Alferðir

150. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 14:18:13 (7249)


[14:18]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Hæstv. forseti. Samgn. hefur fjallað um frv. þetta til laga um alferðir og hefur fengið á sinn fund Jón Birgi Jónsson, ráðuneytisstjóra samgrn., Ragnhildi Hjaltadóttur, skrifstofustjóra í sama ráðuneyti, og Birgi Þorgilsson, formann ferðamálaráðs.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Félagi íslenskra ferðaskrifstofa, ferðamálaráði Íslands, Flugleiðum og Neytendasamtökunum.
    Frv. er öðrum þræði flutt til þess að fullnægja ákvæði EES-samninga þar sem eru skuldbindingar fyrir okkur Íslendinga að lögfesta sambærilegar reglur um það sem hér er kallað alferðir, en hefur áður í daglegu tali verið kallaðar pakkaferðir, og gilda í öðrum EES-löndum og hafa verið lögfestar í okkar nágrannalöndum.
    Hér er um að ræða aukin réttindi neytenda, þ.e. þeirra sem ferðast á vegum ferðaskrifstofa í svokölluðum alferðum. Það skal tekið fram að fulltrúar ferðaskrifstofa töldu að því fylgdi nokkur kostnaður fyrir ferðaskrifstofurnar að taka á sig þær auknu skyldur sem frv. felur í sér en létu þess jafnframt getið að hjá því yrði naumast komið. Þrátt fyrir það að frv. yrði ekki lögfest yrði naumast hjá því komist að taka á sig sambærileg réttindi fyrir aðila sem ferðast á vegum íslenskra ferðaskrifstofa og ferðast á vegum annarra ferðaskrifstofa í nálægum löndum.
    Þess er getið að í ferðamálum eru óglögg landamæri og sala á ferðum á vegum einstakra ferðaskrifstofa lýtur ekki endilega landamærum.
    Það er skoðun nefndarinnar að rétt sé að lögfesta frv. og telur nefndin eðlilegt að hérlendis séu í gildi sams konar reglur um neytendavernd í ferðaþjónustu og eru í þeim löndum Evrópu sem Íslendingar sækja mest til og hafa mest samskipti við. Nefndin leggur því til að frv. verði samþykkt óbreytt. Fjarverandi afgreiðslu málsins var Jóna Valgerður Kristjánsdóttir en þrír nefndarmenn, fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna skrifa undir nál. með fyrirvara.