Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

151. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 21:02:36 (7258)


[21:02]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Hér á hinu háa Alþingi er það einn þáttur í starfseminni að hafa svokallaðar eldhúsdagsumræður þar sem nokkur úttekt er gerð á þeim málum sem í umræðunni hafa verið síðustu mánuði og missiri. Hér er um eins konar vorhreingerningu að ræða. Eins og kunnugt er hafa konur um aldir tekið að sér þau verk. Þær sjá betur út i hornin og ryk og óhreinindi fara ekki fram hjá þeim.
    Eldhúsdagsumræðan þarf að vera þannig upp byggð að almenningur geti fengið sem heillegasta mynd af því starfi sem hér fer fram. Jafnframt á umræðan að sýna þjóðinni hvaða mál flokkarnir og einstakir þingmenn leggja áherslu á. Það er ákaflega mikils virði að Alþingi geti haldið virðingu sinni meðal almennings í landinu og landsmönnum sé ljóst að starf þingmanna endurspeglast ekki alltaf með réttu í þeim svipmyndum sem sýndar eru í fréttamyndum ljósvakamiðlanna. Þó að nú hafi fólk í þéttbýlinu hér sunnan lands tækifæri til að fylgjast með fundum Alþingis í gegnum Sýn, þá ná þær sendingar enn yfir tiltölulega afmarkað svæði og úr því þarf að bæta hið allra fyrsta svo landsmenn sitji þar allir við sama borð.
    Ef ég lít yfir starfstíma þessarar ríkisstjórnar er óhætt að segja að eitt stærsta málið á þingi hafi verið samningurinn um EES. Þó er afgreiðslu hans í raun ekki lokið þótt samningurinn hafi tekið gildi um sl. áramót. Nýlega komu á borð þingmanna sex þykkar bækur, alls um 3.000 blaðsíður, sem innihalda tilskipanir og reglugerðir Evrópusambandsins sem Alþingi er ætlað að samþykkja án þess að geta haft nein áhrif á innihaldið og þannig mun það verða í framtíðinni. Alþingi hefur með samþykkt EES-samningsins afsalað hluta af sínu löggjafarvaldi til Brussel. Það er sannarlega erfitt að hugsa það til enda að slíkt skuli hafa gerst á sama tíma og við höldum upp á hálfrar aldar afmæli lýðveldisins.
    Af hálfu stuðningsmanna samningsins var lagt kapp á að fullyrða að hér væri ekki um annað en viðskiptasamning að ræða og samningurinn væri nauðsynlegur íslensku atvinnulífi í breyttum heimi og yrði af stofnun hins Evrópska efnahagssvæðis þyrftum við engu að kvíða og alls ekki að sækja um inngöngu í Evrópusambandið.
    Annað er nú komið í ljós. Ekki er samningurinn um EES fyrr í gildi genginn en stuðningsmenn hans eru farnir að leggja til að við sækjum um inngöngu í Evrópusambandið og enn er sama röksemd notuð, hræðsluáróður um að við stöndum ein og yfirgefin á köldum klaka hér úti í miðju Atlantshafi.
    En skyldi þá ekki allt vera orðið harla gott úr því að hið Evrópska efnahagssvæði er orðið að veruleika? Reyndar ekki. Atvinnuvegir landsmanna eru ekki í stakk búnir til að taka við hinni óheftu samkeppni sem samningurinn leiðir yfir okkur. Iðnaðurinn stenst ekki þá samkeppni nú frekar en þegar við gerðumst aðilar að EFTA. Landbúnaðurinn á undir högg að sækja þegar búið er að leyfa innflutning landbúnaðarvara jafnvel þó að lögð verði á verðjöfnunargjöld. Og sjávarútvegurinn, undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar og sú grein sem stendur undir 80% af útflutningstekjum okkar í dag, er rekinn með halla. Atvinnuleysið minnkar ekki hér á landi þó við tengjumst svæði þar sem 35 milljónir manna ganga atvinnulausar og það höfum við nú síðast fengið að heyra í fréttum í kvöld.
    En hefur núv. ríkisstjórn þá ekki reynt að sporna við fótum? Hefur hún ekki gripið til aðgerða til að styrkja atvinnuvegina? Hvaða aðgerðum í byggðamálum og atvinnumálum hefur ríkisstjórnin beitt? Það er búið að leyfa innflutning landbúnaðarvara. Þar með mun störfum fækka enn meir í landbúnaði. Garðyrkjuiðnaðurinn stendur höllum fæti vegna vaxandi innflutnings á blómum og grænmeti. Skipasmíðaiðnaðurinn er að verða rústir einar þó að nú loksins hafi menn vaknað upp við vondan draum og sjái að hægt hefði verið að grípa til ýmissa aðgerða til bjargar. Það var bara ekki gert í tæka tíð. Sjávarútvegurinn býr við niðurskurð í aflaheimildum ár eftir ár. Þar hafa mörg fyrirtæki orðið gjaldþrota á síðustu þremur árum og ekki sér fyrir endann á því enn. Þannig er ástandið í helstu atvinnuvegum þjóðarinnar, en helsti ljósi punkturinn er ferðaþjónustan sem hefur aukið umsvif sín á milli ára og skilar um 10% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Við kvennalistakonur höfum bæði í ræðu og riti lagt mikla áherslu á eflingu ferðaþjónustunnar og bent á þá leið til að draga markvisst úr atvinnuleysi.
    Ríkisstjórnin mun hér í kvöld vitna til lágrar verðbólgu, stöðugleika í kjaramálum, að viðskiptajöfnuður sé hagstæður, að atvinnuleysi sé minna en hjá okkar nágrannaþjóðum og margt hafi verið gert til að styrkja stöðu atvinnulífsins. Hvað segir það okkur? Jú, lítil verðbólga eða nánast engin er vitanlega eftirsóknarverð. En að baki þeim tölum liggur líka að fjárfesting er í sögulegu lágmarki í landinu og nýjustu tölur úr fjármálaheiminum sýna að fyrirtækin sem sýna hagnað hafa ekki notað þann hagnað til að bæta við sig fólki og draga úr atvinnuleysinu. Það að vöruskiptajöfnuður sé hagstæður er ekki bara það að nú eyðum við minna en við öflum, sem er í sjálfu sér gott. Það þýðir líka að fólk hefur ekki lengur efni á að fjárfesta eins og það hefur áður gert. Það hefur dregið úr kaupgetu fólks, bæði vegna atvinnumissis og einnig þess að ríkisstjórnin hefur aukið skattheimtu ótæpilega. Það kemur að vísu ekki allt fram í útreiknaðri skattaprósentu, sem þó hefur hækkað gífurlega á einstaklingum á valdatíma þessarar ríkisstjórnar, því skattarnir hafa verið lækkaðir á atvinnugreinunum en hækkaðir á almenningi. Þjónustugjöld svokölluð hafa verið stóraukin. Fólk greiðir nú meira fyrir læknisþjónustu en áður, kostnaður vegna lyfja hefur aukist hjá sjúklingum sem greiða hærra hlutfall af lyfjaverði, skólagjöld hafa verið hækkuð, vextir af íbúðalánum hafa hækkað, námslán hafa verið skert. Þarf frekari vitnanna við?
    Hagur almennings í landinu hefur stórversnað á síðustu þremur árum eða á valdatíma þessarar ríkisstjórnar. Aldrei hafa jafnmargir þurft að leita á náðir hjálparstofnana og fyrir síðustu jól og þannig er ástandið á 50 ára afmæli lýðveldisins.
    Mikill árangur hefur náðst í lækkun vaxta, segja fulltrúar ríkisstjórnarinnar vafalaust í kvöld. En var það ekki einmitt þessi ríkisstjórn sem fór af stað með því að hækka vexti vorið 1991? Síðan átti markaðurinn að sjá um að þeir lækkuðu. Þegar það gerðist ekki þrátt fyrir að aðstæður væru til þess að mati Þjóðhagsstofnunar þá loksins skildi ríkisstjórnin að hún yrði að gera eitthvað til að markaðurinn hlýddi. Og í kjölfar þeirrar handleiðslu eða handafls lækkuðu vextir nokkuð. Samt eru vextir enn með því hæsta sem gerist í löndunum í kringum okkur og enn svo háir að skuldug heimili og fyrirtæki geta tæpast risið undir því.
    Við gætum í dag horft bjartari augum fram á veginn ef ekki hefði á undanförnum árum sífellt verið horft til töfralausna sem áttu að leysa vandann með hraði. Það gleymdist að til þess að koma af stað varanlegum lausnum í atvinnumálum þarf fyrst að leggja fram vinnu og fjármagn við rannsóknir og þróunarstarf. Það er of dýrt fyrir þjóðarbúið þegar allir fara af stað í einu og ætla að græða á sama verkefninu. Þannig hafa fjármunir oft farið forgörðum og menn gefist upp á erfiðleikunum. Vissulega situr þar eftir þekking sem nýst getur síðar, en hún er dýru verði keypt. Hefði verið skipulegar unnið og gert í upphafi ráð fyrir afföllum vegna byrjunarerfiðleika þá væri staða atvinnugreina líklega betri en nú er.
    Við Íslendingar höfum vanist því í okkar aðalatvinnuvegi, sjávarútveginum, að sveiflur eru þar miklar. Þar fer afkoman eftir aflamagni, fiskgengd, veðurfari og markaðsaðstæðum. Okkur er fyrirmunað að ráða gangi allra þessara mála en í sjávarútveginum þurfum við að leggja miklu meiri áherslu á rannsóknarþáttinn en hingað til hefur verið gert. Lífríki sjávar er margbrotið og þar eru margir óvissuþættir. Fjölstofnarannsóknir sem hafnar eru hafa þegar skilað árangri og menn vænta mikils af því verkefni. Áfram þarf að halda á þeirri braut.
    En það er nauðsynlegt að vera með meiri fjölbreytni í atvinnumálum en nú er. Við sjáum það alls staðar í heiminum í kringum okkur að það eru lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru vaxtarbroddur atvinnulífsins. Ísland á mikla möguleika ónýtta sem ferðamannaland. Þess vegna eigum við að snúa okkur að þessum þáttum og efla þá með öllum ráðum.
    Ferðaþjónustan er mannfrek atvinnugrein og þar má skapa miklu fleiri störf en nú eru. Þar hefur fjölgun starfa orðið hvað mest á síðustu árum í takt við og jafnvel umfram þá aukningu sem orðið hefur í tekjum af atvinnugreininni. Ferðaþjónustan hentar konum mjög vel og í þeirri grein hefur fjölgun starfa orðið meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Smáfyrirtæki hafa líka verið að hasla sér völl í atvinnulífinu og oftar en ekki eru það konur sem þar eru frumkvöðlar. Úti um allt land eru konur að vinna skipulega að því að skapa sér og sínum atvinnu. Þetta eiga stjórnvöld að viðurkenna og sýna í verki með því að stofna í hverjum landshluta eða víðar embætti atvinnuráðgjafa kvenna eins Kvennalistinn hefur lagt til.
    Að lokum vil ég benda ykkur á það, áheyrendur góðir, að þau markmið sem ríkisstjórnin setti sér í upphafi kjörtímabilsins hafa ekki náðst. Það átti að ná niður halla ríkissjóðs á tveimur árum. Hallinn er á þremur árum orðinn yfir 20 milljarðar. Það átti að stöðva aukningu ríkisútgjalda. Það hefur verið gert á kostnað almennings. Það átti að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs en raunin er sú að skuldir ríkissjóðs hafa aukist á þremur árum um 32 milljarða kr. og greiðslubyrðin stefnir í 30% af útflutningstekjum þjóðarinnar.
    Innan mánaðar á að kjósa til sveitarstjórna til næstu fjögurra ára. Það verður hlutverk þeirra sem kosningu hljóta að takast á við þau vandamál sem skapast vegna vaxandi atvinnuleysis og byggðaröskunar. Ég hvet ykkur öll sem á mál mitt hlýðið til að hugsa ykkur vel um og velja það fólk og þá flokka sem þið treystið, skoðaða í ljósi sögunnar, til að verja íslenskar byggðir atvinnu og sjálfstæði þjóðarinnar. Eigum við ekki á ári fjölskyldunnar að kjósa fleiri konur í sveitarstjórnir? Það eru konur sem alltaf hafa tekið ábyrgð á fjölskyldumálunum í þessu þjóðfélagi. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.