Birting laga og stjórnvaldaerinda

150. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 13:13:00 (7231)


[13:13]

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hafði á undirritun þessa nál. en hann lýtur einvörðungu að því hvort tímabært hafi verið að taka upp þessa breyttu háttu áður en sú endurskoðun sem getur um í nál. fer fram. Þetta er vissulega alltaf matsatriði og mér finnst það ekki stórmál hvort kemur á undan, því ég held að þarna sé að vissu leyti verið að feta út á rétta braut, verði það gert eftir skipulegum reglum, þannig að ekki verði of mörg erindi birt og það verði greið leið fyrir almenning að gera sér grein fyrir hvar á að leita að hvaða upplýsingum fyrir sig. En eins og kunnugt er þá þarf nú að leita bæði í Lögbirtingablaði og í Stjórnartíðindum að þeim upplýsingum sem þarna er ætlunin að verði einungis í Stjórnartíðindum.
    Fyrirvari minn er að öðru leyti ekki efnislegur og ég taldi rétt að gera grein fyrir því hér.