Stjórn fiskveiða

149. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 02:38:31 (7226)


[02:38]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það verður að segjast alveg eins og er að það var allt annar tónn í þessari ræðu en þeirri sem hæstv. sjútvrh. flutti þegar við ræddum um samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna. Ég gat ekki skilið ræðu hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að hann væri tilbúinn til þess að skoða breytingar til málamiðlunar sem væri hægt að ná frekari sátt um.
    Hæstv. ráðherra sagði að brtt. Framsfl. væru ekki fullnægjandi. Ég bendi á að tillögur Framsfl. voru ekki fram settar sem heilsteypt stefna heldur fyrst og fremst til að reyna að laga, þó í litlu væri, þær brtt. sem stjórnarmeirihlutinn var búinn að setja fram. Vissulega er það svo að ef aðrar fyndust betri hef ég ekki trú á að stæði á framsóknarmönnum að skoða þær.
    Ég vil því spyrja hæstv. sjútvrh. beint hvort ráðherrann telji að einhvers konar útfærsla á lágmarkskvóta á skip gæti nálgast það markmið sem 15% reglunni var ætlað að gera á þann hátt að bæði fiskverkendur og sjómenn og þar af leiðandi útgerðarmenn og landverkafólk um leið gæti séð í þeirri útfærslu leið sem væri því frekar að skapi.