Stjórn fiskveiða

149. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 02:32:09 (7225)


[02:32]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Eins og fram hefur komið í máli tveggja síðustu hv. ræðumanna hafa þessar umræður staðið alllengi og á móti því verður ekki mælt. Þær hafa að minni hyggju verið um flest málefnalegar og einkar gagnlegar fyrir það viðfangsefni sem hér er til umræðu og skiptir mjög miklu máli fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Fram hjá því er þó ekki hægt að horfa að þótt umræðurnar hafi verið langar hafa þær bætt fáu nýju við. Og þó að það sé yfirleitt þannig um hv. 6. þm. Norðurl. e. að ræður hans séu bæði ferskar og sífrjóar þá breytti síðasta ræða hv. þm. engu í þessu efni.
    Það má á vissan hátt segja að umræðan um samstarfsnefndina og breytingar á lögum um greiðslumiðlun hafi kallað fram öll meginsjónarmiðin sem hér er fjallað um og tekist á um við afgreiðslu þessara mála á þessu vori. Enda eru þessi frv. í sjálfu sér ein heild og ekki óeðlilegt að einmitt í þeirri umræðu hafi öll meginsjónarmiðin komið fram.
    Það er vissulega svo sem hér hefur komið fram í máli hv. þm. að það verður seint fundin sú útfærsla á aflamarkskerfinu að allir verði á eitt sáttir, ekki síst við þær aðstæður þegar afli er takmarkaður þá hljóta mismunandi hagsmunir byggðarlaga og útgerðarflokka að togast á og menn mæla fyrir þeim hagsmunum þó þá greini e.t.v. ekki á um grundvallaratriði við fiskveiðistjórnunina. Það er mjög mikilvægt á hinn bóginn, þótt útilokað sé að sætta alla, að freista þess að ná sem víðtækastri samstöðu um þessi efni. Það er ekkert launungarmál að verkfallsátök sjómanna og útvegsmanna í vetur hafa sett nokkuð mark sitt á umræðuna og þær úrlausnir sem liggja fyrir til umræðu og sú viðleitni að ná sátt þar á milli hefur ráðið talsverðu um þær tillögur sem hér liggja fyrir til umræðu.
    Ég geri ekki lítið úr viðleitni hv. þm. Framsfl. til að ná enn frekari sátt í þessu efni, geri á engan hátt lítið úr þeirri viðleitni, virði hana miklu fremur því ég veit að hún er borin fram af heilum hug og vilja til þess að við getum búið við öruggt stjórnkerfi og markvissa fiskveiðistjórnun. Hitt er ljóst að sú tillaga sem hv. þm. Framsfl. hafa borið fram í þeim tilgangi að finna betri málamiðlun er ekki fullnægjandi eða aðgengileg í þessu tilliti. Enn hefur sú tillaga ekki komið fram sem geti leyst það ákvæði af hólmi sem hefur helst verið deilt um, eða svonefnda 15%-reglu.
    Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þá gagnrýni sem hér hefur verið vikið að og kom frá svokölluðum atvinnuhópi. Ég fjallaði um það í umræðunni um samstarfsnefndina fyrst og fremst vegna þess að það hafði komið mér á óvart að einmitt þessir menn skyldu rökstyðja málflutning sinn með þeim hætti sem þeir gerðu. Ég ætla ekki að fara lengra út í þá sálma á þessu stigi né heldur þær athugasemdir sem Þjóðhagsstofnun hefur lagt fram af því tilefni. Þær skýra mætavel þá stöðu sem uppi er í þessu efni. Ég vænti þess á hinn bóginn að sú umræða sem hér hefur farið fram og staðið þetta lengi skili okkur fram á

við í þessu efni og að hv. þm. hafi skilning á nauðsyn þess að ljúka verður afgreiðslu þessara mála nú á vorþingi til þess ekki síst að tryggja nokkuð öryggi um fiskveiðistjórnunina og lausn á þeim vanda sem upp kom í verkfallsátökum útgerðarmanna og sjómanna.