Stjórn fiskveiða

149. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 01:32:48 (7209)




[01:32]
     Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vek athygli á því að það orðalag sem ég notaði var orðið oftúlkun og þá er maður auðvitað að segja að túlkun er auðvitað túlkunaratriði. Ég tel að hv. þm. Finnur Ingólfsson hafi tekið of sterkt til orða og gefið það um of í skyn í ræðu sinni í dag að um þetta hafi verið nánast allsherjarsátt og samkomulag allan þann tíma sem Framsókn fór með þessi mál. Því miður var það ekki svo eins og ég hef margsagt.
    Ég held að það sé rétt að á köflum, a.m.k. þegar skást gekk í þeim efnum, hafi ástandið verið mun skárra en það er núna. Ég held að það sé út af fyrir sig alveg ljóst. En þá er á hitt að líta að það hefur verið að krauma undir mjög mikil óánægja, t.d. núna síðustu missirin. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því og ástandið orðið mjög rafmagnað eins og til að mynda viðtökurnar við tillögum tvíhöfða nefndar og frægir hitafundir þegar þeir snillingarnir riðu um héruð ( JGS: Og rifu kjaft.) svo dæmi sé tekið og orðsendingar og einkunnir sem þeir fengu til að mynda á fundi á Vestfjörðum eru manni nokkuð minnisstæðar.
    Ég ætla ekki að fara í deilur við hv. þm. Finn Ingólfsson af því að hann er einu sinni úr Framsfl. en ekki ég um það hvort það sé svo að Framsfl. hafi alltaf verið heill og óskiptur í öllum atkvæðagreiðslum hér um afgreiðslu kvótakerfisins. Mér eru þetta fréttir ef satt er. Þannig hafði það stimplast inn á mín minnisspjöld að a.m.k. þingmenn Framsfl. af Vestfjörðum hefðu á köflum haft sérstöðu í þessu máli, eins og reyndar Vestfjarðaþingmenn í öllum flokkum. Ég veit að vísu að nafni minn ágætur og vinur, hv. fyrrv. þm. og hæstv. fyrrv. ráðherra, Steingrímur Hermannsson, mun oftast hafa greitt atkvæði og kannski alltaf með kvótanum, en hann hefur í ræðu og riti hins vegar sagt að hann hafi haft um það miklar efasemdir eins og hann er öðrum mönnum snjallari í að gera.