Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 23:50:51 (7183)


[23:50]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Stærsta málamiðlunin í átt til óhagræðis sem gerð er með þeim brtt. sem hér liggja fyrir er sú að hætta við fiskvinnslukvótann. Það skiptir langsamlega mestu máli.
    Að öðru leyti ber ekki mikið á milli Sjálfstfl. og Framsfl. í þessu máli. Það er í rauninni fyrst og fremst spurning um það hvort það eigi að leyfa áfram kvótabankana með því að leyfa frjálst framsal, þ.e. að menn geti óheft flutt aflaheimildir að skipi og frá því aftur. Hér tel ég að sú takmörkun sem er sett á með brtt. Sjálfstfl. og Alþfl. skipti engum sköpum, að menn muni geta tekið upp framvirka samninga og náð öllu því hagræði sem hér þarf að ná án þess að kvótabankarnir séu til staðar, að menn semji um að fá kvóta afhentan þegar skip þarf að veiða hann.