Skýrsla um skuldastöðu heimilanna

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 13:51:11 (7292)


[13:51]
     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Hér fóru fram í gær eldhúsdagsumræður um stöðu mála í samfélaginu og hæstv. forsrh. lýsti því yfir að nú væri vor, batnandi hagur hinna verst settu í þjóðfélaginu kæmi þeim nú þægilega á óvart, eins og hann sagði. Daginn eftir að þessi umræða fór fram birtist þessi umrædda skýrsla sem ég vil þakka hv. 5. þm. Suðurl. fyrir að vekja athygli á. Þar kemur fram að árið 1992 voru skuldir heimilanna 2% hærri en ráðstöfunartekjur, en nú sýna tölur að skuldir heimilanna eru 16% hærri en ráðstöfunartekjur.
    ( Forseti (SalÞ): Ég vil biðja hv. þm. að tala um fundarstjórn.)
    Ég ætla ekki að fara efnislega út í þetta frekar, frú forseti, en hér er auðvitað mál af þeirri stærðargráðu að það er óhjákvæmilegt að efna til umræðu um það og biðji ekki hv. upphafsmaður umræðunnar um utandagskrárumræðu þá munum við alþýðubandalagsmenn gera það. En að sjálfsögðu finnst mér réttur hv. 5. þm. Suðurl. í því efni eðlilegur. En við getum ekki skilið svo við þetta þing og farið heim að við skiljum þjóðina eftir í þessu ástandi án þess að hafa af því minnstu áhyggjur og án þess að afhjúpa ósannindi hæstv. forsrh. sem voru borin á borð fyrir landsmenn í gær.