Kjarasamningar opinberra starfsmanna

150. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 14:37:39 (7253)


[14:37]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. og nál. efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um breytingu á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
    Í frv. er gert ráð fyrir því í stuttu máli að starfsfólk sveitarfélaga falli undir Atvinnuleysistryggingasjóð og þiggi bætur úr honum. Sveitarfélögin greiða tryggingagjald til Atvinnuleysistryggingasjóðs en hafa hingað til þurft að standa sjálf undir bótum til þeirra launþega sem verða atvinnulausir sem starfsmenn þeirra.

    Nefndin hefur fjallað um frv. og á hennar fund komu fulltrúar fjmrn. og einnig komu umsagnir um málið frá ASÍ, BHMR, BSRB, Sambandi ísl. sveitarfélaga og Tryggingastofnun ríkisins.
    Meginefni brtt. er að leggja það til að allir opinberir starfsmenn falli undir Atvinnuleysistryggingasjóð og að þeir verði ekki háðir neinum sérlögum hvað það snertir. Þetta þýðir í framhaldinu að það getur verið nauðsynlegt að endurskoða löggjöfina um atvinnuleysistryggingar, sérstaklega hvað varðar skipun stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs þannig að bæði vinnuveitendasjónarmiðin og launþegasjónarmiðin á vettvangi hins opinbera fái þar hljómgrunn.
    Enn fremur leggur efh.- og viðskn. til að lög þessi öðlist gildi 1. júlí 1994.