Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 23:57:56 (7190)


[23:57]
     Árni Johnsen (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er leitt að hv. þm. Framsfl. skuli bjóða í þessari umræðu upp á jafnloðinmullulegan málflutning og raun ber vitni í jafnmikilvægu máli. Hv. þm. Stefán Guðmundsson sagði að þessar tillögur yrðu aldrei á grundvelli sátta og það er alveg rétt. Engar tillögur munu verða til heildarsátta meðan kvótakerfið þarf að vera á Íslandi. Það er alveg sama hvaða tillögur það verða og það vita allir sem þekkja til í sjávarplássum landsins og þekkja til sjósóknar. Upphrópanir hv. þm. um eilífðarhjal gjaldþrota, að öllu hafi verið kollvarpað á einni nóttu, gefa ekki tilefni til slíkra orða miðað við gang mála og þá umræðu sem hér á sér stað og síst af öllu við þær léttvægu tillögur og breytingar sem framsóknarmenn leggja til í þessu máli og sýnir fyrst og fremst fram á að það ber ekki mjög mikið á milli það sem menn eru að ræða um. Þannig að það eru allt of stór orð af of litlu tilefni. (Forseti hringir.) Hæstv. sjútvrh., virðulegi forseti, hefur verið að vinna erfitt verk sem ekki síst má rekja til þess að hann er að glíma við uppsafnaðan vanda úr stjórnartíð framsóknarmanna í sjútvrn. (Forseti hringir.) og það er alveg ljóst að hv. þm. Stefán Guðmundsson fer hér miklu offari.