Tollalög

150. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 13:56:36 (7243)


[13:56]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör sem hann gaf og fara um þau nokkrum orðum.
    Í fyrsta lagi varðandi utanrrn. verð ég að segja eins og er að ég tel að það sé slæmt að utanrrn. skuli hafa úrskurðarvald í þessum málum við tilteknar aðstæður þó um sé að ræða túlkun samninga sem við erum aðilar að. Ég tel að eðlilegra hefði verið að fjmrn. hefði ráðið þessu máli. Það hefði haft ráðgjafarnefnd með sér og síðan hefði utanrrn. út af fyrir sig getað beitt sér á öðrum vettvangi til þess að reyna að hnekkja niðurstöðum fjmrn. En ég tel að það sé mjög skrýtið og í raun og veru úr öllu eðlilegu samhengi við þær reglur sem gilda í Stjórnarráði Íslands að utanrrn. ráði úrslitum í málum af þeim toga sem hér eru uppi á borðinu.
    Í öðru lagi vil ég endurtaka það að ég óttast að það ferli sem hér er gert ráð fyrir, varðandi það að sanna hvort um sé að ræða undirboð, sé allt of langt og allt of flókið. Mér er sem ég sjái þá íslensku atvinnurekendur og skipasmíðastöðvar sem hafa tæknilega burði til þess að standa í því málavafstri sem bersýnilega er gert ráð fyrir í reglugerðardrögunum eins og þau eru. Þau eru allt of flókin. Auðvitað er það alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. að þessu er hægt að breyta í tímans rás, það er þó í höndum ráðherra og þarf ekki að bera það aftur fyrir þingið ef þetta hefur orðið að lögum. En ég segi það alveg eins og er að ég óttast að þetta ferli sé allt of flókið, það taki allt of langan tíma og skili þar af leiðandi ekki þeim árangri sem þarf og þau verkefni sem um er að ræða séu farin úr landi eða fyrirtækið á hausinn áður en niðurstaða úr rannsóknum liggur fyrir.
    Það stendur einhvers staðar í reglugerðardrögunum að þetta ferli eða rannsókn megi þó ekki taka meira en eitt ár frá því að rannsóknin hefst. Rannsóknin hefst þó ekki alveg strax því fyrst á að leita til samráðsnefndarinnar, síðan á hún að meta hvort eðlilegt er að hefja rannsókn, síðan á rannsóknin að auglýsast í Lögbirtingablaðinu og frá þeim tíma að rannsóknin hefur verið auglýst og þangað til henni lýkur þá má í hæsta lagi líða heilt ár. Og mér er sem ég sjái íslenska útgerðaraðila bíða eftir slíkum niðurstöðum með sín skip í heilt ár eftir að pappírsmylla fjmrn. hefði komist til botns í máli af þessu tagi. Þannig að ég óttast að þessi flækja geri það að verkum, því miður, þó að það sé vafalaust góður hugur hjá hæstv. fjmrh. og öðrum á bak við málið, að sú góða meining geri enga stoð þegar upp er staðið fyrir iðnaðinn og þó kannski alveg sérstaklega skipasmíðaiðnaðinn í landinu.
    Hitt er auðvitað alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að þetta er ekkert einfalt mál, m.a. það að það verður að tryggja það og búa þannig um hnútana að andmælarétti viðkomandi aðila sé að fullu til skila haldið. Við verðum einnig að búa þannig um hnútana að það sama gildi um okkur annars staðar og um aðra hjá okkur. Þannig að málið er engan veginn einfalt, það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra, en ég ítreka að ég óttast að eins og um hnútana er búið sé gengið óþarflega langt í varfærnisátt. Það er þannig að þetta stjórnkerfi hjá okkur hefur verið tregt til að beita reglum af þessu tagi. Það hefur verið það. Það er ekki vegna sleifarlags einstakra ráðherra eða stjórnmálamanna eingöngu eða fyrst og fremst að ekki hafa verið settar reglur af þessum toga heldur vitum við auðvitað að sumar reglur og ýmsir þættir af því tagi sem hér er verið að ræða um eru svo að segja eins og eitur í beinum ákveðinna valdamikilla embættismanna kerfinu án þess að það sé hægt að kenna þeim um, því það eru ráðherrarnir sem bera ábyrgðina, en þessir valdamiklu embættismenn hafa sitt að segja.
    Það sem er kannski alvarlegast í þessu er svo líka að Evrópska efnahagssvæðið, eins og það lítur út núna og okkar samningur og aðild að þeim samningi, ver ríkisstyrkina áfram á EES-svæðinu. Þetta er næstum að segja algjörlega óleysanlegur vandi gagnvart samkeppni við norskar skipasmíðastöðvar alveg sérstaklega. Þannig háttar til að Norðmenn eru, eins og allir vita, með fastar hlutfallsgreiðslur af kostnaði við skipasmíðaverkefni hjá sér en þar fyrir utan nota þeir byggðastyrki til að greiða niður jafnvel allan stofnkostnað við einstakar skipasmiðjur eða skipasmíðaverkefni. Mér er kunnugt um að í Norður-Noregi var ekki fyrir löngu reist ný og stór glæsileg skipasmíðastöð sem öll er byggð fyrir peninga úr ríkissjóði eða almannasjóðum með einhverjum hætti ( Gripið fram í: Kirkenes.) Kirkenes, já. Auk þess að allur fjármagnskostnaður er gefins þá er rekstrarkostnaðurinn borgaður niður. Það er því augljóst mál að við erum í engri stöðu til þess að ráða við þessa skipasmiðju eins og sakir standa, því miður, og það er mjög alvarlegt umhugsunarefni.
    Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði dugir ekkert í þessum efnum vegna þess að þar eru ríkisstyrkir í skipasmíðum undanþægir. Fyrst var það samkvæmt bókuninni út árið 1994, ef ég man rétt, og síðan var sú bókun framlengd a.m.k. út árið 1995. Það er alveg ljóst að þessi bókun verður ekki framlengd endalaust en mér segir svo hugur um að hún verði framlengd býsna lengi vegna þess að forustumenn þessara veiku skipasmíðastöðvar á Evrópsku efnahagssvæði hafa þrátt fyrir allt mikil pólitísk áhrif í Evrópusambandinu og á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þess vegna óttast ég að þrátt fyrir jöfnunaraðstoðina og allt það sé það í raun þannig að við séum búin, nema við gerum eitthvað annað, að gefast upp gagnvart skipasmíðum í Noregi, dæma okkur til þess að tapa þeim slag. Við getum kannski keppt við Pólverja eins og þau dæmi líta út, en að öðru leyti óttast ég að þetta sé langtímavandi.
    Spurningin er sú að því er varðar skipasmíðaiðnaðinn: Hvað á þá að gera? Þá komum við að öðrum verkefnum en þeim sem eru beinlínis á dagskrá undir þessum lið, hæstv. forseti, á dagskrá fundarins? Hæstv. fjmrh. nefndi þó jöfnunaraðstoðina sem er upp á 40 millj. og er út af fyrir sig þakkarvert. Það er út af fyrir sig stórkostleg framför að fá þessa jöfnunaraðstoð samþykkta. Vandinn er sá að hún er þegar búin. Samkvæmt upplýsingum sem iðnn. fékk frá iðnrn. fyrir nokkrum dögum þá er þessi jöfnunaraðstoð upp á 40 millj. kr. þegar búin. Umsóknir eru um miklu stærri upphæð. Það er því bersýnilegt að þessi litla jöfnunaraðstoð hefur þó hjálpað til. Staðreyndin er sú að skipasmíðaiðnaðurinn var svo að segja dauður og er svo að segja dauður þannig að það munaði um allt og jöfnunaraðstoðin upp á 40 millj. kr. sem var ákveðin hjálpaði pínulítið. Það eru nokkur fyrirtæki aðeins að tygja sig af stað og mér er kunnugt um að það er verið að leita eftir því hvort íslenskar skipasmíðastöðvar geta e.t.v. tekið inn eins og eitt eða tvö nokkuð myndarleg verkefni ef þær geta staðið í lappirnar að öðru leyti. Þá verða menn að fara í endurfjármögnun á þessari iðngrein sem er þrotin að kröftum, eiginfjárlaus í raun og veru. Í þeim efnum má margt nefna, m.a. nauðsyn þess að skipasmíðastöðvarnar á Íslandi, sem eru margar, sameinist um einhverja tiltekna þætti og komi á skipulagðri verkaskiptingu sín á milli vegna þess að það er alveg ljóst að við getum ekki rekið fjölda skipasmíðastöðva í landinu. Og gráupplagt er það alla vega að skipasmíðastöðvar á Faxaflóasvæðinu taki upp skipulega samvinnu sín á milli.
    Ég vil sem sagt ljúka þessari umræðu með því að segja að ég ætla að greiða frv. atkvæði en ég segi jafnframt og tek undir það sem fram kom m.a. hjá hæstv. ráðherra og hv. 1. þm. Norðurl. v. að þetta leysir ekki allan vanda. Það er mjög langt frá því og ég óttast að þetta leysi minni vanda en það gæti leyst ef þetta væri ekki svona flókið í bak og fyrir eins og reglugerðardrögin líta út fyrir að vera. Sérstaklega væri það gott ef utanrrn. yrði byggt út úr dæminu vegna þess að þar væri þá glæta í því. En með utanrrn. sem úrskurðaraðila eins og það er mannað í dag, kaþólskari en allir páfar í heimi, þá er ekki mikil von í þessu.