Stjórn fiskveiða

149. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 02:26:20 (7222)


[02:26]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er hárrétt, Þjóðhagsstofnun hefur vikið sér undan því og það er eitt af því sérkennilega í þessu plaggi. Hún birtir hins vegar töluna 5 milljarða, sem er tekin úr plaggi atvinnumannahópsins, og gerir ekki í sjálfu sér athugasemdir við hana. Hún segir hins vegar að þarna sé nokkuð vel í lagt varðandi margfeldistölu. Þegar menn segja að 1.500 sé nokkuð vel í lagt þá segir mín máltilfinning mér að ef það væri nokkuð vel í lagt þá væru menn að velta fyrir sér 1.000--1.200. Síðan geta menn reiknað út frá þessum forsendum. Því miður setur Þjóðhagsstofnun þetta það óljóst fram að það er ýmist hægt að fá töluna 1.000 eða 1.700 eftir því hvort maður tekur bara 10% af 7 þús. og margfaldar það með 1,5 eða hvort maður tekur 700 manna hópinn, sem eru þeir sem vinna við að ná aflanum, og margfaldar hann síðan með 1,5 til að fá heildartöluna. Ég átta mig ekki fullkomlega á því út úr þessu en annaðhvort hlýtur að vera samkvæmt þeim tölum sem Þjóðhagsstofnun gefur upp.