Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

151. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 23:31:14 (7274)


[23:31]
     Jón Kristjánsson :
    Hæstv. forseti. Góðir tilheyrendur. Atvinnuleysi 8.000 manna er sú staðreynd sem er uggvænlegust í íslensku þjóðfélagi á 50 ára afmæli lýðveldisins. Meðan ástandið er svo stoðar ekki fyrir stjórnmálamenn að byggja málflutning sinn eingöngu á prósentum og samanburðarfræðum og innantómum slagorðum um vorið og uppskeruna. Efnahagsstjórn sem leiðir til slíks atvinnuleysis hefur mistekist, vörnin hefur brugðist. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur setið að völdum í þrjú ár. Afdrifaríkustu mistök hennar í upphafi voru að líta til fortíðar en ekki framtíðar. Þau voru dýrkeypt. Þrjú ár eru undrafljót að líða. Þó hefur þjóðfélagsgerðin breyst á þessum stutta tíma. Þeir ríku hafa orðið ríkari, þeir fátæku fátækari og raunverulegt atvinnuleysi er staðreynd. Örbirgð einstakra þjóðfélagshópa fer vaxandi, viðbrögð stjórnvalda eru m.a. að auka álögur í formi þjónustugjalda og fleira.
    Atvinnuleysi, sem mælist í 5,5% af mannafla, hefur alvarlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir þjóðfélagið og einstaklingana sem fyrir því verða. Hinni félagslegu og siðferðilegu hlið þess má ekki heldur gleyma. Stjórnvöld hafa gert hagræðingarkröfur til atvinnuveganna og opinberra aðila. Oft er lækkun útgjalda í því fólgin að fækka fólki eins og mögulegt er og ýta því út í atvinnuleysið. Ný atvinnutækifæri hafa ekki orðið til í stað þeirra sem tapast hafa af þessum sökum. Eðlilegt er að nýsköpun atvinnulífs sé í starfandi fyrirtækjum, að duglegir stjórnendur hafi svigrúm til að þróa nýja framleiðslu, færa út kvíarnar, skapa ný störf. Umhverfið sem stjórnvöld hafa skapað er ekki vinsamlegt slíkri starfsemi. Fjármagn liggur ekki á lausu til að leggja í áhætturekstur.
    Ástæður atvinnuleysisins eru m.a. þær að mistekist hefur að skapa ný störf í stað þeirra sem hafa tapast vegna endurskipulagningar í rekstri fyrirtækja. Ríkið situr hjá að mestu. Þetta kemur niður á fólkinu í landinu. Þetta verður til þess að margir þeir sem hafa verið í námi í vetur sjá ekki fram á atvinnu í sumar. Margir þeir sem hafa lokið kostnaðarsömu námi sjá ekki fram á atvinnu. Það er m.a. af þessum sökum sem þeir sem einhverra hluta vegna hafa lent til hliðar á vinnumarkaðinum sjá fram á algjört öryggisleysi. Hættan er sú að stjórnmálamenn og aðrir ráðamenn sljóvgist fyrir þessu ástandi. Ég fyllist skelfingu þegar ég heyri ábyrga menn bera það saman við það sem gerist í OECD-ríkjunum og komast að þeirri niðurstöðu að ástandið sé ekki svo slæmt hér þrátt fyrir allt. Atvinnuleysi hér sé aðeins 5,5% meðan það sé stórum hærra og meira í næstu nágrannalöndum. Þetta eru vísbendingar um að menn séu búnir að missa sjónar á takmarkinu um fulla atvinnu og missa hugsjónina um að á Íslandi geti verið þjóðfélag sem býr þegnum sínum þau mannréttindi að hafa atvinnu og velferð og vinna sé takmark og lífsfylling fyrir alla.
    Jón Helgason, prófessor og skáld, dró gildi vinnunnar saman í eftirfarandi ljóðlínum:
          Sú gjöf mér væri gleðilegust send
          að góður vinnudagur fari í hönd.
    Ég skelfist það sem stjórnmálamaður að eiga þátt í að skapa það þjóðfélag sem getur ekki boðið þegnum sínum upp á lífsfyllingu vinnunnar og þá ögrun að standa sig og vera einhvers virði í þjóðfélaginu. Ég vil ekki sjá það þjóðfélag á Íslandi að fólki þurfi að finnast því vera hafnað af samfélaginu. Ég vil ekki horfa upp á tvenns konar þjóðfélag, þeirra sem hafa vinnu og þeirra atvinnulausu, þeirra snauðu og þeirra ríku. En hvað er til ráða? Hvað geta stjórnvöld og einstaklingar lagt af mörkum til þess að ráða við atvinnuleysið?
    Þjónustustörf hafa tekið við mörgum sem hafa komið á vinnumarkaðinn undanfarin ár. Hins vegar hafa störf tapast í iðnaði í verulegum mæli og einnig í landbúnaði og sjávarútvegi. Það verður erfitt að halda fullri atvinnu í landinu nema fjölga á ný störfum í iðnaði. Ríkisvaldið getur haft forustu um að beina viðskiptum sínum til innlendra aðila, sama getur hver einstaklingur gert. Þetta viðhorf er í þjóðarsál hinna gömlu iðnaðarþjóða en þarna er verk að vinna fyrir okkur.
    Í rökstuðningi með tillögum sem framsóknarmenn fluttu á Alþingi í vetur um innkaup opinberra aðila kemur fram að íslenskir neytendur greiddu árið 1992 55--60 milljarða króna fyrir innfluttan iðnvarning. Ætla má að 20 milljarðar króna hafi verið greiddar fyrir innfluttar iðnaðarvörur sem framleiddar eru hérlendis. Þetta eru háar upphæðir sem þýða 5.800 ársverk. Það er því ekkert smámál að búa íslenskum iðnaði sem best skilyrði og breyta hugarfari einstaklinga og opinberra aðila honum í vil. Ég hef ekki orðið var við forustu stjórnvalda í þessu efni þrátt fyrir fullyrðingar þar um. Ríkisstjórnin er ráðalaus og sjálfri sér sundurþykk.
    Ég vil minna á þýðingu landbúnaðarins fyrir íslenskt atvinnulíf. Hann hefur ávallt verið mikilvægur í atvinnulegu tilliti og ekki síður undirstaða þjóðmenningar. Nú er horft til nýrra möguleika í sveitum um að hasla sér völl í útflutningi, m.a. í svokallaðri lífrænni framleiðslu. Stjórnvöldum ber að styðja þessa viðleitni og það markaðsstarf sem bændasamtökin hafa unnið að á þessu sviði. Það starf og þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir árangri fara saman við það að bæta ímynd okkar sem matvælaframleiðanda. Nauðsyn þess að halda landinu og hafinu hreinu og ómenguðu fer saman við þessi markmið. Árangur verður aldrei á þessu sviði nema í sveitunum sé traust byggð fólks sem varðveitir gögn landsins og gæði. Ferðaþjónustan byggist ekki síst á því að halda sérkennum landsins og viðhalda þeirri undirstöðu sem landbúnaðurinn er.
    Góðir Íslendingar. Kerfi kommúnismans er hrunið og sú upplausn sem fylgdi í kjölfarið setur svip á alþjóðastjórnmál og ekkert er vitað um það enn til hvers hún leiðir. Spámenn óheftrar markaðshyggju nota þetta hrun kommúnismans í röksemdarfærslu sinni fyrir algjöru athafnafrelsi undir því kjörorði að allir einstaklingar séu frjálsir og beri ábyrgð á sjálfum sér, geti sjálfum sér um kennt ef illa fari og flest samtök manna flokkist undir óæskilega miðstýringu. Þó að frelsi og ábyrgð einstaklinganna hljómi vel er mannlegu eðli gleymt. Þeir eru misjafnlega sterkir, sumir fæðast með silfurskeið í munni, aðrir ekki. Sterkir einstaklingar sigrast á kröppum kjörum og óblíðu umhverfi þegar vel tekst til. Aðrir gera það ekki. Þeir sem veikari eru fyrir verða oft og tíðum undir í lífinu og þurfa stuðning annarra. Þess vegna þarf siðað þjóðfélag að leggja fjármuni til velferðarmála og þræða hinn gullna meðalveg milli miðstýringar og óheftrar frjálshyggju. Sveitarfélögin gegna lykilhlutverki á þessu sviði. Því er nauðsyn að í sveitarstjórnum starfi fólk sem hefur þessi viðhorf að leiðarljósi jafnframt uppbyggingu í atvinnumálum og efnahagsmálum. Það fólk þarf að fá brautargengi í sveitarstjórnarkosningunum í vor.
    Sú þjóðsaga hefur verið lífseig að ómenguð hægri stefna setji einstaklinginn í öndvegi. Hið sanna í málinu er að þeir sem hugsa um atvinnuréttindi og velferð einstaklinganna setja þá í öndvegi. Hvar er virðingin fyrir einstaklingnum, vonum hans, óskum og þrám hjá þeim sem geta horft upp á það að hagtölur séu ofar mannlegum tilfinningum, atvinnuleysi upp á tugi prósenta ástand sem ekki verður breytt. Við skulum vona að íslenskt þjóðfélag verði aldrei þannig. Ég á mér þá ósk til íslensku þjóðarinnar á þessum vordögum að við verðum aftur þjóðfélag sem hefur velferð þegnanna og virðingu fyrir einstaklingum í heiðri. Í þeim anda viljum við framsóknarmenn vinna. --- Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.