Skýrsla um skuldastöðu heimilanna

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 13:48:21 (7290)


[13:48]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hefur farið hér fram um þá skýrslu sem var verið að dreifa og þar sem það kom fram í máli hæstv. forseta að reynt væri að vinna vel og hratt að þeim skýrslum sem beðið væri um vil ég segja að það er nú pottur brotinn í þessu, a.m.k. í sumum tilvikum. Ég vil minna á að sú skýrsla sem dreift var hér fyrir fáeinum dögum síðan og beðið var um af þingmönnum Alþb., um Bifreiðaskoðun Íslands, var í smíðum í sex mánuði frá því að beðið var um hana. Það hafði verið spurt eftir henni hvað eftir annað á því tímabili. Það var nú ekki skýrsla sem var meiri að vöxtum heldur en þessi sem hér var verið að dreifa. Þannig að ég held að það þurfi nú kannski að halda svolítið betur utan um þessa hluti frá hendi þingsins og fylgja því eftir að þeim reglum sem settar eru um skýrslur sé þá fylgt eftir. Það er auðvitað sérlega bagalegt þegar beiðnir koma fram með eins löngum fyrirvara og þessum, snemma á þingvetrinum, að skýrslurnar skuli síðan ekki birtast fyrr en á lokadögum þingsins þegar nánast er útilokað að koma að umræðum um þær, sem þingmenn vilja kannski fá, af eðlilegum ástæðum, þegar um merkileg mál og stór er að ræða. Og ég vil taka undir það að þessi skýrsla sem nú hefur birst á borðum þingmanna er fullkomin ástæða fyrir því að taka upp umræðu um þetta efni og ég tek undir þá kröfu að það verði gefinn tími til þess, enda sé ég ekki að þingstörfin gangi yfirleitt það hratt þessa dagana að það breyti miklu þó það verði talað í nokkra klukkutíma um svo stórt mál sem þetta.