Neytendalán

150. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 13:08:01 (7229)


[13:08]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um breytingar á lögum nr. 30/1993, um neytendalán. Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á fund til sín fulltrúa ráðuneytisins og enn fremur bárust umsagnir frá allnokkrum aðilum.
    Nefndin leggur til að þetta frv. verði samþykkt óbreytt.
    Aðdragandi þessa máls er sá að á síðasta þingi voru samþykkt ný lög um neytendalán. Þar var algjörlega ný löggjöf á ferðinni og í framkvæmd þessara nýju laga hafa komið upp ýmsir hnökrar eins og við er að búast þegar sett er löggjöf um algjörlega nýtt svið á þessum vettvangi. Ráðuneytið skipaði nefnd sl. sumar til að fara yfir málin og fara yfir þá hnökra sem upp hefðu komið og gera tillögur um það sem betur mætti fara. Nefndin vill að frv. verði samþykkt enda eru þar á ferðinni lagfæringar á þessum nýju lögum og við í efh.- og viðskn. vonumst til að þessi lög um neytendalán geti staðið óbreytt um nokkurn tíma.