Lyfjalög

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 13:56:37 (7295)


[13:56]
     Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar hefur verið nokkuð lengi til umræðu á hinu háa Alþingi og má segja að við séum komin í seinni hálfleik og er spurning hvort það verði framlenging á málinu, en um það snýst málið á þessari stundu hvort menn nái samkomulagi í því. Mér sýnist að svo geti orðið.
    Það er kannski fátt sem hefur komið manni á óvart í þessari umræðu undanfarna daga í lyfjamálinu nema það væri eitt. Það kemur manni mjög á óvart að það hefur enginn hv. sjálfstæðismaður tekið þátt í þessari umræðu. Það hefur nánast ekki einn einasti hv. þm. sjálfstæðismanna svo mikið sem sést í salnum á meðan þessi umræða hefur farið fram. Það eru nokkrir tryggir hv. þingmenn eins og Eyjólfur Konráð Jónsson og Eggert Haukdal sem sitja hér oftast í salnum ( Gripið fram í: Eru þeir ekki sjálfstæðismenn?) en þeir hafa ekki tekið þátt í þessari umræðu og enginn frá Sjálfstfl. úr hv. heilbr.- og trn.
    Það kemur sérstaklega á óvart vegna þess að við 1. umr. þessa máls voru það nokkrir sjálfstæðisþingmenn sem höfðu mikinn fyrirvara við þetta mál. Ekki sá forseti sem nú situr, en báðir þeir hæstv. forsetar sem sátu í morgun. Þannig að það kemur mér mjög á óvart að þeir skuli láta þetta mál sigla fram hjá sér án þess svo mikið sem taka þátt í

umræðunni. Ég hlýt að spyrja hæstv. forseta, hvers vegna það sé. En það eru að sjálfsögðu engin svör vegna þess að sjálfstæðismenn vilja ekki taka þátt í þessari umræðu einhverra hluta vegna, þeir vilja ekki taka þátt í þessari umræðu. ( SvG: Af hverju ætli það sé?) Það er spurt hér utan úr sal, að vísu ekki frá sjálfstæðismanni. ( SvG: Hvað segir Sjálfstfl.?) Ja, nú gengur hæstv. forsrh. í salinn og hann hefur eflaust svör við þessari spurningu sem ég er akkúrat að spyrja á þessari stundu: Hvers vegna hefur enginn sjálfstæðismaður tekið þátt í umræðu um lyfjalög? Varla þykir þeim þetta mál svo lítið og léttvægt að það sé ekki ástæða til að taka þátt í því. Það kann að vera eitt svarið. Og meðan annað svar fæst ekki, þá met ég það svo.
    Ég tel að við í minni hluta heilbr.- og trn. höfum svo sem ekki miklu við það að bæta sem fram hefur komið, en samt held ég að ég verði að spyrja formann heilbr.- og trn., sem hlýtur að vera hér í einhverjum hliðarsal, hvað hann á við nákvæmlega þegar hann segir það þráfaldlega í fjölmiðlum --- er hv. þm. hér í salnum forseti?
    ( Forseti (SalÞ): Ekki sér forseti að hann sé í salnum.)
    En hæstv. forseti mundi kannski sjá ef hann væri merktur inn í húsið?
    ( Forseti (SalÞ): Þingmaðurinn er í húsinu.)
    Hann er í húsinu. Ég vona að hv. formaður heilbr.- og trn. heyri mál mitt þegar ég spyr hann --- hann hefur margsinnis sagt að við værum með því að tefja þetta mál að tefja fyrir því að sjúklingar í þessu landi fengju lyfin sín á lægra verði og hann hefur meira að segja nefnt tölur í því sambandi. Hann hefur t.d. nefnt 100 millj. Mig langar að hann svari þeirri spurningu hér, hvernig hann skýri hana.
    Hann hefur einnig sagt um fulltrúa Kvennalista, Alþb. og Framsfl. að þeir hafi ekki nokkurn einasta áhuga fyrir öðru í þessu máli heldur en að ganga erinda apótekanna í landinu. Það sé eini áhuginn sem við sýnum þessu máli. Áhugi okkar á þessu máli sé sá að við séum að verja hagsmuni tíu apótekara í landinu, það sé áhugi okkar. Það er sem sé það álit sem hv. þm. hefur á okkur sem vinnum með honum að þessu máli og hann telur að við höfum engin heilbrigðismarkmið í huga þegar við tölum gegn málinu. Þetta er þungur áfellisdómur og við getum ekki setið þegjandi undir því.
    Mér dettur nú bara í hug gamla máltækið, margur heldur mig sig. Og það skyldi þó ekki vera eingöngu það sem hv. þm. er að hugsa um, að koma þessum tíu aðilum á kné, það sé bara eina markmiðið með lögunum. Og þá spyr ég nú: Er ekki hægt að gera það á fínlegri hátt en þetta? Ég mundi geta aðstoðað hann við það á annan hátt en lagt er til í þessu frv., ef það væri eina markmiðið, því það er hægt að skattleggja á ýmsa vegu án þess að kollvarpa kerfi sem hefur reynst ágætlega að mörgu leyti. Og við höfum margsinnis sagt að þær breytingar sem þurfi að gera á þessu kerfi sé hægt að gera á annan hátt en hér er boðað.
    Fyrir svo sem viku hélt hæstv. heilbrrh. mjög merka ræðu hér í þinginu og svaraði okkur þingmönnum þeim mörgu spurningum sem við beindum til hans og á þeirri ræðu mátti heyra að við gætum náð saman í þessu máli. Við gætum auðveldlega náð saman, en með því þyrfti kannski að skoða ýmsa þætti frv., því þau góðu markmið sem hæstv. ráðherra hafði nást ekki með þessu frv. ef að lögum verður. Við höfum svo margsinnis sagt og ég ætla ekkert að endurtaka það að það er einungis markaðshyggjan sem ræður ferðinni þegar þetta frv. er upphaflega samið. En sem betur fer hefur tekist að koma inn ýmsum breytingum og það eru yfir 20 brtt. sem fylgja þessu frv. Þetta er nánast orðið nýtt frv. Og ef við tækjum okkur örlítið lengri tíma þá gæti þetta orðið hið besta mál, því að við getum ekki skoðað lyfjamál einungis frá markaðshyggjunni. Við getum ekki skoðað þetta eins og við skoðum t.d. lambakjöt og hvaðeina sem við viljum selja á lágmarksverði. Við erum ekki að ræða um það á þessu tilviki. Við erum að ræða um aðra og miklu viðkvæmari hluti.
    Já, það kom margt fram í þessari ræðu hæstv. heilbrrh. þegar hann svaraði okkur þingmönnum. Hann taldi t.d. að þetta mundi örva lyfjafræðinga til að fara út á land og hann nefndi sérstaklega og var glaður yfir, eðlilega, að það væri nýbúið að veita embættið á Siglufirði. Þar hefðu tveir apótekarar sótt um stöðuna og hefði verið mjög erfitt að

ákveða hvor þeirra fengi hana. En ég er alveg viss um að hann þarf ekki að hafa áhyggjur af því, ef þetta frv. gengur svona fram eins og það liggur fyrir, það verður ekki nokkur apótekari sem sækir um Siglufjörð næst. Og þá spyr ég enn og einu sinni, þó það megi náttúrlega alls ekki hugsa um hag lyfjafræðinga, ekki þegar kemur að fjárfestingunni. Ég hef sagt það hér og skammast mín ekki fyrir það að ég hef áhyggjur af því að ungir lyfjafræðingar eru að fjárfesta úti á landi fyrir tugi milljóna sem verða einskis virði ef frumskógalögmálið á algerlega að gilda í þessum málum.
    Það kom annað fram í máli hæstv. heilbrrh., sem er óskylt þessu máli. Það var um þær auglýsingar sem hafa dunið yfir í þjóðfélaginu fyrir skömmu um það að hvetja sjúklinga til þess að athuga hvort læknar merki lyfseðlana með S-i þannig að það sé ávallt tekið ódýrasta sambærilega lyfið. Hann taldi að hann gæti náð þarna fram einum 200 millj. kr. sparnaði fyrir ríkið með því að auglýsa fyrir tæpar 5 millj. kr. Mér þykir það nokkrum tíðindum sæta ef það er virkilega orðið þannig í þessu landi að auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi frá heilbrrn. hafi áhrif á læknana, að þar séu ekki hagsmunir sjúklinga hafðir í fyrirúmi.
    Það var líka annað sem kom fram í máli hæstv. heilbrrh. sem mér fannst afar athyglisvert. Hann sagði að það væri æ oftar sem sjúklingar spyrðu lækninn sinn si svona: Hvað kostar nú þetta lyf, læknir minn góður? Og það var einmitt þetta sem sagði manni svo margt. Það skiptir auðvitað sjúklinginn orðið meira og meira máli hvað lyfið kostar vegna þess að hlutdeild sjúklingsins hefur hækkað úr innan við 20% í yfir 30% á mjög skömmum tíma. Það á auðvitað að vera markmið okkar allra að reyna að lækka lyfjaverð og það viljum við, en þá þurfum við að skoða þetta mál miklu heildstæðar heldur en við höfum gert hingað til og skoða það með innflutninginn í leiðinni.
    En það er ekki ástæða til á þessari stundu, þar sem ég hef nú tækifæri til að tala aftur ef í það fer og mér virðist vera kominn sá andi í menn að þeir vilji semja um þetta mál, þá ætla ég ekki að tefja hér tímann, en mig langar að spyrja hæstv. heilbrrh. einnar spurningar. Ég ætla ekki að koma með neinar flóknar spurningar hér í blárestina. En það er ein spurning sem mig langar til að spyrja hæstv. heilbrrh.: Af hverju heldur hann að Íslendingar neyti minna af lyfjum heldur en flestar aðrar þjóðir heims? Þetta er spurning sem við verðum að svara vegna þess að hún er mjög mikilvæg. En ég sé að hæstv. heilbrrh. hefur öðrum hnöppum að hneppa en að svara. En þetta er mjög mikilvæg spurning. Og við megum engu breyta í þessari þjónustu sem gerir það að verkum að við þurfum að neyta meiri lyfja en við raunverulega þurfum. Þannig að þetta er brennandi spurning sem ég vona að hæstv. heilbrrh. hafi velt fyrir sér.
    En ég hlýt enn þá að spyrja: Hvernig stendur á því að sjálfstæðismenn hafa ekki tekið þátt í þessari umræðu og varla sést í salnum þá löngu hríð sem þessi umræða hefur staðið yfir? Eru sjálfstæðismenn fullkomlega sáttir við frv. eins og það liggur fyrir? Ef þeir eru það þá er ekkert við því að segja og engin ástæða til að tefja þetta mál neitt fremur því það kemur auðvitað fram í atkvæðagreiðslu hver þeirra vilji er. En þetta er sú spurning sem fleiri en ég spyrja sig á þessari stundu. Hvernig stendur á því að þeir láta þetta mikilvæga mál algjörlega afskiptalaust?