Stjórn fiskveiða

149. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 02:19:48 (7219)


[02:19]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er ljóst að það er ekki verið að þrengja framsalsheimildirnar verulega. Það eina sem stendur á milli Framsfl. og Sjálfstfl. í þessu máli sem máli skiptir er spurningin um kvótabankana. Það er algjörlega hægt að lifa við að þeir hverfi og stunda öll viðskipti með aflaheimildir með hagkvæmum hætti án þess að hafa kvótabanka. Ég skil satt að segja ekkert í því að framsóknarmenn skuli þurfa að láta það standa fyrir sér.
    Það er líka ljóst að viðskiptin tonn á móti tonni verða heimil. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir þau. Spurningin snýst fyrst og fremst um verðlagninguna á fiskinum í þessum viðskiptum. Á þeim málum verður tekið í samstarfsnefndinni. Það liggur fyrir að það er orðið nokkuð afmarkað um hvað verið er að deila og ekkert sem kemur í veg fyrir að þessi viðskipti geti gengið áfram og hagkvæmni ríkt í þessu kerfi. Það er hins vegar ekki hægt að hlunnfara sjómenn eftir að þetta er komið á fót. Þess vegna er engin ástæða til að vera að draga upp svona grýlumynd. Hv. þm. kemur með ákveðna spá sem hann þykist trúa varðandi fækkun starfa og ég vil spyrja hann: Er hv. þm. tilbúinn til þess næsta haust þegar við komum saman á Alþingi aftur að standa upp og gera talningu á því hversu mörg störf nákvæmlega hafa tapast þegar búið verður að afgreiða þessi lög? Ég er handviss um að það verður ekki eitt einasta starf sem tapast heldur mun störfum fjölga ef þau skip fá að koma inn á íslenska skipaskrá og vera undir íslensku

flaggi sem eru að bíða fyrir utan en við erum að reyna að koma inn á skrána. Ég vona að hv. þm. hjálpi til við að koma þeim inn og vil gjarnan fá að heyra hans afstöðu til þess.