Alferðir

150. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 14:35:03 (7252)


[14:35]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er einmitt það sem hefur komið fram og hefur ekki skýrst nægilega vel að það er hægt að selja alferð sem er kannski bara gisting og þjónusta en engin ferð. Og þó að menn þurfi að fara á staðinn til þess að fá þessa gistingu og þjónustu þar sem hún er seld þá er það fargjald ekki selt með í þjónustunni. Menn geta farið það á eigin vegum og keypt síðan einhverja gistingu og þjónustu úti í sveit án þess að nein ferð sé með í því. Þetta er aðeins eitt atriði í sambandi við það að ég tel ekki rétt að þetta heiti alferð. Við þekkjum þetta undir nafninu pakkaferðir og þó það sé kannski ekki nógu góð íslenska þá er það búið að vinna sér ákveðna hefð að kaupa pakkaferðir og það held ég að verði kannski notað áfram þó svo að við breytum þessu.
    En það er auðvitað alveg rétt sem hv. formaður nefndarinnar segir að allir nefndarmenn skrifuðu undir þetta og hljóta þar af leiðandi að vera þessu frv. samþykkir. Ég var fjarverandi þegar fjallað var um þetta á síðasta fundi og þá hafa e.t.v. komið fram einhverjar þær skýringar sem ég hef ekki heyrt. Ég vil þó endurtaka að ég sé ekki að það hefði verið neitt nauðsynlegt að ljúka þessu frv. á svo stuttum tíma. Það hefði alveg verið hægt að bíða með það. Ég hygg að þó að hér sé um neytendavernd að ræða og ferðaskrifstofur hafi sagt að þær þurfi að fylgja öðrum í því efni þá hefði það gerst hvort sem þetta frv. yrði að lögum eða ekki. Ég tel ekki tímabært að afgreiða það af þeim sökum vegna þess að ég tel að það þurfi aðeins meiri umfjöllun.