Skýrsla um skuldastöðu heimilanna

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 13:31:01 (7282)


[13:31]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég ætla kannski ekki að gagnrýna fundarstjórnina beint heldur vinnubrögð þingsins og ákveðið slys sem mér finnst að hafi hér komið fyrir gagnvart máli sem ég ásamt öðrum átta hv. alþm. lagði fram í desember sl.
    Þá lögðum við fram, níu framsóknarmenn, beiðni um skýrslu til félmrh. um skuldastöðu heimilanna. Alþingi samþykkti hér á fundi að verða við þessari beiðni og hæstv. félmrh. var send beiðnin. Nú segir í þingsköpum Alþingis, sem ég veit að hæstv. forsn. vill starfa eftir og hæstv. forseti virðir meira en nokkuð annað, um þetta atriði: ,,Níu þingmenn geta óskað skýrslu ráðherra um opinbert málefni. Skal beiðnin vera skrifleg og beint til forseta og má fylgja henni stutt greinargerð. Skal beiðnin prentuð og útbýtt meðal þingmanna á fundi. Á næsta þingfundi ber forseti það undir atkvæði umræðulaust hvort beiðnin skuli leyfð. Forseti tilkynnir hlutaðeigandi ráðherra um beiðni um skýrslu sem leyfð hefur verið.``
    Síðan segir: ,,Ráðherra skal ljúka skýrslugerðinni innan tíu vikna og skal skýrslan þá prentuð og útbýtt meðal þingmanna á fundi.
    Ef ráðherra eða skýrslubeiðendur, einn eða fleiri, óska þess skal skýrslan tekin til umræðu. Ráðherra gerir þá grein fyrir henni.``

    En núna fimm dögum eftir að Alþingi átti að vera lokið þá kemur þessi skýrsla hér fyrst inn á borð. Tuttugu vikum eftir að beiðnin er lögð fram og fimm dögum eftir að þinghaldi átti að vera lokið. Það kann að vera að það séu maðkar í mysunni. Ég ræddi það stundum hér hæstv. félmrh. hvenær skýrslan kæmi. Mér var jafnan tjáð að það vantaði upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun. Nú sé ég að Þjóðhagsstofnun hefur lokið sinni greinargerð um málið 30. mars, eða fyrir rúmum mánuði síðan. Þannig að það hefur ekki verið rétt. Auðvitað gruna ég ríkisstjórnina um að hafa ekki viljað fá fram þá svörtu skýrslu sem nú kemur hér inn á borð alþingismanna, um skuldastöðu heimilanna, fyrir hinn eðlilega eldhúsdag, að þeir hafi ekki viljað fá hana fram og til umræðu á eldhúsdegi. Hæstv. forsrh. leyfði sér að segja það hér í gær að nú væri vor fram undan og góð staða á öllum vígstöðvum þó hér séu átta þúsund manns atvinnulausir og skuldastaða heimilanna hafi á einu ári, eins og hér kemur fram, aukist um 8,7% að raungildi.
    Þetta er vanvirða við Alþingi Íslendinga og hv. þm. sem biðja um skýrslu. Ég vil spyrja hæstv. forseta, þegar verið er að setja niður tímasetningu þingsins, hvort ekki sé farið yfir það hvaða mál vantar úr ráðuneytum? Þetta mál er þannig að auðvitað verður það rætt hér. Við getum rætt hér um skuldastöðu heimilanna í heila viku. Þar blasa við verstu verk þessarar ríkisstjórnar.