Skýrsla um skuldastöðu heimilanna

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 13:37:29 (7285)


[13:37]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég sakna þess þegar ég spyr hæstv. forseta um atriði að mér sé ekki svarað og umræðan heldur stöðugt áfram. Hins vegar verð ég að segja það um málflutning hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að þetta var léleg vörn --- og sé ég nú að hæstv. félmrh. er gengin í salinn. En það vekur auðvitað athygli að enginn ráðherra Alþfl. talaði í gær og þeir virðast ekki hafa mál heldur í dag. Þeir svara ekki sjálfir, þeir senda þingmenn sína fram. Hvað er nú orðið um tungutakið í Alþfl., sem stundum hefur verið stórt, um að þeir vildu bjarga heimilunum.
    En ég geri, hæstv. forseti, athugasemdir við það að forsætisnefnd skyldi ekki ganga í þetta mál og gera sér grein fyrir því að hér er um svo stórt mál að ræða að það hlýtur að verða tekið hér til umræðu. Ég gat þess áðan að hæstv. félmrh. hefði sagt mér að það stæði á upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun. Nú kemur í ljós, hæstv. félmrh., að skýrslan kom inn til félmrn. 6. apríl. Það er 5. maí í dag. Og miðað við þær upplýsingar sem hér eru þá er mér ekkert að vanbúnaði og þinginu að taka þessa skýrslu til umræðu. Það getur verið margra daga verkefni. En ég verð að endurtaka það sem ég sagði áðan: Auðvitað grunar mann það að ríkisstjórnin hafi ekki viljað að þingmenn hefðu þær upplýsingar í höndunum þegar hér var verið að gera hreint á eldhúsdegi Alþingis í gærkvöldi því hér eru svo ljótar tölur um það hvernig skuldastaða heimilanna hefur þróast í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hér er hrollvekja á ferð, hér er stærsta vandamálið sem nú blasir við íslensku samfélagi, að margt unga fólkið er að missa heimilin sín og margar fjölskyldur eru að fara illa. Þessi ríkisstjórn hefur vissulega lagt drápsklifjar á fjölskyldufólkið á Íslandi, gert það af meira miskunnarleysi en nokkru sinni fyrr og þar hefur meðaltekjufólkið farið verst og unga fólkið á Íslandi. Þess vegna kann það að vera rétt að óska eftir umræðu frá Alþingi sem væri bæði útvarpað og sjónvarpað um þetta stóra mál.