi vænst þess að alþingismönnum tækist að ná þokkalegri sátt í þessu máli. Ég held að þeir sem í greininni starfa og reyndar þjóðin öll þurfi nú fremur en oft áður á því að halda að það takist nokkuð víðtæk samstaða í þessu

mikla máli. Því vildi ég enn og aftur nota tækifærið og brýna hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála og þá sem þetta mál mæðir hvað mest á í þinginu af stjórnarliðunum að hugsa sinn gang vel og reyna og vita um hvort ekki væri hægt að ná sæmilegri sátt. Því um þessar tillögur sem við erum nú að ræða verður aldrei friður. Það er ljóst af viðtölum okkar og viðræðum við það fólk sem til okkar hefur komið og starfar í þessari atvinnugrein.
    Það er gömul umræða sem oft hefur farið fram og kannski ætti ekki að þurfa að vera að minnast á aftur en hún kemur samt alltaf upp, æ ofan í æ, þ.e. hver á fiskinn í sjónum. Og það eru nánast alltaf sömu mennirnir í þingsalnum sem spyrja. Það er ljóst að þjóðin á fiskinn í sjónum. En það er hins vegar samið um nýtingarrétt þessarar auðlindar og aðgang og umgengnisrétt að hafinu. Það er jú málið.
    Hv. þm. Jóhann Ársælsson vék að tillögum okkar framsóknarmanna þannig að ég ætla aðeins að fara yfir þær. Hv. þm. vék að tillögum sem þingmenn Alþb. hafa lagt fram núna í þessu máli en það hefði verið fróðlegt og væri gaman að því á eftir, því ég reikna með að þingmenn Alþb. eigi eftir að tala enn drjúga stund um málið, að heyra um tillögur Alþb. sjálfs. Hverjar eru tillögur Alþb. í sjávarútvegsmálum?
    Ég man eftir þeim tíðindum þegar menn stóðu úti á götu heima á Sauðárkróki meðan fundur Alþb. stóð yfir og var verið að fjalla um sjávarútvegsmál. Menn biðu hvort þeir sæju reykinn stíga upp af vígi Alþb. heima á Sauðárkróki hvort samkomulag hefði tekist eða ekki. Ég man ekki hvað þingslitum var frestað oft en ég er alveg viss um að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson man hvað þurfti oft að slíta fundi og fresta fundi meðan sáttaumleitanir fóru fram um að ná saman í þessu stefnumáli. Það væri fróðlegt að rifja það upp hver stefnan varð. Hver varð hún? Varð hún eitthvað meira en auðlindaskatturinn sem var samþykkt að leggja á í greininni?
    Ég er ekki kominn í þennan ræðustól til að deila um stefnumál Alþb. í sjávarútvegsmálum og þeir mega vel eyða sínum tíma í það að deila við okkur framsóknarmenn um okkar stefnu í sjávarútvegsmálum. Ég er hér til þess að tala um það frv. sem liggur fyrir um fiskveiðistjórnun sem lagt er fram af núverandi ríkisstjórn.
    Við framsóknarmenn höfum sagt það að við berum vissa ábyrgð í sjávarútvegsmálum og stjórn fiskveiða. Það viðurkennum við og því er okkur kannski ekki sama um það hvernig með þessi mál er farið. Við teljum að þessi löggjöf hafi dugað býsna vel en auðvitað er ekkert fullkomið. Við framsóknarmenn teljum að það sé miklu skynsamlegra að breyta í þessu kerfi heldur en að bylta. Við eigum að læra af þessu kerfi og við eigum að sníða þá annmarka af sem af því hafa hlotist. Það er ekkert feimnismál að viðurkenna það. Ég ætla ekki við þessa umræðu, enda hef ég gert það áður, að ræða um meinta þátttöku sjómanna í kaupum á aflaheimildum. Það liggur alveg ljóst fyrir frá því að þetta mál kom fyrst inn í þingið í sambandi við kjaradeilu sjómanna að við erum andvígir slíku. Við erum andvígir því að sjómenn séu látnir taka þátt í kaupum á veiðiheimildum. Það liggur alveg ljóst fyrir frá okkur framsóknarmönnum og við erum tilbúnir til að gera hvað sem er til þess að koma í veg fyrir slíkt. Við teljum að það sé hægur vandi að koma í veg fyrir það á annan hátt heldur en að ryðjast og bylta um kerfinu um stjórn fiskveiða. Þar skilur á milli okkar og sjálfstæðismanna.
    Tillaga okkar framsóknarmanna byggir einmitt á því að reyna að opna fyrir leið sem við gætum fundið til þess að mætast í þessu efni. Vegna þess að hv. þm. Jóhann Ársælsson vék að henni og kláraði ekki að skýra málið þá sé ég ástæðu til þess að fara yfir tillöguna. Við gerum sem sé brtt. við brtt. sjálfstæðismanna og ég ætla fyrst að lesa hvernig sú brtt. er. Brtt. Sjálfstfl. er þannig, og ekki má gleyma Alþfl., fyrirgefið hv. þm. Alþfl. sem hér sitjið, auðvitað á Alþfl. fullan þátt og kannski aðalþáttinn í tillögunum.
    Brtt. hljóðar svo:
    ,,Við 8. gr. Greinin orðist svo:
    Á eftir 3. mgr. 12. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Þegar meira en 15% af aflamarki því af einhverri tegund, sem úthlutað var til skips í upphafi fiskveiðiárs, hefur verið flutt frá skipinu til skipa í eigu annarra útgerða án þess að um jöfn skipti sé að ræða er óheimilt á sama fiskveiðiári að flytja aflamark af sömu tegund til skipsins. Á sama hátt er óheimilt að flytja aflamark frá skipi þegar meira en sem svarar 15% af upphaflegu aflamarki skipsins af viðkomandi tegund hefur verið flutt til skipsins af skipum í eigu annarra útgerða á fiskveiðiárinu án þess að um jöfn skipti sé að ræða. Fiskistofu er þó heimilt að veita undanþágu frá banni við flutningi aflamarks frá skipi ef alvarlegar bilanir verða þess valdandi að veiðiheimildir þess nýtast ekki.
    Aldrei er heimilt að flytja aflamark milli skipa leiði slíkur flutningur til þess að veiðiheimildir þess skips sem flutt er til verði bersýnilega umfram veiðigetu þess.``
    Það sem við framsóknarmenn leggjum til er að við viljum fella niður allan seinni hluta brtt. Við viljum sem sé leggja til að greinin orðist svo:
    ,,Þegar meira en 40% af aflamarki því af einhverri tegund, sem úthlutað var til skips í upphafi fiskveiðiárs, hefur verið flutt frá skipinu til skipa í eigu annarra útgerða án þess að um jöfn skipti sé að ræða er óheimilt á sama fiskveiðiári að flytja aflamark af sömu tegund til skipsins.``
    Tillaga okkar framsóknarmanna byggist á því að fella niður í tillögu sjálfstæðismanna og alþýðuflokksmanna þar sem segir: ,,Á sama hátt er óheimilt að flytja aflamark frá skipi þegar meira en sem svarar 15% af upphaflegu aflamarki skipsins af viðkomandi tegund hefur verið flutt til skipsins af skipum í eigu

annarra útgerða`` o.s.frv.
    Þetta er það sem við framsóknarmenn leggjum til að verð fellt niður.
    Við leggjum einnig til breytingu á 9. gr. þar sem stendur: ,,Veiði fiskiskip minna en 50% af samanlögðu aflamarki sínu í þorskígildum talið tvö fiskveiðiár í röð fellur veiðileyfi þess og aflahlutdeild niður og skal aflahlutdeild annarra skipa í viðkomandi tegundum hækka sem því nemur.``
    Í staðinn fyrir þau 50% sem í greininni standa leggjum við til að komi 40%.
    Ég tel að ef þetta næði fram yrði mikil breyting á. Ég veit að menn yrðu ekkert alsælir en ég tel samt að það væri þó þokkalega hægt að búa við þetta. Ég trúi því ekki að þetta ætti að verða til þess að raska þeirri vörn sem við viljum byggja upp til þess að koma í veg fyrir að sjómenn séu látnir taka þátt í kaupum á aflaheimildum.
    Af því að hér er kominn hæstv. sjútvrh. sem var ekki hér inni þegar ég hóf mál mitt vil ég enn ítreka það að ég trúi því að menn reyni að nýta þann tíma sem eftir lifir þinghalds til að reyna að ná sem víðtækastri sátt, ekki bara í þinginu, en þó fyrst og fremst, heldur ekki síður þeirra sem í þessari atvinnugrein starfa.
    Hv. þm. hafa líka rætt það mikið hvað eigi að gera og hverju eigi að breyta í þessu kerfi. Margir tala um að auðvitað eigi að fara með allan fisk á markað og það eigi að selja allan fisk á markaði. Það er svo sem út af fyrir sig hugsun að gera það. Halda menn ef allur fiskur fer á markað að það verði til þess að ekki verði fremur farið með þann fisk til útlanda en áður? Það er mín skoðun. Ef það verður skilyrt að allur fiskur fari á markað þá mun hann fremur fara á erlendan markað heldur en eins og það kerfi er sem er við lýði í dag.
    Ég vil spyrja þá menn sem ræða um þetta: Af hverjum er sú upphæð sem fer í margs konar gjaldtöku, umboðslaun og annað sem ég væri ekkert hissa á að mundi nema á annan milljarð króna ef allur afli á að fara á markað, tekin? Er það hugsanlegt að það sé af sjómönnum? Gæti það verið að hlutur sjómanna  . . .   (Gripið fram í.) Það er trúlegt, segir hv. þm. Vestlendinga. Ég er honum sammála. Það er trúlegt að sjómenn mundu eitthvað missa af því. En ég skil vel að hagsmunagæslumenn á fiskmarkaðnum vilji fá þennan fisk á markað. Ég skil það.
    Ég held nefnilega að það hafi verið að þróast gott kerfi. Það kom einmitt fram þegar fulltrúar fiskmarkaðanna komu á fund sjútvn. --- Því miður er ég ekki með það hjá mér þó ég sé með nokkuð af blöðum, þá er ég ekki með það. --- Þeir upplýstu, eftir að ég hafði spurt þá að því, hversu gífurleg aukning hafði orðið í þróun fiskmarkaða á Íslandi. Það var nefnilega mjög mikið. Ég held þess vegna að það þurfi ekkert að vera að býtta í þessu kerfi. Ég held að við séum á réttri siglingu en það þarf eðlilegan tíma til þess að þróast. Ég hef trú á því að markaðirnir séu komnir til að vera en ég held að það sé heldur ekki rétt að setja lög um að allir skuli landa á fiskmörkuðum. Ég held að menn þurfi aðeins að átta sig á því hvernig það gerist og hvort það yrði ekki eitthvert misræmi á milli markaðanna eftir því hversu hráefnið er mikið og hvernig það fellur til.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er því miður ekki í salnum en hann talaði í dag býsna gott mál eins og hv. þm. gerir oft og hefði verið gaman að eiga aðeins orðastað við hann. Hann talaði um eins og margir aðrir gera, hann minntist ekki á sægreifa heldur valdsmenn kerfisins víða úti í þjóðfélaginu. Menn tala um valdsmenn kerfisins, menn tala um sægreifa. Það er farið að tala niður til þessa fólks sem stundar sjávarútveg á Íslandi. Mér er lífsins ómögulegt að skilja þetta. Hvað hafa þessir menn til saka unnið? Hvað hafa þessir menn til saka unnið þannig að hinir mætustu menn á Alþingi þurfi að vera að vega að þeim að þeim fjarstöddum? Þeir væru menn að meiri ef þeir færu á fund þessara manna og töluðu við þá. Ég er viss um að þeir mundu fræðast af þeim, ég er viss um það. En hvað hafa þessir menn til saka unnið? Þeir hafa ekkert gert annað en það að reyna að lifa við það kerfi sem við alþingismenn höfum sett upp. Svo koma þessir sömu þingmenn hér og dæma þá og eru með svigurmæli um þessa menn. Það er ekki stórmannlegt.
    Ég vil aðeins segja það vegna þess að ég vék að hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að ég er ekki að tala til hans. En ég skaut því fram þegar hann var að tala um þessa valdsmenn í kerfinu hvernig þróunin hefði verið í hans heimabyggð, á Neskaupstað, hjá Síldarvinnslunni á Neskaupstað. Það er nefnilega býsna gott dæmi um fyrirtæki sem unnið hefur mjög markvisst og á mjög skipulegan hátt og náð mjög góðri hagræðingu og aukinni hagkvæmni í útgerð og vinnslu sem byggist ekki bara á því að ná hagkvæmni í útgerð og vinnslu heldur miðar líka að því að það takist að halda mannlífi í byggð í Neskaupstað. Það hafa menn verið að gera og sem betur fer hafa menn verið að gera það á fleiri stöðum. Þess vegna kann ég illa við það þegar menn eru að tala niður til þessara manna og segja að þeir séu með þröngsýna hagsmunavörslu. ( Gripið fram í: Hver hefur gert það?) Ég man ekki betur en hæstv. sjútvrh. hafi orðað það svo. Ég verð að segja að ég mundi meta hæstv. sjútvrh. mann að meiru ef hann leiðrétti að þetta væri ekki rétt eftir honum haft. En fleiri en einn og fleiri en tveir hafa vikið að því að þetta hafi fallið af vörum ráðherrans í þessari umræðu. Þetta er bara í framhaldi af því hvernig talað er til þessa fólks. Ég vil þá líka spyrja: Hverjir eru þessir menn? Hverjir eru þessir hagsmunavörslumenn? Væri ekki fróðlegt að renna aðeins yfir nafnalistann og vita hverjir þessir hættulegu menn eru? ( Gripið fram í: Nauðsynlegt.) Ég held að það sé alveg nauðsynlegt. Ég held að menn sofi betur á eftir.
    Við skulum fyrstan telja Adolf Guðmundsson, framkvæmdastjóra Gullbergs, stjórnarformann fiskiðjunnar Dvergasteins á Seyðisfirði, svo skulum við telja Arnar Sigurmundsson, formann Samtaka fiskvinnslustöðva. ( SJS: Hann var aðstoðarmaður sjútvrh.) Já, fyrrverandi, rétt. Einar Svansson, framkvæmdastjóri Fiskiðjunnar Skagfirðings og stjórnarformaður Hraðfrystihúss Grundarfjarðar, Eiríkur Ólason, útgerðarstjóri Kaupfélags Fáskrúðsfjarðar og formaður Útvegsmannafélags Austfjarða og stjórnarmaður í Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Eiríkur Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnarins í Grindavík, stjórnarformaður Aflamiðlunar og í stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna, Gunnar Ragnars, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Akureyringa og í stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, ef ég man rétt, Halldór Árnason, framkvæmdastjóri Borgeyjar í Hornafirði, Halldóra B. Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Garðeyjar í Höfn, formaður Útvegsmannafélags Hornafjarðar, Róbert Guðfinnsson, framkvæmdastjóri Þormóðs ramma á Siglufirði, Sighvatur Bjarnason, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum og stjórnarformaður SÍF, og Sverrir Leósson, útgerðarstjóri Súlunnar á Akureyri, formaður Útgerðarfélags Norðurlands og stjórnarmaður í Landssambandi íslenskra útvegsmanna.
    Eru þetta þessir hættulegu menn? Ég spyr. Ég tel ekki. Ég held að hver einasti þessara manna og miklu fleiri af þeim mönnum sem eru í fylkingarbrjósti fyrir íslenskum sjávarútvegi séu hinir mestu sómamenn, leggi nótt við dag til að reyna að halda lífinu í þeim fyrirtækjum sem þeir starfa við og aðlaga sig að þeim reglum sem Alþingi hefur verið að setja þeim, oft býsna flóknum og óljósum. Auðvitað hefur það verið þeim hvað mesta vandamálið núna um langt skeið sú óvissa sem þeir hafa mátt búa við. Hvað halda menn að þessi óvissa hafi kostað þá? Gera menn sér grein fyrir því? Gera menn sér grein fyrir því hvað þessir menn hafa verið að gera um stund, að lifa við það kerfi sem var og hagræða, selja frá sér fasteignir til þess að aðlaga sig því kerfi sem þeir lifðu við og við vorum búin að setja þeim og skammta þeim? En á einni nóttu er því öllu kollvarpað og allt það starf sem þar var unnið er unnið fyrir gýg. Ég verð að segja að ég velti því fyrir mér hvort ríkið er ekki ábyrgt. Eru menn ekki bara skaðabótaskyldir í slíkum málum? Hver á að bera þetta tjón? Á að rúlla þessum fyrirtækjum um? Á að setja þau á hausinn aftur? Hver er stefnan? ( Gripið fram í: Gjaldþrotastefna.) Það væri fróðlegt að fá að vita hver hún er en hún kemur ekki fram í skýrslu tvíhöfða nefndar. ( ÓÞÞ: Það vantar annan hausinn í salinn.) Hann hefur lengi vantað en hann er þó . . .  ( VE: Eru þessir menn nokkuð ánægðir með skýrsluna sem tvíhöfða nefndin gaf út?) Þeir eru kannski ekki ánægðir með hana, hv. þm., en þeir segja að hún sé vel unnin. ( ÓÞÞ: Prentuð.) Hún er vel prentuð og greinilega vel sett upp. Þar er mikill fróðleikur og góðar upplýsingar. Það er allt saman rétt.
    Hv. þm. Guðni Ágústsson vék aðeins að henni áðan en góð vísa er aldrei of oft kveðin og við þurfum að fá svör við þessum spurningum í nótt eða í fyrramálið áður en umræðunni lýkur. Ég veit að hér inni eru menn sem gjörþekkja skýrsluna en í innganginum stendur: ,,að sem víðtækust sátt takist í þjóðfélaginu um sjávarútvegsmálin.``
    Nú sé ég að sumir halla aftur augunum og líst ekki á blikuna. En ég ætla þess vegna að endurtaka þetta ef þeir skyldu hafa dottað þannig að þetta fari ekki fram hjá þeim: Að sem víðtækust sátt takist í þjóðfélaginu um sjávarútvegsmálin. Ég vildi biðja hv. þm. Gísla Einarsson að vera svo vinsamlegur og punkta þetta niður og hann yrði þá þingmaðurinn sem mundi svara. Hefur það markmið náðst? Hefur það markmið náðst með þeim tillögum sem fyrir liggja? Ég spyr enn: Sjútvrh. skal láta fara fram athugun á mismunandi kostum við stjórn fiskveiða þar sem m.a. skal leitast við að meta hagkvæmustu samsetningu fiskiskipaflotans. Hefur þessi athugun farið fram? Menn hafa mjög vikið að uppbyggingu frystitogaranna. Fór þessi athugun fram? Og svo enn: Hafa skal samráð við sjútvn. Alþingis og samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi við þessa endurskoðun. Var það gert? Hvenær fór það samráð fram við sjútvn.? Það vildi svo til að ég var í samráðsnefnd þegar lögin voru sett og Halldór Ásgrímsson var sjútvrh.
    ( Forseti (VS) : Hv. þingmaður.)
    Já, hv. þm., þáv. hæstv. sjútvrh., Halldór Ásgrímsson, núv. formaður Framsfl., svo öllu sé nú til skila haldið. Þá var undirbúningsstarfið býsna víðtækt. Það áttu fulltrúa í samráðsnefndinni sjómenn og útvegsmenn og náttúrlega fiskvinnslufólk, og þingmenn allra flokka á Alþingi. Það var sem sé reynt að ná til allara hagsmunaaðila í þessu máli og það var unnið í samráði mánuðum saman. Ég man ekki hvort það var í upp undir tvö ár sem menn voru að reyna að finna út lausn í þessu máli sem varð síðan niðurstaðan. Það er samráð, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, en ekki það að koma á einn fund sjútvn. og tilkynna að svona eigi hlutirnir að vera. Það er ekki samráð, það er bara tilskipun eða tilkynning. ( VE: Þetta voru tillögur.) Eða tillögur. Það var bara tilkynning til nefndarinnar, það var ekkert samráð. ( VE: Svo var haft samráð við 1.500 manns víðs vegar um landið.)
    Síðan stendur í sama inngangi: ,,Við mótun sjávarútvegsstefnu er það hlutverk stjórnvalda að setja leikreglurnar og tryggja starfsskilyrði sem gera íslenskan sjávarútveg samkeppnishæfan í helstu viðskiptalöndum okkar.`` Ég spyr: Var þetta gert?
    Nefndin fjallaði nú um meira. Hún vék t.d. að aflamarkskerfinu og af því að það er grundvöllurinn í þessum tillögum er fróðlegt að lesa upp í þessum inngangi hvað þeir segja í sambandi við það, með leyfi, virðulegi forseti:
    ,,Aflamarkskerfið sem leyfir greið viðskipti með aflahlutdeildir er það fyrirkomulag sem stuðlar að hvað mestri hagkvæmni í uppbyggingu sjávarútvegsins.``

    Það er nú ekkert annað en það. Er það fyrirkomulag sem stuðlar að hvað mestri hagkvæmni í uppbyggingu sjávarútvegsins. Það treystir atvinnu í sjávarútvegi og í tengdum greinum atvinnulífsins og stuðlar að því að sjávarútvegurinn geti orðið samkeppnisfær um hæft starfsfólk til sjós og lands. Með því móti verður sjávarútvegurinn áfram burðarás í íslensku atvinnulífi og undirstaða byggðar víðs vegar um land.``
    Var þetta gert, spyr ég enn hv. þm.? ( VE: Já.) Finnst hv. þm. að þetta markmið komi fram í þeim brtt. sem gerðar eru við stjórnun fiskveiða? ( VE: Já. Mínus fiskvinnslukvótinn.) Mínus fiskvinnslukvótinn. Við skulum líta á það síðar.
    Það kemur hins vegar mjög víða fram í þessari skýrslu að stefnan í sjávarútvegi sé samofin byggð og byggðastefnu. Það kemur nefnilega ótrúlega víða fram og það er hárrétt. Það er mjög erfitt að tala um þetta mál án þess raunverulega að fjalla á sama tíma um það mál. Því væri fróðlegt að spyrja vegna þess að við erum komin svo langt á þinghald: Hvað líður umræðu um stefnumarkandi ákvarðanir í byggðamálum? Hvar hefur sú umræða verið sett á dagskrá þingsins? Ef ég man rétt þá erum við, virðulegur forseti, bara rétt í miðjum klíðum að ræða skýrslu um byggðaáætlun. Skyldi það vera meiningin að víkja því merka máli bara til hliðar? Ég held að það hefði verið betra að við hefðum tekið þá umræðu hér og nú með þessari umræðu. Það virðist ekki eiga að vera.
    Það er fróðlegt fyrir menn að heyra hvað einn af viðmælendum sjútvn. sagði um frv. sem við erum að ræða og þær brtt. sem fyrir liggja frá Alþfl. og Sjálfstfl. í þessu máli. Hann heitir Þórarinn V. Þórarinsson og er framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins. Þórarinn V. Þórarinsson sagði um þessa tillögu: Þetta er frv. um fækkun á störfum í sjávarútvegi, sagði Þórarinn V. Þórarinsson. Þetta er frv. um fækkun í störfum í sjávarútvegi og að stærri hluti fiskvinnslunnar muni fara út á sjó. Þetta er kjarni málsins, ekki sagður í mörgum orðum en segir samt allt sem segja þarf. ( Gripið fram í: Hann vildi fiskvinnslukvóta. Var það ekki?) Hann vildi fiskvinnslukvóta. Hann má hafa sínar skoðanir og það eru fleiri en hann sem hafa þær skoðanir. Þær hefur m.a. Árni Benediktsson sem mætti einnig á sama tíma. Hins vegar var þriðji maðurinn með þeim, Kristján Ragnarsson, á öndverðri skoðun. En ég er að leggja áherslu á hvaða skoðun Þórarinn V. Þórarinsson hafði á þessu máli þar sem hann sagði okkur sjávarútvegsnefndarmönnum að frv. væri um fækkun í störfum í sjávarútvegi og mundi stuðla að því að stærri hluti fiskvinnslunnar færi út á sjó. Það hljóta fleiri en ég að hafa áhyggjur af slíku.
    Í umræðunum fyrir ekki mjög löngu síðan talaði hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson og var með dreifibréf frá Sjómannasambandi Íslands ( GHall: Áttu við 16. þm. Reykv.?) Já, Guðmundur Hallvarðsson, 16. þm. Reykv. ( GHall: Guðmundur H. Garðarsson er farinn af þingi.) Já, því miður, vil ég segja er Guðmundur H. Garðarsson farinn af þinginu. Ég held að Guðmundur H. Garðarsson hefði ekki látið það ganga yfir sig sem þingmenn Sjálfstfl. eru að láta ganga yfir sig nú. Það hefði Guðmundur H. Garðarsson ekki gert. ( Gripið fram í: Jú.) Nei, það vel þekkti ég Guðmund H. Garðarsson að ég veit að það hefði hann ekki gert. ( GHall: Hann er sómamaður.) Hann hefði ekki gert það, hann skilur þetta mál.
    Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson vék að fyrirtæki norður í landi sem er Fiskiðjan Skagfirðingur og er á Sauðárkróki. Ekki veit ég hver ástæðan var fyrir því að hann nefndi það fyrirtæki en það skiptir ekki meginmáli. ( GHall: Það voru bara frystitogararnir.) Hvað segir þingmaðurinn? ( GHall: Ekkert, ekkert.) Hann var með upplýsingar frá Sjómannasambandinu ef ég veit rétt um að þetta fyrirtæki hefði flutt úr landi um 3.251 tonn af fiski. Það er rétt að taka það fram, af því að hv. þm. gerði það ekki, að hér er auðvitað um fisk að ræða en hér er nær eingöngu um karfa að ræða. Og vegna þess að ég skoðaði þetta mál þá vil ég upplýsa hv. þm. um að fyrir þessi 3.251 tonn fékk þetta fyrirtæki um 401 millj. kr. Meðalhásetahlutur úr þessum afla varð rúmlega 1,8 millj. kr. Ef þessi afli hefði verið seldur hér heima hefði hásetahluturinn orðið um 618--619 þús. kr. en var 1,8 millj. kr. þegar siglt var með aflann. ( GÁ: Svo vönduð voru vinnubrögðin um borð.) Það er rétt að þessi skip hafa fengið langhæsta meðalverð þessa fyrirtækis á fiski sem seldur er í Þýskalandi. En það var eftirtektarvert og var það sem stakk mig og fór örlítið fyrir brjóstið á mér að það skyldi vera Guðmundur Hallvarðsson sem vék að þessu sem í svo mörg ár hefur starfað við hliðina á íslenskum sjómönnum. Þann ávinning sem af þessu hefur hlotist hefur þetta fyrirtæki notað til þess, að stórum hluta til, til að kaupa fisk af erlendum veiðiskipum til að tryggja atvinnu í því byggðarlagi sem það er staðsett. Er nú skynsamlegt að vera að veitast að mönnum fyrir slíkt? Er það skynsamlegt?
    Hv. þm. má einnig vita hvert er álit þeirra manna, sem stjórna þessu fyrirtæki, á því að Fiskiðjan telur það skynsamlegt að ná hámarksverði út úr karfanum og flytja síðan inn hráefnið til að skapa atvinnu á móti. Með því skapast meira verðmæti fyrir þjóðarbúið.
    Og þeir segja mér meira í þeim línum sem þeir skrifuðu mér. Á þessu ári áætlar Fiskiðjan að flytja inn um 1.400 tonn af erlendu hráefni sem mun skapa atvinnu fyrir um 100 manns í fimm mánuði og aukin útflutningsverðmæti landsmanna upp á tæpar 300 millj. kr. Auk þess er verðmæti karfans, sem fer ferskur úr landi, 120 millj. kr. meira en ef hann er unninn í frost hér á landi. Verðmæti karfans er 120 millj. kr. meira þegar hann er fluttur út á þennan hátt heldur en við fengjum fyrir hann ef við ynnum hann hér heima og frystum hann.
    Þetta eru staðreyndin í málinu. Ég sé ekki að það sé ástæða til þess að vera að veitast að þeim mönnum sem starfa á þennan hátt. Ég sé það ekki, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, og kannski heyra þeir einnig til mín sem gáfu út þetta dreifibréf til þess að kynna starfsemi Fiskiðjunnar Skagfirðings á þennan hátt, fulltrúar Sjómannasambands Íslands. Þeir minntust ekkert á, eða ég sá það ekki, a.m.k. gat hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson ekki um það, að það hafa fleiri staðið í útflutningi á fiski og sem er miklu nær hv. þm., meira að segja í hans eigin kjördæmi. Hvað skyldu þeir vera að flytja út, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson? Hvað skyldu þeir vera að flytja út? Skyldu þeir vera að flytja út einhver 4.000 tonn eða 5.000 tonn? Nei, þeir flytja út yfir 10.000 tonn og er það bara í kjördæmi hv. þm., sem var svo hneykslaður yfir þessu fyrir ekki löngu síðan.
    Það var einnig minnst á þennan útflutning af hv. þm. sem hér talaði, Petrínu Baldursdóttur þingmanni Reyknesinga. Hún vék einnig að útflutningi á fiski. Það er líka rétt. Það á að geta þess. Hvað skyldi vera flutt út af fiski úr Reykjaneskjördæmi? ( Gripið fram í: Reykjavík.) Reykjaneskjördæmi. Ég var að segja hvað væri flutt út úr Reykjavík, en vegna þess að tveir hv. þm. véku að þessu eina fyrirtæki, slepptu því sem er að gerast heima hjá sér, þá trúi ég því ekki að þeir viti það ekki. Það getur ekki verið, þeir hljóta að vera alveg klárir á því hvað er flutt út heiman að frá þeim. Tilfellið er að það er heldur meira flutt út frá Reykjanesi heldur en frá Reykjavík. Þetta eru staðreyndirnar í málinu. ( JÁ: Er þetta gott eða vont?) Ég held að mörgu leyti, hv. þm. Jóhann Ársælsson, að það geti verið býsna tvírætt. Staðreyndin í þessu máli er sú að mönnum hefur tekist mjög misjafnlega að ná tökum á vinnslu karfans. Sum fyrirtæki hafa náð ágætum árangri í vinnslu á karfa, önnur ekki. Þar sem ég þekki til og er nú að tala hér fyrir, vegna þess að það var vikið að þessu fyrirtæki, þá er ég á því og ég er sannfærður um það og ég trúi ekki öðru heldur en þeir þingmenn sem hér hafa hlýtt á mál mitt séu sannfærðir með mér og mér sammála að þar sé rétt að unnið. Menn hafa notað þetta fjármagn til þess að flytja inn afla til þess að vinna og skaffa atvinnu og ávinning fyrirtækisins, líka til þess að búa sig betur í stakk til að mæta þessum skerðingum og fara út í nýjungar í sjávarútvegi, sem fyrirtækið vinnur mjög markvisst að. Ég vildi að gefnu tilefni koma þessu fram. Þó mér sé ekkert geðfellt að vera að ræða um einstök fyrirtæki og menn sem ekki eru við þá verður þetta að komast til skila.
    Menn hafa einnig í þessari umræðu vikið að áliti sem Þjóðhagsstofnun mun hafa gefið út í sambandi við þetta frv. Ég verð að segja að ég hef ekki séð þetta álit Þjóðhagsstofnunar og mér er það ókunnugt. Já, já, ég hef séð það bara svona, hv. þm., en ekki til að lesa það. Ég hef ekki fengið þetta álit en ég hef hlustað á hvað menn hafa sagt um það. Hins vegar er rétt að fulltrúi Þjóðhagsstofnunar, sá sem skrifar þetta álit, kom á fund sjútvn. Ég verð að segja það að mér fannst vera önnur tóntegund í því sem hann sagði við okkur í sjútvn. heldur en mér finnst koma fram hjá þingmönnum sem eru að lesa upp úr þessu nú, en það getur vel verið að það leiðréttist þegar ég fæ að glöggva mig á því og þá kemur hið rétta í ljós.
    En ég verð að segja að auðvitað er allt gott um það sem Þjóðhagsstofnun segir um þetta og hún á auðvitað sinn rétt að fá að segja um þetta og það er ekkert óeðlilegt að til hennar sé leitað og hún hafi umsagnarrétt. En ég verð þó að segja það að hvað sem þeir eru með góða menn í Þjóðhagsstofnun og reikni vel þá ber ég ekkert síður traust til þeirra ágætu manna sem ég las upp áðan til að fjalla um þessi mál heldur en þeirra sem skrifa skýrslu fyrir Þjóðhagsstofnun um sjávarútvegsmál. Ég tek ekkert síður mark á þeim. ( FI: Það er engin niðurstaða í þessu plaggi frá Þjóðhagsstofnun.) Ég væri ekkert hissa á því þó að botninn væri uppi í Borgarfirði. ( VE: Það er alveg skýr niðurstaða.)
    Svo er annað sem ég vildi segja í sambandi við þetta álit: Má ekki vitna líka í annan hagfræðing sem hefur fjallað um þetta mál? Hvað segir hann og hver er sá hagfræðingur? Hann situr hér í salnum hjá okkur og heitir Vilhjálmur Egilsson. Hvert er álit þess hagfræðings á þessu máli? ( GHall: Og er góður hagfræðingur.) Og er góður hagfræðingur. ( FI: Hæstur á prófi í dag.) Ég þarf ekkert að láta segja mér um það, ég þekki manninn af öllu ágætu. En hvert er hans álit á þessu? ( StB: Þú þekkir fylgið sem hann hefur.) Ég þekki fylgið sem hann hefur, það er alveg hárrétt, ég þekki það og verð stundum fyrir því. En hvað segir hv. þm., hagfræðingurinn Vilhjálmur Egilsson ( ÓÞÞ: Það er mjög misjafnt hvað hann segir.) um þessar tillögur? Tillögurnar vinna gegn hagræðingu. Stutt og laggott, Vilhjálmur er ekki með neitt málæði. Talar hreint og klárt og skýrt. Það misskilur þetta enginn. Tillögurnar vinna gegn hagræðingu í greininni. ( GÁ: Hvar er hinn hausinn?) Ég tala nú ekki um hvað hann segir, en þetta segir hagfræðingurinn Vilhjálmur Egilsson. ( VE: Það væri ekki gott að vera . . .  ) Hv. þm. og hagfræðingur, Vilhjálmur Egilsson, sem hefur skoðað þetta mál miklu meira heldur en Þjóðhagsstofnun, hans álit er að þessar tillögur séu ómögulegar eða vondar skulum við segja. Við skulum segja að þær séu vondar eða ekki góðar. Hv. þm., viðskiptafræðingurinn Vilhjálmur Egilsson, er sammála atvinnumönnunum. Hann kemst nefnilega að sömu niðurstöðu.
    Svo væri líka fróðlegt að vitna í annan aðila og vita hvað hann segir, úr því að menn eru að lesa upp úr skýrslum. Hvað skyldi Ragnar Árnason, doktor í fiskihagfræði og prófessor við Háskóla Íslands, segja? Gæti það verið að þeir væru eitthvað á svipaðri línu, hann og hagfræðingurinn Vilhjálmur Egilsson eða skyldi Ragnar Árnason, doktor í fiskihagfræði, vera á sömu línu og Þjóðhagsstofnun? Við skulum bara lesa lokaorðin og þingmenn geta dæmt. Lokaorð doktors Ragnars Árnasonar eru þessi, með leyfi virðulegs forseta, það er mjög merkilegt og nauðsynlegt að fá þetta fram sem innlegg í þessa umræðu því hér er tekið á kjarna málsins:
    ,,Þjóðin hefur vissulega brýna þörf fyrir alla þá hagkvæmni í framleiðslu sem unnt er að ná. Í yfirstandandi efnahagskreppu hafa verið lagðar þungar byrðar á þjóðina í nafni hagræðingar og hagkvæmni.

Sem betur fer hefur framleiðni vaxið stórlega í mörgum atvinnuvegum og raunar hvergi meira en í sjávarútvegi. Það er því með miklum endemum að löggjafarstofnun þjóðarinnar hyggst nú með nokkrum pennastrikum skapa stórkostlega óhagkvæmni í framleiðslustarfseminni með því að takmarka framsal á aflaheimildum.`` --- Ekki langt frá hugsun Vilhjálms Egilssonar. Og doktor Ragnar Árnason heldur áfram:
    ,,Eftir að þjóðin glataði sjálfstæði sínu á 13. öld var hún langtímum saman bundin í ánauð hafta og reglna sem takmörkuðu viðskipti og þar með verðmætasköpun. Margar af þessum hömlum voru af svipuðum toga og þær sem nú liggja fyrir Alþingi í kvótamálum. Mönnum var bannað að kaupa og selja verðmæti í samræmi við skilaboð markaðarins. Afleiðingin var m.a. fátækt og neyð hins íslenska samfélags öldum saman. Það er sárgrætilegt ef í ljós kemur að umtalsverður hluti kjörinna fulltrúa sjálfstæðs Íslands telur það nú heillaráð að halda á ný inn á þessa braut.``
    Hér er mikið sagt og ég er hissa á því ef það verður ekki einhver af þingmönnum Sjálfstfl. a.m.k., ég efast um þingmenn Alþfl., en allavega eitthvað af þingmönnum Sjálfstfl., sem verða andvaka í nótt ef þeir hugsa um þessar setningar sem þarna voru settar á blað. (Gripið fram í.) Jú, hv. þm., ég hafði trú á því að þeir gerðu það. En hér er um alvarlega viðvörun að ræða sem er ekki síður vert að hugsa um heldur en álit Þjóðhagsstofnunar. ( EgJ: En tillögur Framsfl.?) Ég er búinn að fara yfir tillögur Framsfl., hv. þm. Egill Jónsson, formaður landbn. með meiru. Því miður er það svo að hv. þm. hefur ekki verið í salnum, en vegna þess að hann er að minnast á það þá er spurning hvort hv. þm. óski eftir því að ég flytji ræðu mína aftur, sem ég var búinn að flytja áður en hann mátti vera að því að koma í salinn. Ég hef nógan tíma og get orðið við því ef þingmaðurinn óskar eftir því. ( EgJ: Ég er búinn að heyra alla ræðuna.) Þú ert búinn að heyra alla ræðuna. Það er gott, þá spörum við þinginu tíma og kostnað með því að þurfa ekki að flytja hana aftur. En það hefði verið meira en velkomið og þá átti þingmaðurinn að skilja og vita hvað stendur í tillögum okkar framsóknarmanna og það þarf hann auðvitað að leggja mjög á minnið.
    Virðulegi forseti. Það líður nú á ræðu mína í þessari umferð en ég vil þó segja og það er náttúrlega kjarni málsins hvert raunverulega markmiðið með þessu öllu saman er. Það er náttúrlega heila málið. Hvert er markmið okkar með fiskveiðistjórnun? Það er ekki nóg að hrópa bara kvóti, kvóti og kvóti og sá kvóti sem Halldór Ásgrímsson setti á er ómögulegur. En menn minnast aldrei á kvóta sem aðrir settu á og hefur gengið prýðilega, eins og t.d. í loðnu og síld. Þar búa menn við kvóta og hafa unað sæmilega sáttir við sitt. ( Gripið fram í: Kvótalaus umræða.) Hvað segir hv. þm.? ( Gripið fram í: Hv. þm. sagði að umræðan væri kvótalaus.) Kvótalaus? Nei það held ég ekki.
    En meginmarkmiðið með þessu er nefnilega það að lifa sem næst þeirri ávöxtun sem hafið gefur af sér án þess að ganga á stofninn sjálfan. Þetta finnst mér vera megininntakið í stefnu okkar í sjávarútvegsmálum og þá er spurning hvernig okkur hefur tekist hér til. Menn segja að við höfum ekki getað orðið við því og farið langt fram úr þeim áformum sem fiskifræðingar hafa sagt okkur. Það er að mörgu leyti rétt, við gerðum það meðan við bjuggum við sóknarmark. En við lærðum af mistökunum og breyttum til og með því að taka upp aflamark höfum við getað nálgast það miklu meira. Menn hafa líka, og gerðu það lengi vel, hallmælt fiskifræðingum og fannst sjálfsagt að gera lítið úr fiskifræðingum og þeir væru ekki menn sem hefðu mikið vit á því sem þeir væru að segja. Ég hef aldrei tekið undir slíkt. Ég held að við eigum góða, vel menntaða fiskifræðinga og við eigum og okkur ber að taka tillit til þess sem fiskifræðingar segja. Við þurfum líka jafnframt því að auka nýtingu þess afla sem á land berst. Það er eitt af grundvallaratriðunum sem þarf að fylgja.
    Virðulegi forseti. Vegna þess hversu hér er gaman að vera og áheyrendur áhugasamir þá langar mig til þess með nokkru stolti að víkja að þingmáli sem ég flutti þegar ég kom í fyrsta skipti inn í þetta hús og kom þá hér inn sem varaþingmaður stutta stund. Ég flutti tillögu sem mig langar aðeins til þess að lesa úr. Þetta var árið 1978 og tillgr. er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, í samráði við aðila veiða og vinnslu sjávarfangs, að hlutast til um að gerð verði hið fyrsta könnun á því á hvern hátt megi sem best ná hámarksnýtingu þess sjávarafla sem á land kemur.``
    Í grg. segir m.a.: ,,Það er öllum orðið ljóst að hafið er ekki sá brunnur sem endalaust verður ausið úr. Því verður að leggja stóraukna áherslu á gæði og fullnýtingu þess hráefnis er þaðan fæst. Hvernig það nýtist sem úr hafinu er dregið er ekki einkamál þeirra er að veiðum og vinnslu starfa. Það er hagsmunamál þjóðarinnar allrar að þar sé vel og skynsamlega að staðið.
    Með tilkomu minni skuttogaranna má segja að um byltingu hafi verið að ræða í meðferð á fiski. M.a. var þá byrjað á að ísa fisk í kassa um borð í veiðiskipum og flytja hann þannig til vinnslustöðva í landi. Hér var stigið skref í þá átt að bæta gæði hráefnisins sem þegar hefur sýnt ótvíræðan árangur. T.d. er slíkur fiskur verðlagður 12% hærra en fiskur ísaður í stíur`` --- eins og þá var venjan að gera.
    ,,Á undanförnum árum hefur nokkuð verið unnið að endurbótum í fiskiðnaði en þó hvergi nærri sem skyldi. Ljóst er að mikið fjármagn þarf að koma til og aukið skipulag veiða og vinnslu.``
    Að lokum langar mig að lesa lokaorð þessarar grg., en þar segir:
    ,,Það sem hér kemur fram sýnir að miklum árangri megi ná með bættu skipulagi og aukinni hagræðingu í fiskiðnaðinum. Það virðist ljóst að milljarðar tapast árlega vegna lélegrar nýtingar hráefnis í frystihúsum og er þó hér hvergi vikið að ýmsum möguleikum til fullnýtingar í öðrum fisktegundum og fiskúrgangi en þar eru gífurleg verðmæti sem í súginn fara og til þessa hafa lítið sem ekkert verið nýtt enda

rannsóknir mjög takmarkaðar á því sviði.
    Með flutningi þessarar tillögu vilja flm. vekja athygli stjórnvalda á mikilvægi þess að hér sé brugðist skjótt við og úrbóta leitað.``
    Þessa tillögu flutti ég 1978 og hef alla tíð síðan reynt að tala fyrir þessu máli við kannski misjafnar undirtektir, en þó finnst manni stundum að maður sjái að einhver árangur hafi náðst.
    Vegna þess að það kom fram í umræðunni áðan hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, en hann vék að orðum Finns Ingólfssonar þar sem hann kom að þessum nýtingarþætti, þá verð ég nú að segja að einmitt á þessum árum sem ég er að tala um þá var nýtingarprósentan í vinnslunni um 36%. Ég var að reyna að draga það fram í þessari þáltill. hvað þetta mundi gefa okkur, þó ekki væri nema um 1--2% að ræða. Mönnum fannst ég fara offari í þessum efnum og töldu að það væri ekki hægt. ( Gripið fram í: Var tillagan samþykkt?) En hver er ávinningurinn nú? Nú erum við komnir með nýtingu yfir 45%. Svo eru menn að draga það í efa að menn séu að tala um einhverja milljarða sem hafa áunnist í þessum málum. Og enn eru menn á fleygiferð í þessari atvinnugrein sem vissulega ber að fagna.
    Auðvitað þarf líka að auka hagkvæmni í veiðum og vinnslu, það verður að gerast, það verður að taka upp umræðu um stefnu í þeim málum. Við þurfum líka að tryggja sem best hagsmuni þeirra sem í þessari grein starfa, ekki aðeins sjómanna og útgerðarmanna. Allt of oft hefur þáttur fiskvinnslufólksins gleymst í þessari umræðu.
    Kjarni málsins er auðvitað að það er sú mikla takmörkun á sókn sem veldur þessum vanda sem við búum nú við. Það er sú mikla takmörkun sem við búum við. Þess vegna er það galdurinn hvernig við lifum af þau ár sem við þurfum enn að sætta okkur við svo hefta sókn til hafsins. Ég trúi því að það séu ekki allt of mörg ár. Mér finnst ýmis teikn á lofti sem gefa okkur vísbendingar um að við séum á réttri leið að byggja upp fiskstofnana og það er auðvitað kjarni málsins. Þess vegna eiga menn ekkert að þurfa að fara einhver heljarstökk í vitleysunni í þessum málum nú. Við eigum að þreifa okkur áfram og lifa við þetta kerfi vegna þess að ég er sannfærður um að það eru ekki mörg ár í það að við getum farið að auka sóknina að nýju.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég líka víkja að því að það þarf náttúrlega að taka á og bæta rekstrarskilyrðin í þessari grein. Það hefur komið fram hjá mörgum hv. ræðumönnum af hverju menn væru að fara með vinnsluna út á sjó. Ég tek undir það, hvort sem það var hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem sagði það --- ég held að það hafi verið hann --- að það væri vegna þess að afkoman í frystitogurunum væri betri heldur en í ísfisktogurunum. Þetta er kjarni málsins og er hárrétt. Menn hafa verið á flótta, nokkurn veginn skipulagslausum flótta, úr þessum hefðbundnu ísfiskveiðum fyrir vinnsluna í landi út á sjó með vinnuna, vegna þess hversu mikil skekkja er í afkomu innan greinarinnar sjálfrar. Ég er margbúinn að segja það og endurtek það enn að hana verður að leiðrétta áður en meira tjón hlýst af. Ég er ekki á móti frystitogurum, það má enginn misskilja mig svo, en ég tel og það er mín skoðun --- ég hef ekkert leyfi til að segja að hún sé endilega rétt --- en ég hef þá skoðun að menn eigi að halda áfram að byggja upp fiskvinnslu í landi og við eigum sjálfir Íslendingar að njóta margfeldisáhrifa vinnslunnar í landi. Þess vegna eigum við að styrkja ísfisktogarana og efla þannig vinnsluna í landi. Ég trúi því að margir af frystitogurunum muni einnig koma með afla að landi þegar menn verða búnir að ná betri tökum á uppþíðingu á þessum fiski. Ég gæti haft langt mál um álit mitt á þessum frystitogurum. Ég veit ekkert um það hvort þeir eru akkúrat rétta gerðin í dag ef við ætlum að fara út í stóra verksmiðjutogara. Ég er ekkert viss um það í sjálfu sér. En menn hafa farið út í þetta vegna þessa umhverfis sem er í greininni og því verður að breyta.
    En með þessari stefnu ríkisstjórnarinnar hefur hún fundið upp --- með þessum dæmalausa og endalausa taprekstri má segja að hún hafi fundið upp nokkurs konar eilífðarhjól gjaldþrotanna í sjávarútvegi. Það hefur hún afrekað. Það er náttúrlega alveg óásættanlegt að þeir sem eru að eignast sjávarútvegsfyrirtækin í dag eru þjónustufyrirtækin við sjávarútveginn, þeir sem selja þeim þjónustuvörunar eru að eignast grunnatvinnugreinina, sjóðirnir og bankarnir. Síðan koma þessi fyrirtæki á fullu inn í greinina í hinni hörðustu samkeppni við þau fyrirtæki sem alla tíð hafa staðið í skilum við sínar lánastofnanir. Hvað mun þetta þýða? Það mun þýða það sem ég sagði áðan, eilífðarhjól gjaldþrotanna hefur verið fundið upp vegna þess að með þátttöku banka, sjóða og annarra slíkra er grundvellinum kippt undan þessum fyrirtækjum. Það er vitaskuld alveg óásættanlegt.
    Virðulegi forseti. Ég skal nú ljúka máli mínu. Hér hefur fyrst og fremst verið rætt um stefnu í veiðum, lítillega þó í vinnslu, því auðvitað kemur þetta vinnslunni við. Þó vil ég taka það skýrt fram að eitt af því alnauðsynlegasta í dag er að við tökum upp umræðu um vinnslustefnu, að við tökum upp umræðu og mótum íslenska fiskvinnslustefnu. En það er ekki nóg að taka umræðu um hana og koma henni til, við þurfum einnig að sjá til þess að fá fjármagn til þess að það verði mögulegt að efla nýsköpun í sjávarútvegi, markaðsþróun og sölumál. Þetta þarf allt að haldast í hendur og til þess þarf mikið fjármagn og það mun ekki af veita vegna þess að við okkur blasir eitt svartnætti í atvinnuleysi og aldrei nokkurn tímann meira en nú. Aldrei meira en nú. Og það er kannski táknrænt að þegar atvinnuleysi er mest á Íslandi þá eru það þessir vinaflokkar, Sjálfstfl. og Alþfl., sem sitja við stjórnvölinn. Sama var þegar viðreisnarstjórnin var. Þá hafði atvinnuleysi aldrei mælst meira en á þeim árum og enn er sama stundin komi upp. Yfir 8.000 manns ganga atvinnulausir í dag. Fjöldi fiskvinnslufyrirtækja stendur frammi fyrir því nú, vegna þess að aflarétturinn er að verða búinn, að segja upp fjölda fiskvinnslufólks. Og allur hópur þess æskufólks sem bíður þess að komast út á vinnumarkaðinn að námi loknu --- þar er ekki glæsilegt um að litast. ( GÁ: Hver er framtíðarsýn þessara manna?) Hver er framtíðarsýn þessara manna?
    En ég endurtek og það eru mín lokaorð, hæstv. sjútvrh., að ég undirstrika það og lýsi því enn og aftur yfir vilja manna til þess að reyna að ná saman í þessu máli í sæmilegri sátt, en þá verður auðvitað ríkisstjórnin að sveigja af leið.