Prentuð áætlun um þinghaldið

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 10:33:25 (7275)


[10:33]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Því er ekki að leyna að það er þó nokkuð mikill póstur sem berst til alþingismanna og þar á meðal hefur í vetur verið áætlun um störf þingsins. Þetta hefur verið vel prentað skjal, upplýsingar um það hvað ætti að gera, hvernig þingfundir ættu að vera í hverri viku, hvenær þinginu væri lokið og það má segja að þetta hafi verið eins og fullkomnasta flugáætlun allt til þessa. Nú ber nýrra við, engin áætlun liggur lengur fyrir. Prentuninni hætt, áætlanagerðin fyrir bí. Ég veit ekki hvað hefur gerst. En miðað við þetta mikla öryggi í siglingunni í vetur, á stjórn þingsins, þegar lokadagur var festur upp á punkt og prik, þá vekur það undrun mína hvílík blindsigling þetta er í dag. Ég verð að segja eins og er að þetta kemur náttúrlega óorði á alla áætlanagerð hjá þinginu. Það er mikil spurning hvort það hefur yfir höfuð nokkurn tilgang að vera að prenta þessi plögg um miðjan vetur. Til hvers? Og hætta svo þegar vorar.
    Ég mælist eindregið til þess að forseti geri grein fyrir því hvort það er höfundurinn að áætlanagerðinni sem er hættur að gefa út verk sitt, hvort það er prentstofan sem er hætt að prenta eða hvort það er dreifingaraðilinn sem hefur gefist upp á að bera þetta í hólf þingmanna. Og ef það er einhver af þessum sökudólgum þá verði reynt að ráða bót á þessu þannig að þingmenn fái upplýsingar um það hvort áætlanagerðin verði við lýði eins og verið hefur eða hvort menn séu alfarið hættir að líta á það sem nokkra nauðsyn að hinir almennu þingmenn fái að vita hvað ætlunin sé að gera í þinginu og hvað ætlunin sé að gera á næstu dögum. Mér hefur verið sagt að þetta stafi af því að nú stefni menn á 17. júní og telji ástæðulaust að gefa út neinar áætlanir fyrr en þá eftir 17. júní.
    En nú veit ég að forseti hefur vafalaust um þetta allar upplýsingar og mælist til þess að hann gefi yfirlýsingu úr forsetastóli þannig að þetta mál verði upplýst.