Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

151. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 21:25:14 (7260)


[21:25]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Í janúar 1992 sagði hæstv. forsrh. við þúsundir Íslendinga sem þá voru atvinnulausir: Þetta lagast í vor. Og nú kom hann aftur í kvöld, hæstv. forsrh., og sagði: Nú er að vora. Nú er bjart, nú er betri tíð. Það eru kaldar kveðjur til þeirra 8 þús. Íslendinga sem nú eru atvinnulausir að það sé að vora. Það eru kaldar kveðjur til þeirra þúsunda sem nú hafa reynt fátækt í íslensku þjóðfélagi í fyrsta sinn í áraraðir að nú sé að vora. Það eru kaldar kveðjur til þeirra fjölskyldna í atvinnulífinu sem eru að bíða gjaldþrot hjá sínum litlu fyrirtækjum að nú sé að vora. Og það eru kaldar kveðjur til þeirra sem eru með 40, 50 og 60 þús. kr. í mánaðarlaun á sama tíma og hástéttin á Íslandi er með 500, 600 jafnvel 1 millj. kr. í mánaðarlaun að nú sé að vora. Nei, hæstv. forsrh. Hjá venjulegu fólki á Íslandi er ekki að vora. En það er kannski að vora hjá þeim sem eiga hlutabréfin í stóru fjölskyldufyrirtækjunum sem eru burðarásinn í valdakerfi Sjálfstfl.
    Þessi ríkisstjórn er búin að sigla sitt skeið. Svo afgerandi er sú staðreynd að í kvöld treystir enginn ráðherra Alþfl. sér til þess að gera upp vetrarverkin hér í salnum. Ég held að það sé í fyrsta sinn sem það gerist í eldhúsdegi að enginn ráðherra annars stjórnarflokksins treystir sér til þess að mæla bót vetrarvinnunni. Slíkur er andinn í stjórnarsamstarfinu að forsrh. notaði seinni helming af sinni ræðu hér í kvöld til að senda utanrrh. beiskar pillur. Því að orðin í Evrópuræðu forsrh. um ,,menn sem koma af fjöllum`` voru skeyti til utanrrh. Orðin ,,menn sem vildu villast upp í lestir`` voru skeyti til utanrrh.
    Við höfum fylgst með því hér í allan vetur hvernig ágreiningurinn hefur tætt í sundur þessa ríkisstjórn og við heyrðum síðast í kvöld í fréttunum um húsaleigubætur og þyrlumál hvernig ágreiningurinn jafnvel á þessum degi er höfuðeinkennið hjá ríkisstjórninni. Ríkisstjórn sem nær ekki saman um hin minni mál, ríkisstjórn sem nær ekki saman um hin stærri mál á einfaldlega að viðurkenna að það er skynsamlegt fyrir hana sjálfa og þjóðina að skila völdunum í hendur öðrum. En þá þurfum við líka, fulltrúar annarra flokka á Alþingi, að svara því hvað við viljum gera. Það er ekki nóg að koma hér í kvöld og sýna fram á ágreininginn hjá ríkisstjórninni, sýna fram á missagnirnar hjá forsrh. og háðið í boðskapnum sem hann flytur í garð utanrrh. Það er satt að segja létt verk. Við þurfum að koma hér í kvöld, fulltrúar hinna flokkanna, og segja hvað við ætlum að gera, hvað á að taka hér við þegar þessi ríkisstjórn fer frá og hún mun fara frá í síðasta lagi innan 11 mánaða.
    Alþb. hefur notað þennan vetur til þess að setja saman ítarlega verkefnaskrá um þá nýju landsstjórnarstefnu sem við viljum að íslensk þjóð sameinist um. Í upphafi þessa þings þegar rætt var um stefnu ríkisstjórnarinnar greindi ég í þessum ræðustól frá nokkrum höfuðþáttum þeirra hugmynda. Á landsfundi okkar alþýðubandalagsmanna í nóvember, á fjölmörgum flokksfundum eftir áramót og á miðstjórnarfundi í mars höfum við síðan verið að ganga frá ítarlegu vinnuskjali sem við höldum nú út í þjóðfélaginu með og bjóðum til víðtækrar umræðu um. Við höfum gefið þessari stefnu heitið ,,Útflutningsleiðin`` og við höfum gefið hana út í þessari grænu bók sem hver og einn landsmaður getur nálgast og kynnt sér. Hér er á ferðinni ítarleg lýsing á nýju forriti í hagstjórn á Íslandi. Hér er að finna yfir 350 nýjar hugmyndir í atvinnumálum, í velferðarmálum og um aukna siðbót og réttlæti í stjórnkerfi og hagkerfi. Við byggjum þessa tillögugerð á reynslu okkar Íslendinga, en við höfum líka farið í smiðju til fjölmargra ríkja sem hafa náð árangri í hagstjórn á undanförnum árum þar sem hagvöxtur hefur skarað fram úr og þar sem menn hafa

getað sótt sér betri lífskjör í meiri árangur í atvinnulífi.
    Þessi tillögugerð sem birtist í grænu bókinni ,,Útflutningsleiðin, atvinna, jöfnuður, siðbót`` skiptist í nokkra meginhluta. Í fyrsta hluta hennar er lýst hver er munurinn á útflutningsleiðinni annars vegar og samdráttarleið þessarar ríkisstjórnar hins vegar. Í öðrum hlutanum er lýst hvernig þessi tillögugerð samræmist ýmsum helstu einkennum á íslensku hagkerfi í dag í ríkisfjármálum, í vaxtamálum, í viðskiptastöðu gagnvart útlöndum og fjölmörgum öðrum þáttum. En höfuðþáttur tillögugerðarinnar er ítarleg lýsing á nýrri sókn í atvinnumálum okkar Íslendinga og kerfisbreytingar í atvinnulífinu. Síðan taka við aðrir hlutar þar sem lýst er hvernig á að nota ávöxtinn í sókn í atvinnulífi til þess að treysta lífskjörin og jafna kjörin í landinu. Að lokum er rakið mjög ítarlega hvernig kerfisbreyting í stjórnkerfi og í fyrirtækjarekstri verður að fara heim og saman með endurbótum í atvinnulífi.
    Ég hef auðvitað ekki tækifæri á stuttum tíma hér í kvöld til að rekja þessa ítarlegu tillögugerð sem birtist í þessari bók upp á hátt á annað hundrað síður. Við höfum gefið út styttri útgáfu, eins konar kynningarrit upp á fjórar blaðsíður þar sem þessir höfuðþættir eru raktir.
    Hvers vegna leggjum við þetta fram nú tæpu ári fyrir þingkosningar? Skýringin er einföld. Við teljum að íslenskt efnahagslíf hafi sokkið svo djúpt í hjólförum vegna þeirrar frjálshyggjustefnu sem Alþfl. skrifaði upp á hjá Sjálfstfl. vorið 1991 að það þurfi ítarlegt átak til að snúa þeirri þróun við. Það gerist ekki af sjálfu sér. Það gerist heldur ekki með því að einblína á það sem er að gerast úti í Evrópu. Lausnin á vanda okkar Íslendinga verður að gerast hér hjá okkur sjálfum. Hún verður að gerast með nýrri stefnu í skattamálum þar sem sókn fyrirtækja í atvinnulífi hefur forgang. Hún verður að gerast með nýrri stefnu í bankamálum þar sem ofuráhersla á fasteignaveðin er lögð til hliðar og í staðinn verður farið að fjárfesta í hugmyndum og hæfileikafólki. Hún gerist með því að veita þeim sem vilja efla gjaldeyristekjur ákveðinn forgang í menntakerfi og í rannsóknum og þjónustu. Og hún gerist með því að nýta reynslu þeirra þúsunda af ungu fólki sem er að koma inn í íslenskt þjóðfélag og biðja um tækifæri, biðja um að þjóðfélagið sé opnað fyrir nýjum kynslóðum sem vilja hvorki mæta lokuðum dyrum í stjórnkerfi þar sem flokkarnir loka fyrir öllum öðrum nema sínum eigin gæðingum eða stórfyrirtækin sem loka fyrir öllum nema sínum eigin eigendum.
    Við alþýðubandalagsmenn munum á næstu vikum og mánuðum kynna þessa tillögugerð. Við bjóðum öllum til samstarfs, til viðræðna um þessar hugmyndir. Við munum fagna sérhverri ábendingu um viðbætur og nýja þætti. En umfram allt segjum við við ykkur, góðir landsmenn: Hér verður að koma ný landsstjórn. Við Íslendingar getum ekki liðið það að 8 þúsund manns séu atvinnulausir. Við getum ekki liðið vaxandi fátækt og vaxandi misrétti þó forsrh. sé harla ánægður með ástandið.
    Hin nýja landsstjórn verður að hafa traustan vegvísi. Við alþýðubandalagsmenn höfum í hinni grænu bók útflutningsleiðarinnar með tillögum um atvinnu, jöfnuð og siðbót lagt fram okkar lýsingu og við skorum á aðra flokka að gera slíkt hið sama. Stjórnmálaflokkur sem vill taka sig alvarlega verður að lýsa mjög nákvæmlega hvað hann vill gera. Hin nýja landsstjórn verður að hafna kreddum frjálshyggjunnar. Hin nýja landsstjórn verður þess vegna að byggja á samvinnu félagslegra afla, launafólks og atvinnulífs. Sjálfstfl. var gefið frí úr landsstjórninni haustið 1988 og þá tókst í kjölfarið á þeirri breytingu sem varð á stjórnarstefnu að ná verðbólgunni niður og koma á jafnvægi í efnahagslífi á Íslandi. Á sama hátt verður nú að gefa frjálshyggju Sjálfstfl. frí úr landsstjórninni og byggja hér trausta landsstjórn félagslegra afla sem vinnur í samvinnu við byggðarlögin og launafólkið í landinu að því að byggja nýtt Ísland. Það er okkar ætlunarverk, það er okkar vilji og við bjóðum öllum til samstarfs um þá fyrirætlan. --- Góða nótt.