Stjórn fiskveiða

149. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 02:15:42 (7217)


[02:15]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu rétt hjá hv. þm. Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni að það þurfi að taka tillit til og hlusta á svokallaða atvinnumenn sem sendu frá sér plagg um áhrif þessara breytinga á sjávarútveginn. En ef maður les það plagg sem þeir sendu frá sér þá draga þeir tilteknar ályktanir á grundvelli ákveðinna forsendna sem þeir setja fram og ályktanir geta aldrei orðið betri heldur en þær forsendur sem þeir gefa sér fyrir þeim ályktunum. Og það hefur komið berlega í ljós í umræðum bæði í þingsalnum og eins í nefndinni að þær forsendur sem þeir byrja á að gefa sér standast ekki og þess vegna standast ekki ályktanirnar heldur. Þetta á t.d. við um úthafsveiðarnar og ekki síst vegna þess að veiðiskyldan er einmitt minnkuð fyrir þau skip sem eiga að stunda úthafsveiðar. Áhrifin af þeim takmörkunum á framsali sem um ræðir í brtt. eru hvergi nærri því slík að þau takmarki á einn eða annan hátt úthafsveiðarnar. Þess vegna er í sjálfu sér engin ástæða til að draga þær ályktanir sem þeir gera um fækkun starfa. Þvert á móti má búast við því að störfum geti fjölgað frekar en hitt á íslenskum skipum ekki síst ef þau skip sem verið er að tala um að fái að koma inn á íslenska skipaskrá fá að koma inn. Þá treysti ég því að Framsfl. muni styðja það af miklum heilindum.