Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 17:46:39 (7314)


[17:46]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara og geri það sem starfandi viðskrh. Nú háttar svo til að þetta mál hefur áður verið flutt hér á hinu háa Alþingi og það er þingmönnum kunnugt. Ég hef um það upplýsingar að hv. efh.- og viðskn. hefur fjallað um málið á fundum sínum. Ég vil þakka henni fyrir það sérstaklega að hafa gert það þrátt fyrir að formlega hafi málinu enn ekki verið vísað til hennar. Í trausti þess að það sé fullur vilji til þess að afgreiða málið mun ég ekki fylgja því úr hlaði með einhverjum almennum rökstuðningi, heldur vil ég nota tækifærið og þakka nefndinni fyrir að hafa þegar unnið að málinu og hraðað því að málinu verði sem fyrst til hennar vísað. Ég legg því til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. efh.- og viðskn.