Flugmálaáætlun 1994--1997

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 16:45:41 (7307)


[16:45]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegur forseti. Þar sem ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara vil ég gera lítis háttar grein fyrir honum við síðari umr.
    Flugmálaáætlun hefur tekið nokkrum breytingum frá því að hún var upphaflega lögð fram. M.a. hafa verið teknir inn fleiri lendingarstaðir heldur en upphaflega var áætlað og tel ég það vera til bóta. Einnig að bæta við C-lið í 4. flokki flugvalla þar sem eru þjónustuvellir, lendingarstaðir og lendingarstaðir í eigu og umsjá annarra en Flugmálastjórnar. Flugmenn hafa lagt á það mikla áherslu að það væri tiltekið í flugmálaáætlun og mun það vera aðallega vegna tryggingamála.
    Ég vil lýsa ánægju minni með að það skuli vera áformað að setja bundið slitlag bæði á Bíldudalsflugvöll og Patreksfjarðarflugvöll. Held ég að það hafi sýnt sig í þeim umræðum sem fram hafa farið um það mál þar sem verið var að gagnrýna það að nokkru að það þyrfti að vinna báða þessa flugvelli, að þeir bæta hvor annan upp. Annar virkar sem þverbraut á hinn.
    En athugasemdirnar sem ég hef fyrst og fremst fram að færa eru þær að einn staður á Vestfjörðum er ekki nefndur í þessum áætlunum og það er Þingeyrarflugvöllur. Athuganir hafa staðið yfir á Sveinseyri við Dýrafjörð um það hvort þar kæmi framtíðarflugvöllur. Þær athuganir standa að vísu enn þá og hefur ekki verið hætt við þær. En það hefur lítið komið fram um það hvernig þær athuganir hafa gengið. Þó enn sé fyrirhugað að halda þeim áfram þá tel ég að það þyrfti að setja meiri kraft í það og það færi að koma út skýrsla um það mál og svo í framhaldi af henni einhver ákvörðun. Ég er því mjög skeptísk á að ekki skuli vera sett fram neitt plan um hvorki Þingeyrarflugvöll, það hefur ekkert verið unnið að viðhaldi á honum og ekkert áframhald fyrirhugað á því og heldur engin ákvörðun tekin um hvort stefnt skuli að framtíðarflugvelli á Sveinseyri.
    Nú er það alveg ljóst að Ísafjarðarflugvöllur þarf á varaflugvelli að halda. Það er engin leið að búa þar til nema eina flugbraut því þar er ekki hægt að koma við neinni þverbraut. Í Dýrafirði eru allar aðstæður til þess auk þess sem menn hafa horft til þess að þar væri hugsanlega í framtíðinni hægt að stækka flugvöllinn og vera með beinan útflutning.
    Það er alveg ljóst að þegar jarðgöngin verða komin í gagnið þá verður meiri samnýting á þessum flugvöllum eftir veðri og aðstæðum. Það má einnig benda á að veðurfarslegar aðstæður eru allt aðrar í Dýrafirði heldur en á Ísafirði. Ég legg því enn og aftur ríka áherslu á að þetta mál sé skoðað í flugráði og ég harma að ekki skuli hafa verið tekin einhver ákvörðun um það í þessari flugmálaáætlun.
    Í öðru lagi vil ég koma að athugasemdum um áætlunarflugvelli í III. lið. Þar hefur nokkuð verið fært á milli flugvalla en ég tel að einn flugvöllur á Vestfjörðum hafi ekki fengið þá athygli sem þarf, þ.e. Gjögur. Þar er byggð sem þarf að treysta mjög mikið á flugsamgöngur og raunar skipasamgöngur sem hefur dregið mjög úr síðustu tvö árin. Þar er enginn vegur opinn meira en helminginn úr árinu og þess vegna nauðsynlegt að Gjögurflugvöllur sé í góðu ástandi. Ástandið er þannig að þar er malarflugvöllur, ekkert slitlag í raun og veru eftir af þeirri möl og völlurinn orðinn nánast ekkert nema holur og er illur yfirferðar. Ég hefði haldið að það væri nauðsynlegt að vinna að því að setja eitthvert slitlag á hann en í þessari áætlun er aðeins talað um á árinu 1994 flugbrautarljós á lengingu sem þar fór fram en engin framkvæmd síðan fyrr en 1996. Þá er það öryggissvæðið. Það er ekki minnst á neina lagfæringu á slitlaginu. Þetta hefði ég talið að þyrfti að athuga.
    Það eru eiginlega fyrst og fremst þær athugasemdir sem ég vildi koma á framfæri og einnig vil ég endurtaka það sem ég tók fram í fyrri umr. um þetta mál að ég tel að það eigi að koma til skoðunar hjá þingmönnum og samgn., sérstaklega á fyrri stigum þessarar vinnslu. Við erum að vísu með flugráð sem kosið er af Alþingi en það er það þröngur hópur sem þar á sæti og alls ekki fulltrúar allra flokka þannig að ég tel að það þurfi að vinna þetta meira í samráði við samgn. á fyrri stigum. Hef ég þá lokið þeim athugasemdum sem ég vildi koma á framfæri vegna míns fyrirvara.