Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

151. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 21:57:01 (7263)


[21:57]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Um þessar mundir eru rúm 200 ár liðin frá því að konur hófu skipulagða baráttu fyrir mannréttindum og beinum þjóðfélagslegum áhrifum konum til handa. Fyrir nákvæmlega 200 árum var franska stjórnarbyltingin í algleymingi, byltingarforinginn Robespierre sat við völd og fallöxin gekk nótt og dag. Konur voru mjög virkar í byltingunni, stóðu fyrir miklum mótmælum og settu fram kröfur um mannsæmandi kjör og réttinn til að ráða lífi sínu og barna sinna. Vorið 1794 var búið að hálshöggva flestar þær konur sem verið höfðu í fararbroddi kvenfrelsishreyfingarinnar því þessi bylting sem boðaði frelsi, jafnrétti og bræðralag var ekki ætluð konum. Þær skyldu halda sig innan dyra við heimilisstörf og hannyrðir þrátt fyrir þá staðreynd að mikill fjöldi kvenna vann fyrir sér og heimilum sínum. Ári síðar var hafist handa við að berja kvennahreyfinguna endanlega niður og lög sett þess efnis að hvar sem fimm konur eða fleiri sæjust saman utan dyra teldist það ólöglegur útifundur sem skyldi leystur upp og þær konur handteknar sem sýndu einhvern mótþróa.
    Mikið vatn er runnið til sjávar frá því að franskar konur þóttu slík ógnun við karlveldið og mikið hefur áunnist í þeirri baráttu kvenna að ná stjórn á eigin lífi. Ef við íslenskar konur látum hugann reika þótt ekki sé nema hundrað ár aftur í tímann til formæðra okkar verður okkur ljóst hvílíkar breytingar hafa orðið á aðstæðum kvenna. Konur höfðu almennt hvorki kosningarrétt né kjörgengi fyrir hundrað árum síðan og þær réðu ekki yfir eignum sínum. Laun þeirra kvenna sem voru vinnukonur, unnu við kolaburð, uppskipun eða saltfiskverkum, voru þriðjungur til helmingur af launum karla. Konur gátu vænst þess að fæða allt upp í 18--20 börn og að horfa á eftir nokkrum þeirra í gröfina á unga aldri. Þær bjuggu í lélegum húsakynnum án rennandi vatns eða góðrar upphitunar, hreinlæti var af skornum skammti og líf þeirra flestra var mikið strit. Barna- og kvennadauði var enn mikill um síðustu aldamót og meðalævin stutt þótt mjög hefði dregið úr frá því sem áður var, en það var tekið að bjarma fyrir nýjum degi.
    Fyrir nákvæmlega 100 árum hófst skipulögð barátta íslenskra kvenna fyrir mannréttindum er Hið íslenska kvenfélag var stofnað en það var fyrsta kvenfélagið sem hafði kvenréttindi á stefnuskrá sinni. Þeim konum sem þar lögðu hönd á plóg eigum við nútímakonur mikið að þakka, þær ófu uppistöðuna í þeim símunstraða glitvef sem við erum enn að vefa. Þær gáfu okkur réttindin, okkar er að nýta þau til að gera íslenskt þjóðfélag kvenlegra, betra, réttlátara og mannúðlegra, en þar er við ramman reip að draga. Í sumar ætla hundruð íslenskra kvenna að leggja land undir fót til að sameinast öðrum norrænum konum á Nordisk Forum í Finnlandi. Íslenskar hugvitskonur, athafnakonur, vísindakonur, listakonur, konur í stjórnmálum og konur úr nánast öllum stéttum og starfshópum ætla að sýna hvað íslenskar konur eru að fást við og leggja sitt af mörkum til norrænnar umræðu um stöðu kvenna. Þarna sameinast ótrúlegir kraftar í frumkvæði, sköpun og gleði sem vekja mikla athygli meðal systra okkar á Norðurlöndum.
    En nær þessi kraftur að blómstra hér heima? Hvar sér hans stað? Þurfa íslenskar konur að halda út fyrir landsteinana til að sýna og sanna að þær hafa margt að segja um framtíðina og þjóðfélagið? Hvernig nýtist sú auðlind sem felst í reynslu og hugviti kvenna? Hver eru áhrif kvenna á íslenska þjóðfélagsþróun hundrað árum eftir að skipuleg kvenfrelsisbarátta hófst hér á landi og hvernig er að þeim búið?
    Ef við horfum til hinna Norðurlandanna blasir við okkur sú staðreynd að hlutur kvenna hér er mun minni en þar tíðkast ef horft er til þjóðþinga og sveitarstjórna. Á meðan konur á hinum Norðurlöndunum eru nálægt 40% kjörinna fulltrúa erum við hægt og sígandi að nálgast 30%. Ef horft er til atvinnulífsins og samtaka þess er hlutur kvenna mun minni í stjórnum og stjórnunarstöðum en við sjáum annars staðar í hinum vestræna heimi. Jafnvel í Bandaríkjunum hefur konum orðið gífurlega vel ágengt á undanförnum árum á leið til aukinna áhrifa í atvinnu- og efnahagslífi, bæði með stofnun eigin fyrirtækja og almennri samstöðu um að fjölga konum í áhrifastöðum. Í þeim efnum er Ísland að verða eins og mosavaxið nátttröll með sitt gráklædda jakkafatalið sem ræður ríkjum nánast hvert sem litið er. Hér á Íslandi er því miður við lýði það fráleita kerfi að gamli fjórflokkurinn úthlutar nánast öllum opinberum valdastöðum til flokksgæðinga og er hin margendurtekna sorgarsaga úr Seðlabankanum dæmi um það, auk þess sem núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa raðað sínum mönnum svo grimmt á ríkisjötuna að annað eins hefur ekki sést um áratuga skeið. Menntun, reynsla og fagmennska koma þessum mönnum ekkert við og það segir sína sögu að nánast engar konur er að finna í röðum gæðinganna. Þessi ólýðræðislegu og ófaglegu vinnubrögð hafa valdið þjóðinni stórtjóni og verður að linna. Á meðan bananalýðveldi af þessu tagi ræður ríkjum verða konur meira og minna útilokaðar frá áhrifastöðum en með því er verið að halda þjóðinni allri niðri.
    Ef við horfum á launamál kvenna syrtir enn í álinn. Að meðaltali hafa konur um 65% af launum karla og þegar allt hefur verið dregið frá sem áhrif hefur á kjörin er til staðar launamunur sem ekki er hægt að skýra með neinu öðru en kynferði, þ.e. því að konur eru til færri fiska metnar en karlar. Þar við bætist að launataxtar fjölmennra kvennastétta eru svo lágir að ógerlegt er að lifa af þeim. Við búum hér við forneskjulegt og óréttlátt starfsmat, einkum í opinberum störfum, enda löngu ljóst að launakerfi ríkisins er handónýtt og má ekki bíða lengur að gjörbylta því með það að leiðarljósi að bæta kjör kvenna og afnema þau margvíslegu forréttindi og aukagreiðslur sem jeppaliðið nýtur.
    Á undanförnum árum höfum við orðið vitni að vaxandi óánægju vel menntaðra kvennastétta, enda launakjörin og kjararýrnunin algjörlega óviðunandi. Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar gripu til sinna ráða í fyrra og nú hefur lífsnauðsynleg stétt meinatækna verið í verkfalli um fjögurra vikna skeið. Á stærstu sjúkrahúsum landsins ríkir neyðarástand sem bitnar á veiku og þjáðu fólki, en það er eins og stjórnvöldum komi það ekki við. Þegar starfsmenn Herjólfs í Vestmannaeyjum fóru í verkfall var rokið upp og lög sett á þá. Þegar sjómenn fóru í verkfall í upphafi árs voru sett bráðabirgðalög til að stöðva það en þegar í hlut eiga sjúklingar og fámenn kvennastétt á sjúkrahúsum líður langt á milli samningafunda og ríkið virðist ekkert hafa að bjóða. Hvers konar verðmætamat er þetta? Hvers konar siðferði er þarna á ferð? Þótt ég sé á engan hátt að gera lítið úr þeim vanda sem verkföll sjómanna eða annarra valda þá er nöturlegt upp á að horfa að heilbrigðisyfirvöld skuli láta það viðgangast að verkfall á súkrahúsum dragist í fjórar vikur. Það á ekki að setja lög á meinatækna heldur að setjast að samningaborði þegar í stað og finna lausn á deilunni.
    Góðir áheyrendur. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, sjálft Viðeyjarundrið, sem átti að rjúfa kyrrstöðuna og skapa velsæld á varanlegum grunni, varð þriggja ára hinn 30. apríl sl. Að þessu sinni bárust engar fregnir af rjómatertum eða veisluhöldum enda litlu að fagna. Það má lýsa andanum á stjórnarheimilinu með þeim orðum úr kvæðinu um litlu hjónin ,,því lítið elskar litla Gunna hann litla Jón.`` Í eldhúsi ríkisstjórnarinnar er ástandið orðið bágborið. Kærleikurinn brostinn og vistir á þrotum. Þar hefur í vetur verið borin á borð skuldasúpa, beiskur sjávarútvegskokteill, landbúnaðarhakk og einkavæðingargrautur með frjálshyggjusaft út á. Allt heldur ólystugt, enda mikið rifist og hurðum skellt. Á því heimili bíða flestir þess að geta flutt út og það sem fyrst. Á meðan geisar atvinnuleysið úti fyrir. Aðgerðir í atvinnumálum eru allar í skötulíki, hallinn á ríkissjóði hefur aldrei verið meiri, hagur fjölskyldnanna versnar og kjörin rýrna. Félagsleg vandamál vaxa og það eru börnin sem súpa seyðið. Þannig er nú fjölskyldustefnan í raun á 50 ára afmæli lýðveldisins.
    En nú segjum við: Hingað og ekki lengra. Í loftinu liggur krafa um breytingu. Fólk er búið að fá nóg af handahófskenndum niðurskurði, nóg af einkavæðingaráformum íhaldsins, nóg af tillitsleysinu við barnafjölskyldurnar, nóg af valdníðslunni, spillingunni og takmörkuðum áhrifum þegnanna, nóg af dekrinu við stórfyrirtækin. Það styttist í uppgjörið við ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, en áður en til þess kemur endanlega gefst kjósendum kostur á að sína vilja sinn í verki og senda frjálshyggjuherrunum kveðju sem á stendur: Við viljum breyta.
    Það hefur alltaf verið markmið Kvennalistans að breyta þjóðfélaginu. Við viljum bæta stöðu kvenna og barna, við viljum aðra forgangsröð verkefna en þá sem tíðkast hefur, við viljum láta mannlegar þarfir sitja í fyrirrúmi, við viljum sjá þjóðfélag valddreifingar og virks lýðræðis, samfélag þar sem jafnræði ríkir milli manns og náttúru. En til að breyta svo um munar þarf hugarfarsbyltingu. Við kvennalistakonur ætlum á þessu vori að beita okkur í þágu breytinganna í samvinnu við þá sem vilja vinna með okkur. Og nú er tækifærið fram undan. Við segjum í anda skáldsins Leonard Cohens: ,,Fyrst er það Reykjavík, svo landið og miðin.``
    Góðir áheyrendur. Nú er að ljúka ellefta vetri Kvennalistans á Alþingi Íslendinga. Ekkert bendir til þess að tíma sérframboða kvenna sé að ljúka, enda aldrei brýnna en nú á tímum mikilla breytinga að standa vörð um hag kvenna og barna. Það hyggjumst við kvennalistakonur áfram gera, en við ætlum líka að sækja fram, breyta og bæta. Konur ráða enn of litlu á Íslandi og enn eru þeim skorður settar af hegðun, tregðu og því rótgróna karlveldi sem allt of miklu ræður um kjör okkar og líf. En góðir áheyrendur, þjóðfélagið er á fleygi ferð og það eru konur líka. Tími kvenna er örugglega runninn upp og héðan í frá fær ekkert stöðvað okkur. --- Góðar stundir.