Skýrsla um skuldastöðu heimilanna

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 13:46:07 (7289)


[13:46]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 5. þm. Suðurl. fyrir að hreyfa þessu máli. Hér er mjög alvarlegt mál á ferðinni og ég ætla ekkert að blanda mér í það hvernig þessi skýrsla er komin á okkar borð. Hins vegar er nauðsynlegt að ræða þessa skýrslu og ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem fór fram hér í gær. Það hefur vakið mikla furðu að forustumenn ríkisstjórnarinnar töluðu í gærkvöldi eins og það væri allt í lagi í þjóðfélaginu. Það verður að koma fram hvort þeir treysta sér til þess, með þá skýrslu sem liggur hérna á borðinu, að tala eins og það sé vor og gróandi í þjóðfélaginu og það sé allt í lagi. Auðvitað verður það að koma fram á næstu dögum. Auðvitað höfðum við grun um að ástandið væri eitthvað þessu líkt og þetta setur atvinnuástandið í landinu í enn þá alvarlegra ljós heldur en það var að sjá þvílíkar niðurstöður eins og eru í þessari skýrslu.