Stjórn fiskveiða

149. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 01:30:16 (7208)


[01:30]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir þessa ágætu ræðu vegna þess að ég tel að þingmaðurinn hafi farið nokkuð vítt yfir sviðið og gert nokkuð ljósa grein fyrir því hver afstaða einstakra stjórnmálaflokka er til þessa fiskveiðistjórnunarkerfis.
    Ég ætla ekki að blanda mér frekar í þá umræðu enda er nokkuð áliðið en þó að segja fáein orð varðandi það að þingmaðurinn taldi að ég hefði oftúlkað þá samstöðu er framsóknarmenn hefðu náð um það stjórnunarfyrirkomulag um fiskveiðarnar sem menn kalla í daglegu tali kvótakerfi. Það var alls ekki af minni hálfu um neina oftúlkun að ræða. Þegar menn líta yfir þessa sögu, svo ég noti orð hv. þm., þá er það svo að saga Framsfl. í þessu og saga kvótakerfisins er mjög samtvinnuð og hún er vörðuð --- það er hárrétt hjá hv. þm. --- málamiðlunum og sáttargjörð. Það er alveg nauðsynlegt að stjórnmálaflokkarnir og hagsmunaaðilarnir leggi það á sig að ná samstöðu í þessum málum.
    Það hefur náðst og náðist í tíð Framsfl. mjög víðtæk samstaða milli hagsmunaaðila, milli útgerðarmanna, milli sjómanna og milli fiskvinnslumanna um það fyrirkomulag sem náðist að lokum samstaða um að lögfesta árið 1991. Fulltrúar þingflokkanna sem þá áttu sæti á Alþingi komu að því líka. Það var bærileg samstaða við þessa fulltrúa. Aftur á móti er það svo að innan þingflokkanna er ákveðinn ágreiningur. Framsfl. hefur ávallt í atkvæðagreiðslum á þingi og þegar á hefur þurft að halda staðið saman sem

einn um það að koma þessum málum í gegnum þingið. Það hefur aldrei komið fyrir að nokkur þingmaður Framsfl. hafi greitt atkvæði gegn eða setið hjá við afgreiðslu fiskveiðistjórnunarfrumvarpanna þegar þau hafa verið borin fram undir forustu Framsfl.