Stjórn fiskveiða

149. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 01:44:28 (7215)


[01:44]
     Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :

    Hæstv. forseti. Ég held að við, ég og hv. þm., þyrftum lengri tíma og kannski aðrar aðstæður til að fara út í þessa sögu ef við ætlum að fara í gegnum það með tæmandi hætti. Það er allt á sínum stað að fara í umræður um það. Ég endurtek bara að það dugar ekki og tommar ekki hjá hv. þm. að ætla sér að afgreiða þessi mál bara si svona í örstuttum andsvörum. Ég held að hv. þm. þurfi að rifja þetta betur upp. Hann greinilega misminnir nokkuð, m.a. um tímaröð atburða. Ég get lagt fram fyrir hann og afhent honum ef hann vill ræðu mína frá ráðstefnu Háskólans á Akureyri um sjávarútvegsmál. Ég man að ég lagði talsverða vinnu í þá ræðu og hún var allmikil að vöxtum. Þar rakti ég m.a. sögu sjávarútvegsstefnumótunar í Alþb., allt frá dögum Lúðvíks Jósepssonar og fram til dags dato. Sú þál. sem hefur verið gerð að umtalsefni af hv. þm. var síðan flutt nokkru síðar.
    Ég tel að þarna sé að tvennu að hyggja. Annars vegar er það svo að flokkar sem halda saman sem stjórnmálaflokkar eru auðvitað að móta sína stefnu og menn eru oft þátttakendur í málamiðlunum innan sinna flokka. Þar fyrir utan er það svo, a.m.k. í Alþb. en kannski ekki í Framsfl. af vissum ástæðum, að menn hafa leyfi til að hafa í sjálfu sér persónulegar skoðanir og áherslur í þeim málaflokkum. Ég hef nýtt mér rækilega það frelsi í mínum flokki á undanförnum missirum. Ég hef til að mynda skrifað blaðagreinar um öll helstu viðfangsefni sjávarútvegsmálanna á umliðnum missirum, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins og fiskveiðistefnu, um úthafsveiðar og fjölmargar aðrar og birt það í Morgunblaðinu því Morgunblaðið tekur vel við umfjöllun um sjávarútvegsmál. Auðvitað er ég þar með að lýsa mínum viðhorfum og minni stefnu út af fyrir sig. (Forseti hringir.) Hún er vonandi í öllum aðalatriðum í sæmilegu samræmi við stefnumörkun og málamiðlanir innan míns flokks en tjáir að öðru leyti að einhverju leyti mín persónulegu viðhorf og áherslur til málsins.
    Hvernig eiga þingmenn að vinna? (Forseti hringir.) Hvernig eiga stjórnmálamenn að vinna öðruvísi en einhvern veginn svona? Eða er einhver önnur formúla til í Framsfl. sem ,,funkerar`` einhvern veginn allt öðruvísi þannig að menn tali þar allir einum rómi? (Forseti hringir.) Er það svoleiðis að járnagi hv. 1. þm. Austurl. svífi þar svoleiðis yfir vötnunum að það sé bara kórvilla að hafa einhverja sjálfstæða skoðun í þessum málum? Það mætti helst halda það (Forseti hringir.) þegar hv. þm. er hér að tala. (Forseti hringir.) Hvað á þessi bjöllugangur að þýða, hæstv. forseti, er tíminn búinn?
    ( Forseti (VS) : Hv. þm. er löngu búinn með tímann. Honum var mikið niðri fyrir.)