Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

151. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 22:17:07 (7265)


[22:17]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Á 50 ára afmæli lýðveldisins er ekki úr vegi að hið háa Alþingi, flaggskip sjálfstæðis þjóðarinnar, staldri við og hugi að því hver staða þess sé nú, hvernig það rækir hlutverk sitt landi og lýð til farsældar.
    Því miður er það svo að okkur sem gegnt höfum þingstörfum um nokkurt árabil sýnist mörgum hverjum vegur þjóðþingsins ekki fara vaxandi heldur þvert á móti fari virðing þingsins dvínandi. Þingið gerir kröfur um virðingu fólksins í landinu, en sú krafa er innistæðulaus ef þingið virðir sig ekki sjálft. Stundum er svo að sjá að fyrir mönnum vefjist hver staða þingsins sé annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar. Svo langt gekk ruglingur um hlutverk löggjafarvalds og framkvæmdarvalds á sl. vori að hæstv. forsrh. hrifsaði þingið úr höndum hæstv. þingforseta í miðri dagskrá og sendi það heim án samráðs við hv. þm. Þarf vísast að leita til vanþróaðra landa til að finna líka þess hátternis.
    Alþingi á að vera óbilandi vígi lýðræðis og mannréttinda, en ekki leikvangur óprúttinna einstaklinga og hagsmunahópa. Þetta tekur tíma og oft á tíðum heyrast þær raddir að mikið sé talað á hinu háa Alþingi og ekki er það alltaf talið lofsvert. En einmitt í málfrelsinu felst lýðræðið sjálft, hinn helgi réttur

hins þjóðkjörna fulltrúa til að hafa áhrif í samfélaginu fyrir hönd umbjóðenda sinna.
    Vissulega er fljótlegra að stýra löndum og þjóðum með valdi og ofbeldi, en varla er það kostur sem nokkur Íslendingur kýs. Það er helgasta skylda hins háa Alþingis að tryggja rétt allra Íslendinga en ekki aðeins sumra. Kúgun og misrétti eru fylgifiskar þeirra þjóða sem ekki eiga sér þjóðþing sem allir hafa aðgang að. Nægir að líta til Suður-Afríku sem nú eygir von um að margra alda áþján linni. Fyrir þann sjálfsagða rétt að mega ganga til kosninga um eigin málefni hafa milljónir manna fórnað lífi sínu. Hafið þetta í huga á afmælisárinu, góðir landsmenn.
    Það er einnig umhugsunarefni á afmælisári lýðveldisins hvort hið þrískipta vald, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, sé glöggt aðgreint. Missi menn sjónar af því heldur ábyrgðarleysið innreið sína. Engum ætti að gleymast að það er hið háa Alþingi sem ákvarðanir tekur. Undir þeirri ábyrgð ber okkur hv. þm. að rísa. Hlutverk ríkisstjórna er að framkvæma vilja þingsins. Það er við okkur að sakast ef ríkisstjórn beitir valdníðslu og hroka.
    Enn alvarlegra umhugsunarefni á þessum tímamótum er að þarna fara menn í sífellu í flá. Svo langt gengur valdhroki ráðherra að embættismönnum þeirra leyfist að sýna þinginu lítilsvirðingu og dramb. Þinginu berast dólgslegar skýrslur um stofnanir þingsins og nægir að nefna skýrslu svokallaðrar sölunefndar SR-mjöls um Ríkisendurskoðun á dögunum. Fjölmiðlar kalla embættismenn suður í Brussel í hvert viðtalið á fætur öðru um það hvort Íslendingar eigi að gerast aðilar að Evrópubandalaginu og embættismennirnir eru ófeimnir að láta skoðanir sínar í ljós og telja ekki ómaksins vert að geta þess að það séu persónulegar skoðanir þeirra. Menn hljóta því að spyrja: Hver er ábyrgur? Hverjir stýra þessari þjóð?
    Þegar litið er yfir farinn veg á því þingi sem nú er að ljúka leita slíkar spurningar á hugann. Hverjum hefur það gott gert? Varla þúsundunum sem misst hafa frumrétt sinn til að afla sér viðurværis með vinnu. Varla sjúklingunum sem nú bíða lækninga vegna þess að ekki tekst að semja við meinatækna. Og tæplega eru þeir hamingjusamari sem ekki eiga fyrir lyfjum. Höfum við unnið gegn vaxandi ólæsi unglinga með betri skóla eða gegn ofbeldi og vímuefnanotkun ungmenna sem sífellt færist í aukana? Nei, góðir landsmenn. Við höfum ekki gert neitt af þessu. Það er rangur meiri hluti í þjóðþinginu okkar. Það er hnípinn hópur sem fer heim í hérað á þessu vori. Og íslenska þjóðin er hnípin þjóð í vanda. Þjóð sem aflar meiri tekna en flestar aðrar þjóðir heims, en lætur það viðgangast að þær færist á æ færri hendur og hefur gengið svo langt að afhenda örfáum aðilum sjálft fjöregg sitt, fiskinn í sjónum.
    Hvar eru aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar til hagsbóta fjölskyldunni á ári fjölskyldunnar? Enn liggur ekki ljóst fyrir hvort margra ára baráttumál fyrir embætti umboðsmanns barnanna í landinu verður að lögum á þessu þingi. Einnig er óljóst hvort frv. hæstv. félmrh. um húsaleigubætur verður að lögum. Ekkert, nákvæmlega ekkert, hefur verið gert í málefnum fjölskyldna ungra barna á þessu þingi. Hagur fjölskyldunnar er verri nú en verið hefur lengi og fáránlegt að hlusta á forustumenn Sjálfstfl. reyna að telja fólki trú um að nú séu málefni hennar í öndvegi. En ef til vill nær frv. til laga um Lífeyrissjóð sjómanna fram að ganga enda er þar um að ræða stórkostlega skerðingu enn og aftur á kjörum sjómanna og óvíst er hvort sjómennirnir og aðrir landsmenn fá þyrlu til bjargar lífi þeirra í neyð.
    Ráðherrar ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hafa eytt tíma sínum í fálmkenndar aðgerðir sem þeir kalla sparnað og helst hefur bitnað á þeim sem síst skyldi.
    Hæstv. forseti. Á sumri komanda er fyrirhugað að halda hátíð á Þingvöllum. Þingfundur verður settur á Lögbergi og kóngum og drottningum boðið til veislu. Enn er óljóst hvað á að ræða. Það skiptir ekki máli. Stjórnvöldum nægir að klæða sig tilhaldsplöggum og eiga hégómlegt samneyti við fyrirfólk frá útlöndum. Hverju skiptir það þó landsmenn eigi að borga?
    Aðeins að lokum, hæstv. forseti. Í sögu Halldórs Laxness af Brauðinu dýra segir frá vinnustúlku einni sem send var að sækja soðbrauð í hver. Þoka skall á og stúlkan villtist af leið. Á fjórða degi gengu leitarmenn fram á hana kalda og illa á sig komna með brauðið í fanginu. Áratugum síðar spurði nóbelsskáldið hana hvort hún hefði ekki verið ógn svöng og af hverju hún hefði ekki brotið af þessu sexpunda brauði? ,,Hvað ætli maður þurfi alltaf að vera að eta,`` sagði hún. ,,Maður etur nú líklega ekki það sem manni er trúað fyrir.``
    Þjóðin þarfnast ríkisstjórnar sem hefur siðfræði vinnukonu prestsins á Mosfelli að leiðarljósi, ríkisstjórnar sem sólundar ekki því sem henni er trúað fyrir. --- Góðar nætur, landsmenn.