Flugmálaáætlun 1994--1997

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 15:31:59 (7303)


[15:31]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Samgn. hefur haft til athugunar till. til þál. um flugmálaáætlun fyrir árin 1994--1997. Nefndin hefur kvatt á sinn fund Þorgeir Pálsson flugmálastjóri, Hauk Hauksson aðstoðarflugmálastjóri, Leif Magnússon, formann flugráðs, Jóhann Helga Jónsson hjá Flugmálastjórn, Ómar Benediktsson og Gunnar Þorvaldsson frá Íslandsflugi hf., Sigurð Aðalsteinsson og Jón Karlsson frá Flugfélagi Norðurlands hf., Hörð Guðmundsson frá Flugfélaginu Erni hf., Gústaf Guðmundsson frá Flugfélagi Austurlands hf. og loks frá Félagi einkaflugmanna Þorkel Guðnason, Guðmund Ásgeirsson og Víði Gíslason.
    Flugmálaáætlun var síðast lögð fram á 115. löggjafarþingi. Hún er nú til endurskoðunar á grundvelli 5. mgr. 1. gr. laga nr. 31/1987, um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum.
    Áætlunin tekur eins og lög standa til yfir fjögur ár og hana ber að endurskoða að tveimur árum liðnum þannig að þó að fjármagni sé skipt á fjögur ár í tillögum sem fram koma í flugmálaáætlun og breytingartillögum samgn. Þá verða síðari tvö ár á áætlunartímabilinu endurskoðuð eftir tvö ár.
    Sú flugmálaáætlun sem hér er komin til 2. umr. er að dómi nefndarmanna í samgn. vel unnin og með tillögunni fylgja upplýsingar sem eru mjög ítarlegar og gagnlegar um ýmsa þætti flugvalla, flugvallamála og flugmála sem nefndin hefur kynnt sér eftir því sem föng hafa verið til. Nefndin hefur og notið aðstoðar þeirra manna sem taldir voru upp og kvaddir voru á fund nefndarinnar. Þar komu fram nokkrar ábendingar um það sem betur mætti fara að þeirra dómi varðandi þessa till. til þál. um flugmálaáætlun.
    Það má kannski segja að einkenni á þessari tillögu sé það að lögð er áhersla á slitlagsframkvæmdir. Er það að dómi nefndarinnar vel að svo skuli vera. Tillagan greinir frá því að gert er ráð fyrir því að leggja á fyrstu tveimur árum áætlunartímabilsins slitlag á fimm flugvelli. Það eru flugvellirnir á Sauðárkróki, Húsavík, Siglufirði, Patreksfirði og Bíldudal.
    Við vinnu nefndarinnar er gengið enn lengra á þessari braut því að samkvæmt breytingartillögum hennar er gert ráð fyrir því að enn fremur sé fé varið á fyrstu tveimur árum áætlunartímabilsins til þess að leggja bundið slitlag á nýja flugbraut á Þórshöfn á Langanesi. Til þess að þetta mætti takast varð að hnika til nokkrum fjárhæðum og taka að hluta fé af óskiptu. Ég tel mjög skynsamlegt og í rauninni mikilvægt í senn að það skyldi takast að ná samkomulagi um það að færa til lítils háttar fjármagn til þess að ljúka gerð þessarar flugbrautar á Þórshöfn á Langanesi vegna þess að hún er ný og þurfa ekki að leggja í kostnað við bráðabirgðaslitlag á flugbrautinni heldur geta gengið frá henni á þessum tveimur árum.
    Rétt er að taka fram í sambandi við þessar framkvæmdir allar við slitlag á flugbrautum á flugvöllum að þær hafa að sjálfsögðu ekki enn verið boðnar út, en gert er ráð fyrir að bjóða þær út á þann hátt að tilboðin geti legið fyrir í nokkrum kostum. Í fyrsta lagi ef tilboðshafi eða verktaki byði í verkið allt í einni heild. Í öðru lagi að boðið væri í tiltekna flugvelli sem liggja nokkuð saman, t.d. flugvellina á Patreksfirði og Bíldudal, flugvellina á Sauðárkróki og Siglufirði og e.t.v. flugvellina á Húsavík og Þórshöfn.
    Þeir kostir munu líka gefa tilefni til þess að hægt væri að hnika eitthvað til framkvæmdatímanum og ef vel tekst til mætti e.t.v. að einhverju leyti vera hægt að hraða þeim framkvæmdum eftir því sem samningar takast um við þá verktaka sem bjóða í þessi verk. Ekki er nokkur leið að segja til á þessari stundu hvað vinnst í þeim efnum. Það hlýtur að koma í ljós miðað við tilboð þegar þau liggja fyrir og síðan samninga á grundvelli þeirra. En vonir standa til að það megi ná, miðað við þessa kosti sem ætlunin er að fram komi í sambandi við útboð, nokkuð aukinni hagkvæmni í verkinu sjálfu.
    Ég vil láta þess getið að þrátt fyrir að þetta mikla átak í bundnu slitlagi á þessa fimm flugvelli sem ég hef hér nefnt, þá eru nokkrir minni flugvellir eftir sem þarf að vinna

slík verk við og bíður það ýmist síðari hluta tímabilsins eða kemur til athugunar þegar þessi flugmálaáætlun verður endurskoðuð að tveimur árum liðnum.
    Enn fremur er rétt að láta þess getið að það er skoðun hv. nefndarmanna í samgn. að mjög hljóti að draga að því að ekki verði komist hjá því að leggja í verulegar og kostnaðarsamar framkvæmdir við Reykjavíkurflugvöll en sá flugvöllur hefur orðið að bíða vegna annarra framkvæmda sem í gangi hafa verið, bæði á síðasta tímabili og eins á því tímabili sem í hönd fer.
    Þetta er öllum ljóst sem fara um Reykjavíkurflugvöll en Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð innanlandsflugsins. Það má segja að það sé mjög mikilvægt að því hefur nú verið slegið föstu eftir því sem maður best veit að Reykjavíkurflugvöllur verði varanlega á þeim stað sem hann hefur verið síðustu áratugina enda yrði það stórkostlegur hnekkir fyrir innanlandsflugið að flytja hann frá höfuðborginni.
    Ég held að það sé ekki ástæða til fyrir mig að flytja um þetta langt mál. Ég veit að flugmálaáætlun er framkvæmdaáætlun þar sem lengi er hægt að óska eftir meira fé í tiltekin verk en við höfum ekki nema þann ramma sem áætlunin felur í sér og það verður að reyna að ráðstafa því fé eftir því sem mönnum sýnist að best komi að notum á því tímabili sem um ræðir.
    Ég vil svo einungis flytja nefndarmönnum í samgn. þakkir fyrir ágætt samstarf og góða vinnu í nefndinni varðandi þetta mál og þakka þá samstöðu sem varð um afgreiðslu málsins en nefndin skilar sameiginlegu nál. Hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Stefán Guðmundsson, Jóhann Ársælsson og Guðni Ágústsson skrifa þó undir nál. með fyrirvara.