Stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 17:19:37 (7312)


[17:19]
     Frsm. meiri hluta allshn. (Gísli S. Einarsson) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um till. til þál. um stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997 frá meiri hluta allshn. Tillaga þessi er lögð fyrir Alþingi í samræmi við 8. gr. laga um Byggðastofnun, nr. 64/1985. Snemma árs 1991 var lögum um Byggðastofnun breytt í því markmiði að leggja aukna áherslu á atvinnuþróunarstarf og áætlunargerð. Árið 1992 var áherslubreyting Alþingis gerð enn skýrari. Með breytingu var lögbundið að Byggðastofnun geri tillögu að stefnumótandi áætlun í byggðamálum til fjögurra ára í senn sem forsrh. leggur fyrir Alþingi. Skal þar koma fram stefna ríkisstjórnarinnar í byggðamálum og tengsl hennar við þá almennu stefnu í efnahags- og atvinnumálum, svo og við áætlanir á sviði opinberrar þjónustu í landinu.

    Við gerð byggðaáætlunar hefur Byggðastofnun samráð við fjölmarga aðila, þar á meðal ráðuneytið, Þjóðhagsstofnun, sveitarfélög og samtök þeirra. Stjórn Byggðastofnunar fjallar um stefnumótandi hluta byggðaáætlunar við undirbúning hennar og fylgist með framkvæmd þeirra þátta hennar sem henni er falið af Alþingi. Í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir er gerð grein fyrir meginmarkmiðum byggðastefnu og greint í fjórum liðum hvaða stefnumál verður lögð áhersla á til ársloka 1997.
    Lagt er til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Ólafur Þ. Þórðarson skrifar undir nefndarálitið með fyrirvara en stendur ekki að breytingartillögum.
    Lögð er til breyting í d-lið 1. tölul. og er lagt til að horft verði til landgæða í aðgerðum ríkisvaldsins á jaðarsvæðum.
    Lagt er til að c-liður í 2. tölul. falli brott en þar segir að forsrh. leggi fram skýrslu um framkvæmd fjögurra ára áætlunar um hvern þjónustumálaflokk sem verði grundvöllur fjárlagagerðar til lengri tíma. Gefast mun tækifæri til umræðna um byggðamál í umræðum um ársskýrslu Byggðastofnunar sem lögum samkvæmt fara fram ár hvert auk þess sem stefnumótandi áætlun verður endurskoðuð og því til umræðu annað hvert ár. Þykir c-lið því vera ofaukið.
    Þá er lögð til veruleg breyting á töflum undir d-lið 4. tölul. sem sýnir framlög til byggðamála. Eftir að tillagan kom til nefndarinnar kom í ljós að taflan þarfnaðist gagngerrar endurskoðunar. Breytingar á töflunni eru einkum tilkomnar vegna þess að ekki var rétt farið með framlög til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins í fyrri töflu. Í þeirri töflu var gert ráð fyrir að samanlögð framlög til byggðamála á tímabilinu mundu ekki lækka og að lækkun framlaga til Framleiðnisjóðs kæmi fram í samsvarandi hækkun framlaga til Byggðastofnunar. Við gerð tillögu að leiðréttri töflu er þetta lagt til grundvallar, en framlög til Framleiðnisjóðs eru 50 millj. kr. hærri samkvæmt búvörusamningi á næsta ári (1995) en taflan gerði ráð fyrir. Á árinu 1996 munar einnig 50 millj. kr. og á árinu 1997 munar 100 millj. kr.
    Auk þessa atriðis er varðar Framleiðnisjóð eru gerðar nokkrar leiðréttingar á töflunni og þær eru eftirfarandi:
    1. Samkvæmt þáltill. átti ekki að leggja fé í afskriftarsjóð Byggðastofnunar á yfirstandandi ári en samkvæmt rekstraráætlun stofnunarinnar fyrir 1994 verða lagðar 60 millj. kr. í afskriftasjóð og hefur stofnunin raunar þegar gert það. Nauðsynlegt var að leiðrétta gerðan hlut en að öðru leyti breytast framlög í afskriftarsjóð ekki frá því sem upphaflega var ætlað og verða þau 25 millj. kr. á ári út tímbilið sem tillagan nær til.
    2. Hlutfallsleg skipting framlaga til atvinnuráðgjafar og nýsköpunar breytist lítils háttar og þau framlög lækka lítillega vegna þess sem að ofan er getið, þ.e. framlög til Byggðastofnunar eru lægri en áður var miðað við en framlög til Framleiðnisjóðs aftur á móti hærri.
    3. Framlag félmrn. til atvinnumála kvenna er fellt niður enda er styrkjum til atvinnusköpunar meðal kvenna nú ráðstafað óháð búsetu þeirra á landinu.
    4. Árlegt framlag til að stuðla að fjárfestingu erlendra aðila hér á landi er fellt niður en undirbúningur að því verkefni fer nú fram á vegum viðskrn.
    Í nefndinni var fjallað um fram komnar brtt. við málið frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar. Þar var rætt um brtt. við málið frá þingmönnum Kvennalistans sem lögðu áherslu á að sérstakur atvinnuráðgjafi fyrir konur verði ráðinn í öllum landshlutum.
    Meiri hlutinn bendir á að með samþykkt brtt. Kvennalistans verða ekki aðeins lagðar auknar skyldur á Byggðastofnun til fjárframlaga heldur einnig á viðkomandi sveitarfélög. Meiri hlutinn hefur skilning á þeim sjónarmiðum sem liggja að baki brtt. um að það sé nauðsynlegt að huga að atvinnuskapandi verkefnum fyrir konur. Meiri hlutinn vill í þessu sambandi minna á að þegar eru konur starfandi sem atvinnuráðgjafar. Jafnframt vill meiri hlutinn benda á að í a-lið 4. tölul. þáltill. er tekið fram að áfram verði stutt við verkefni sem efla framtak kvenna í atvinnumálum.
    Björn Bjarnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Í umfjöllun um málið kom

það fram að menn töldu að það vantaði frekar kjöt á beinin sem svo er kallað, en við setjum það fram að þessi tillaga er aðeins rammi sem á eftir að fylla vel út í og mun það koma í ljós.
    Undir þetta álit skrifa hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, Eyjólfur Konráð Jónsson, Gísli S. Einarsson, Ingi Björn Albertsson og Ólafur Þ. Þórðarson með fyrirvara.