Stjórn fiskveiða

149. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 02:28:17 (7223)



[02:28]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég verð bara að segja það enn og aftur að ég tel engan veginn hægt að taka neina

tölu út úr því sem Þjóðhagsstofnun er þarna að segja. Það er hvergi gefin vísbending um það í raun og veru hvaða stærðir séu þarna á ferð. Og það er algjör spádómur sem hv. þm. var að fara með áðan um þetta efni.
    Hv. þm. talaði áðan um flutning á fiski sem hv. 4. þm. Vesturl. hafði nefnt. Mér er nokkurn veginn kunnugt um afstöðu og skilning hv. 4. þm. Vesturl. á þessum málum og ég tel að það hafi orðið nokkur misskilningur á milli hans og hv. 6. þm. Norðurl. e. þegar þessi mál voru rædd hér í dag. Ég held að hvorki honum né öðrum hafi dottið í hug að það ætti að setja hindranir á vegi til að hindra flutning á fiski en bæði honum og mér og mörgum öðrum hefur dottið í hug að það þyrfti að koma á skipulagi sem væri eðlilegra en nú er í verslun með fisk og veiðiheimildir og annað þurfi nú ekki til þannig að það verði farið að vinna fisk á heimaslóðum í sumum þorpum um landið sem ekki er gert núna þar sem fiskvinnsla hefur lagst af einmitt vegna þessara flutninga á fiski sem byggjast á lægra hráefnisverði heldur en gengur á milli aðila. Þetta tel ég að skipti þarna máli.
    Síðan langar mig til að bæta því við þar sem hv. þm. hældist um í ræðustólnum vegna þess að Framsfl. hefði lagt vegi um allt land, að þá munu nú vera komin tíu ár síðan Framsfl. hafi átt samgrh. og á þeim tíu árum hefur kannski orðið hvað mest bylting í bundnu slitlagi, a.m.k. á vegum.